Forboðnir ávextir og æsingur á Melum

„Fyrst og fremst, er leikritið skemmtilegt. Atburðarrásin er hröð, það gerist fullt og ég skal glöð gefa þeim gesti fimmu sem skilur allt sem á sér stað. Ég er ekki ein af þeim og var oft eitt spurningarmerki, en mátti ekki vera að því að dvelja við það þar sem næsta sena var hálfnuð.“
Þetta segir Rakel Hinriksdóttir meðal annars í pistli um leikritið Epli og eikur sem Leikfélag Hörgdæla frumsýndi á Melum á fimmtudaginn.
Rakel segir í pistlinum:
„Leikararnir voru líflegir og skemmtilegir, og leikstjórinn Jenný Lára Arnórsdóttir var greinilega búin að skrúfa vel upp í þeim, þar sem orkusviðið var mjög smitandi. Ég er ekki frá því að ég hafi verið svolítið æst þegar ég labbaði út í myrkrið eftir sýninguna. Mig langar ekki að draga neinn sérstakan fram, mér fannst leikhópurinn standa sig mjög vel í heild. Það er krefjandi að leika ýktar persónur í ýktum aðstæðum og þau gerðu það listavel.“