Fara í efni
Mannlíf

„Fólk veit að við gerum okkar allra besta“

Bryndís Bjarnadóttir og Eydís Sigurgeirsdóttir, nýútskrifaðir bráðatæknar hjá Slökkviliðinu á Akureyri. Mynd: RH

Að vera bráðatæknir er íslenskun á orðinu paramedic, og er hæsta menntunarstig sjúkraflutningamanna. Fyrstu konurnar til þess að mennta sig sem slíkir hjá Slökkviliði Akureyrar eru þær Bryndís Elva Bjarnadóttir og Eydís Sigurgeirsdóttir. Þær luku náminu, sem er ekki hægt að taka á Íslandi, frá skólanum NMETC í Massachusetts í Bandaríkjunum 19. febrúar síðastliðinn. Blaðamaður Akureyri.net kom sér fyrir með bráðatæknunum nýútskrifuðu í huggulegum sjúkrabíl og forvitnaðist um námið og starfið.

Þetta er seinni hluti viðtalsins við Eydísi og Bryndísi.

 

T.v. Bryndís og Eydís við sjúkraþyrlu í USA, þar sem þær voru í starfsnámi. T.h. Sjúkraflutningafólk að störfum. Myndir úr einkasafni.

Lögsóknin alltaf yfirvofandi í USA

Það er forvitnilegt að spyrja út í starfsnámið í Bandaríkjunum, en það er helst kannski úr sjónvarpsþáttum og bíómyndum, sem við teljum okkur vita eitthvað um heilbrigðiskerfið þar í landi. Eydís og Bryndís hlægja svolítið að því, og segja að það hafi vissulega margt eftirminnilegt átt sér stað. „Það er náttúrlega ákveðinn grunnmunur á Bandaríkjunum og Íslandi,“ segir Eydís. „Fyrir utan mjög ólíkt heilbrigðiskerfi, sérstaklega með tilliti til kostnaðar fyrir fólk, þá er líka mjög mikið um lögsóknir. Það gerist mjög oft, að fólk lögsækir heilbrigðisstarfsmenn fyrir allt og ekkert, sem við þekkjum ekki hér heima. Það gerir það að verkum, að starfsfólk fer óhjákvæmilega að halda að sér höndum eða gera of mikið, vinnur minna að hag sjúklingsins og einbeitir sér meira að því að fara eftir bókinni og passa sig að hafa vaðið fyrir neðan sig í lagalegum skilningi.“

Heilsulæsi almennings er ekki gott, á heildina litið. Fólk hefur minni hugmyndir um það, hvað er hægt að gera, hvað skilar árangri og er raunhæft

Eydís tekur sem dæmi, þegar rosalega mikið slasaður sjúklingur var fluttur með þyrlu frá öðru sjúkrahúsi, og það var alveg augljóst í þeirra augum – að þessi sjúklingur var, því miður, látin við komu á sjúkrahúsið og með ólífvænlega áverka. „Það var bókstaflega allt reynt. Í rosalega langan tíma og við stóðum eiginlega bara þarna og skildum ekki fyrir hvern var verið að gera þetta. Þá voru þau í rauninni bara að tikka í boxin, til þess að geta varist ásökunum eða lögsóknum. Það var okkar tilfinning,“ segir Bryndís. „En þetta er ofboðslega stórt og flókið umræðuefni, og hefur margar hliðar, siðferðislegar og allskonar. En spurningin er alltaf, hvenær er verið að gera of mörg inngrip, til þess eins að komast hjá því að vera lögsóttur. Því miðpunkturinn á alltaf að vera hagur sjúklings og fjölskylda þeirra.“

 

T.v. Bráðatæknar mega gera skurð á barkann og setja túbu þar inn ef illa gengur að tryggja öndunarveg. T.h. Fagmannlega búið um þennan 'sjúkling' í skólanum. Myndir úr einkasafni.

Telja heilsulæsi betra á Íslandi

„Þetta er flókið og viðkæmt umræðuefni, en það sem stendur líka upp úr hjá okkur, er að samfélagið á Íslandi er betur statt varðandi heilsuvitund,“ segir Bryndís. „Það er að segja, fólk virðist vera meðvitaðra um heilsu almennt. Ef fólk greinist með sjúkdóm, til dæmis, þá setur það sig inn í hlutina og sækir sér þekkingu, það tekur ábyrgð líka sjálft. Það kemst að því, hvað felst í sjúkdómnum, hvers vegna lyfin eru tekin og fleira. Þetta er eflaust líka meiri umfjöllun í okkar menntakerfi að þakka. Okkur fannst þessu ábótavant úti í Bandaríkjunum. Heilsulæsi almennings er ekki gott, á heildina litið. Fólk hefur minni hugmyndir um það, hvað er hægt að gera, hvað skilar árangri og er raunhæft. En þetta bara okkar tilfinning, eftir vinnuna á þessum stað,“ bætir Bryndís við.
 
„Hérna heima er heilbrigðisstarsfólki almennt treyst, fólk veit að við erum að gera okkar allra besta,“ segir Eydís. „Traustið er allt öðruvísi. Það spilar líka inn í að sjúkdómsgreining í Bandaríkjunum getur orðið til þess að fólk og fjölskylda þeirra verður gjaldþrota. Það er oft þannig að fólk veigrar sér við að biðja um aðstoð úti, vegna kostnaðar. Gerir það kannski ekki fyrr en það er um seinan. Það eru bara allt öðruvísi hagsmunir í gangi. Þetta erum við mjög fegnar að sleppa við, og að vera að vinna í kerfi sem er treyst.“
 
 

Bandarískt úrval af sjúkrabörum. Það dreymir engan um að þurfa að liggja á svona, en það er gott að vera í góðum höndum ef til þess kemur. Mynd úr einkasafni.

Starfsumhverfið mjög ólíkt á milli landa

Annað sem Eydís og Bryndís taka fram, varðandi muninn á starfinu í Bandaríkjunum og á Íslandi, er álag og framkoma við starfsfólk. „Hinn almenni Bandaríkjamaður vinnur rosalega mikið,“ segir Eydís. „Sjúkraflutningafólk úti þar sem við vorum, vinna 48 tíma á viku, sólarhringsvaktir, fá ekki vel borgað þannig að flest eru þau í annarri 100% vinnu fyrir utan það. Taka aukavaktir, aðstoðarvaktir á sjúkrahúsum eða reka fyrirtæki, til dæmis. Þetta gerir það náttúrlega að verkum að fólk er alltaf þreytt, en það er líka mikið andlegt álag í þessari vinnu eins og gefur að skilja. Það er eins og þetta starfsumhverfi sé sett upp til þess að láta fólk brenna út! PTSD, eða áfallastreita, er mjög algeng hjá þessari stétt þarna úti.“

 

Hér heima hikum við ekki að taka samtalið og við erum að passa upp á hvort annað. Við ræðum það sem kemur upp og fylgjumst með líðan hvers annars.

Þær muna sérstaklega eftir atviki, sem átti sér stað í starfsnáminu í Bandaríkjunum, þar sem þær voru hvorugar á vakt. „Þá var útkall varðandi mjög alvarlega veikt tveggja ára barn, það fór í hjartastopp og endurlífgun bar ekki árangur og fór það svo að barnið dó. Við vorum hissa á því að þetta var ekkert almennilega viðrað, og það sem meira er – þá fékk starfsfólkið skammir fyrir að hafa farið á tveimur sjúkrabílum í þetta útkall en ekki einum.“ Í þessu tilviki, sem og öðrum, tók starfsfólkið málið í sínar eigin hendur og þau fóru út að borða saman og reyndu að vera til staðar fyrir hvert annað. Bryndís bætir við að það beri alveg á umræðunni um þessi mál, áfallastreitu í hinum ýmsu stéttum, en þeirra upplifun var að umræðan væri ekki að skila sér inn á vinnustaðina í verki.

 


112 dagurinn var haldinn hátíðlegur nýlega, en þá voru viðbragðsaðilar af svæðinu með ítarlegar kynningar á starfi sínu á Glerártorgi. Slökkviliðið var þar að sjálfsögðu líka. Eydís og Bryndís segja að það sé vel passað upp andlega líðan viðbragðaðila á Íslandi, sem er ekki sjálfsagt. Mynd: Akureyri.net

Tekið utan um fólk eftir erfið útköll

„Vinnuvikan okkar hérna heima telur 36-38 tímar á viku og við getum látið það duga þó svo að margir sinni öðrum tilfallandi verkefnum eða vinnu í frítímanum,“ segir Eydís. „En við erum ekki tilneydd til þess, til að ná endum saman eins og þarna úti. Til að mynda sinnum við báðar einhverskonar kennslu, en það er því okkur finnst það svo skemmtilegt.“ Bryndís segir að það sé líka mikill munur á því, hvernig tekið er utan um starfsfólk sem lendir í erfiðum útköllum eða aðstæðum. „Hér heima hikum við ekki að taka samtalið og við erum að passa upp á hvert annað. Við ræðum það sem kemur upp og fylgjumst með líðan hvers annars. Við erum mjög sterk og samheldin fjölskylda, í Slökkviliði Akureyrar.“ Eydís tekur undir það og segir að það sé mjög vel haldið utan um fólk og það er mikil virðing borin fyrir andlegri heilsu og því að fólk þarf að vera úthvílt, það þarf að hreyfa sig og borða vel og fá aðhlynningu og rými til þess að vinna úr erfiðum atvikum í starfi.

Gott að koma aftur heim

„Stundum, eftir mjög erfið útköll, er haldinn fundur með viðbragðsaðilum og fólki sem kom að útkallinu,“ segir Eydís. „Stundum er prestur viðstaddur, sálfræðingur eða félagsráðgjafi, einhver utanaðkomandi sem stýrir því sem við köllum 'viðrun'. Þá förum við í gegnum atburðinn saman og allir fá tækifæri til að spyrja spurninga. Úti í Bandaríkjunum, þar sem við vorum allavegana, var okkar upplifun að það er enginn sem grípur þig á erfiðum stundum í starfinu. Þetta er gríðarlega mikilvægur munur, og við eigum að vera stolt af því að vera svona meðvituð um þessi mál.“ Að lokum segja Eydís og Bryndís að það sé auðvitað aldrei allt fullkomið í heilbrigðiskerfinu okkar, og alltaf rými til bætinga. „En við vorum fegnar að koma aftur heim!“

 

Þetta var seinni hluti viðtalsins við Eydísi og Bryndísi. Fyrri hlutinn var birtur í gær.