Fara í efni
Fréttir

Fordómar hamla enn í geðheilbrigðismálum

Hluti starfsfólks dag- og göngudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Frá vinstri: Árný Berglind Hersteinsdóttir, Brynja Vignisdóttir, Gestur Guðrúnarson, Árni Jóhannesson og Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Gleðilegum áfanga var náð í upphafi árs 2025, þegar enginn var lengur á biðlista fyrir þjónustu á dag- og göngudeild geðdeildar SAk. Mikil umbótavinna átti sér stað allt síðasta ár, en staðan var orðin það slæm í lok árs 2023, að loka þurfti í mánuð. Gestur Guðrúnarson og Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir mynda nýtt stjórnendateymi deildarinnar, en þau settust niður með blaðamanni Akureyri.net.

Þetta er seinni hluti viðtalsins við Gest og Ragnheiði.

Í GÆRENGIR BIÐLISTAR Á DAG- OG GÖNGUDEILD GEÐDEILDAR

 

Sel. Hér er dag- og göngudeild geðdeildar til húsa, vestan við aðalbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Mynd: RH

Dag- og göngudeild geðdeildar vinnur mjög náið með legudeild geðdeildar, sem er staðsett inni í aðalbyggingu SAk. Skjólstæðingar legudeildar eru gripnir af starfsfólkinu á Seli þegar innlögn lýkur. „Fólkið sem kemur af legudeildinni gengur fyrir, þau fá þjónustu strax,“ segir Ragnheiður. „Á biðlistanum er svo fólk sem hefur farið til heimilislæknis á heilsugæslunni, og fær tilvísun til okkar. Eins og við sögðum áðan, þurfti þetta fólk oft að bíða lengi. Það er liðin tíð, og vonandi náum við að halda því þannig, að biðin sé lítil sem engin.“ Ragnheiður segir að það sé þó líka dæmi um að fólk hafi sótt sér aðstoð á bráðamóttökuna án þess að vera lagt inn á legudeild geðdeildar, en fengið bráðaeftirfylgd á Seli.

Sel er ekki fyrsta stopp

„Hér er unnið í þverfaglegu teymi og þjónustan er einstaklingsmiðuð,“ segir Ragnheiður. „Fólk á að öllu jöfnu að vera búið að reyna ýmsa þjónustu í gegnum t.d. heilsugæsluna áður en það fær tilvísun hingað. Oft hefur verið t.d. reynd ýmis lyfjameðferð, sálfélagsleg þjónusta, þjónusta geðheilsuteymis eða meðferð hjá sjálfstætt starfandi geðlæknum. Svo er vandinn kannski orðinn það þungur að það verður að leita annarra úrræða. Þá kemur fólk í þjónustu hingað.“

Fólk hikar ekki við að taka blóðþrýstingslyf eða eitthvað því um líkt, en geðlyf, Guð hjálpi þér!

„Eitt af vandamálunum, er að fólk veit ekki alltaf hvernig það á að sækja sér aðstoð vegna geðræns vanda,“ segir Gestur. „Við erum ekki inni í samtalinu. Fólk hikar ekki við að fara til læknis með líkamlega kvilla, en geðið virðist vera erfiðari ástæða. Mér finnst að það vanti meiri umræðu um það hver við erum, fyrir hvað við stöndum og hvernig á að nálgast okkur, það er ennþá eitthvað tabú hjá mörgum, að ræða um geðið.

 

Margskonar virkni, handavinna, föndur, smíði og afþreyging er í boði á Seli. Hér hafa skjólstæðingar búið til kerti og þæft kindur. Mynd RH

Fordómar enn í samfélaginu um geðsjúkdóma

„Við viljum helst að fólk sæki sér aðstoð áður en það lendir í hruni,“ segir Ragnheiður. „Okkur langar að fólk viti betur af okkur og sjái þetta sem úrræði, þegar fer að halla undan fæti. Það þarf vissulega tilvísun frá heimilislækni og oft þarf fólk að vera búið að reyna þjónustu á lægri stigum, en það ætti ekki að stoppa fólk í því að leita sér hjálpar.“ Gestur segir að hann sjái í raun engan mun á því að leita til heilbrigðisstarfsfólks með geðrænan vanda, heldur en með fótbrot. „En ég veit, að það er munur þarna á hjá mörgum,“ segir hann. „Kannski er þetta viðtal einhver neisti. Ég hef átt nokkur samtöl, þar sem skjólstæðingar neita að taka geðlyf, vegna skammar, eða eitthvað slíkt. Fólk hikar ekki við að taka blóðþrýstingslyf eða eitthvað því um líkt, en geðlyf, Guð hjálpi þér!“

Fræðsla í boði fyrir aðstandendur

„Það eru enn ákveðnir múrar í samfélaginu sem þarf að brjóta, þegar kemur að fordómum og skömm varðandi geðsjúkdóma. Við erum enn í einhverjum fjötrum, hvað þetta varðar,“ segir Gestur. „Hér innanhúss er verið að vinna frábæra vinnu, sem er nauðsynleg og ætti ekki að þurfa að fara fram á bak við einhver tjöld. Að koma hinga á ekki að þurfa að vera erfitt samtal við vini og fjölskyldu.“ Gestur segir að fordómarnir séu inn í okkur og við erum alin upp við að geðrænn vandi sé feimnismál. Til þess að koma til móts við fólk, sem á erfitt með að ræða við sitt nánasta fólk um geðrænan vanda, er verið að þróa fræðslu fyrir aðstandendur inni á Seli.

„Sem betur fer er vitundarvakning síðustu ára að verða þess valdandi, að úrræðum hefur fjölgað,“ segir Gestur. „Hérna í bænum höfum við til dæmis frábært úrræði fyrir unga fólkið hjá Bergi Headspace. Aflið og Píeta samtökin hafa verið að taka á móti fólki sem lendir í þungum áföllum og svo er starfsemin í Grófinni geðrækt alveg frábær, en þar eru öll velkomin sem hafa tekist á við geðrænan vanda.“

Ragnheiður og Gestur segja að lokum, að í þeirra huga ætti Dag- og göngudeildin á Seli að vera sýnilegri, í raun hjartað í geðverndarstarfi bæjarins, og við á Akureyri.net hlökkum til þess að fjalla um starfsemina á jákvæðu nótunum.

 

Umbótavinnan á deildinni var unnin í þéttu teymi allra sem starfa þar. Ragnheiður og Gestur segja að vinnustaðurinn sé skemmtilegur og gefandi, þó starfið sé skiljanlega krefjandi á köflum. Hér eru þau Gunnar og Auður, sem vinna á deildinni. Mynd RH

Ekki allir starfsmenn á Seli eru á tveimur fótum. Leó er geðræktarhundur, en hann er starfsmaður mánaðarins alla mánuði. Rólegt og hlýlegt fas hans gerir mikið fyrir staðinn. Mynd RH

Margt spennandi á sjóndeildarhringnum

Í viðbót við þær jákvæðu fréttir, að biðlistarnir heyri sögunni til, er starfsfólk Sels í spennandi vinnu við að þróa nýtt húsnæði í samstarfi við arkitekta og Nýja Landsspítalann, en deildin fær aðstöðu í nýju húsnæði SAk sem er á teikniborðinu. Svo er tæknin að koma sterk inn líka, en í dag er til dæmis verið að safna fyrir nýju tæki á deildina, sem hefur verið að gefa frábæra raun erlendis. „Þetta er svokölluð TMS tækni, sem er notuð til þess að taka á meðferðarþráu þunglyndi og hefur sýnt 30% varanlegan bata, þar sem það hefur verið notað,“ segir Ragnheiður.

  • HÉR er umfjöllun á heimasíðu Geðhjálpar um þessa meðferð, TMS tæknina.
  • HÉR er svo umfjöllun Akureyri.net um söfnunina fyrir tækinu.

„Önnur meðferðarúrræði eru einnig í pípunum,“ segir Gestur. „Einnig viljum við koma því á framfæri að komin er í loftið þjónustukönnun sem send var á notendur dag- og göngudeildar geðdeildar og bíðum við spennt eftir því að fá upplýsingar úr henni til að vinna áfram að umbótum,“ segir hann að lokum.

 

Fleiri myndir af aðstöðunni á Seli: 

Og ein í viðbót af Leó, hann er svo dásamlegur: