„Fólk á að kaupa minna af fötum og nýta betur“

Nýverið gerði Akureyrarbær samning við Rauða krossinn við Eyjafjörð um söfnun á textíl fyrir sveitarfélagið. Þá fer í raun allur textíll í gegnum flokkunarstöðina þeirra í Viðjulundi, hvort sem hann fer í endursölu eða endar í gámi með textílúrgangi sem er sendur úr landi, eða eitthvað annað. Það er nefnilega margt hægt að nýta, og fróðlegt að heimsækja flokkunarstöðina, þar sem sjálfboðaliðarnir ráða ríkjum. Blaðamaður Akureyri.net kíkti í kaffi og fékk að forvitnast um starfið.
Hjartað í flokkunarstöðinni, en hér eru það sjálfboðaliðarnir sem eru með skipulagið á hreinu. Mynd: RH
Aldrei meira komið inn, en endurnýtingin betri
„Það eru söfnunargámar hérna fyrir utan,“ segir Gunnar Frímannsson, sjálfboðaliði og reynslubolti í flokkuninni. „Þar sem fólk skilar til okkar þeim textíl, fötum og öðru, sem þau eru hætt að nota. Það er mikilvægt, og mig langar að minnast á það núna, að það á að setja allt þarna sem getur flokkast undir textíl. Sama þó það sé ónýtt og ekki hæft til endursölu. Við komum öllu í farveg, en vissulega viljum við helst fá allt hreint. Bómullarefni söfnum við sérstaklega, en það fer í Bjarg-Iðjulund þar sem starfsfólkið þar býr til olíutuskur. Þær nýtast vel og eru seldar í togarana og á verkstæði til dæmis.“
Fólk á náttúrulega að kaupa minna af fötum og ganga lengur í þeim
Við röltum útfyrir, þar sem verið er að loka fatagámi sem er á leiðinni suður, en á síðasta ári voru 14 stútfullir gámar sendir úr landi. Rauði krossinn við Eyjafjörð sendir árlega um 150-170 tonn af textíl erlendis, en Gunnar segir að þetta magn fari þó minnkandi með árunum. „Við erum að ná að nýta meira hérna heima,“ segir hann. „Það kemur meira inn til okkar en nokkurntíman, en endurnýtingin er meiri.“
Smekkfullur gámur sem fer suður á næstunni. Mynd: RH
Mikið sent til endursölu í öðrum verslunum
Sjálfboðaliðarnir mæta þrjá morgna í viku og pokarnir úr söfnunargámunum eru keyrðir inn fyrir. Þar er sturtað úr pokunum á borðið og vandlega farið í gegn um hverja flík, efnisbút, sængurver eða hvað sem nú dúkkar upp. „Bestu flíkurnar fara í kassa sem fara í fatabúðina okkar eða í aðrar verslanir,“ segir Gunnar. „Við sendum í verslanirnar á Sauðárkróki, Blönduósi, Þórshöfn, Búðardal, Borgarnesi og svo sendum við mikið á Suðurnesin til endursölu þar. Svo eru aðrir kassar þar sem við setjum það sem er selt á markaðnum.“
Stór þáttur í þessu er að við komum hérna til þess að hittast
Það er alveg greinilegt, að það er mikið skipulag í flokkunarrýminu, og góð stemning hjá sjálfboðaliðunum. Það er vissara að passa hvar maður leggur frá sér yfirhöfn eða húfu, þegar maður heimsækir þau, en einn prakkarinn er snöggur að kasta úlpu blaðamannsins á flokkunarborðið. Það er mikið hlegið og greinilega ekki í fyrsta skipti sem aðkomufólk lendir í þessu. „Þetta er mjög félagslegt hjá okkur,“ segir Gunnar, þegar úlpan er komin í öruggt skjól. „Stór þáttur í þessu er að við komum hérna til þess að hittast. Við fáum líka hreyfingu út úr þessu og það er svo ekkert verra að vita að þessi vinna kemur Rauða krossinum að gagni.“
Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyjafjarðardeildar Rauða krossins. Mynd: RH
Samdráttur í sölu en þó aukin umhverfisvitund
Verslun Rauða krossins í Viðjulundi er opin alla virka daga og laugardaga, en þar eru bestu bitarnir til sölu. Deildin er jafnframt með verslun á Dalvík þar sem er opið frá miðvikudegi til föstudags, og á Ólafsfirði þar sem er opið á miðvikudögum. Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri Eyjafjarðardeildar, segir að það sé samdráttur í sölu í verslunum. „Við erum að sjá samdrátt bæði í búðunum okkar og á markaðnum á Akureyri,“ segir hún. „Það er samt að koma upp á móti, að við höfum verið dugleg að selja lopavörur í miðbænum, sem hefur gengið mjög vel.
„Okkar tilfinning er samt að það sé aukinn vilji til þess að versla notað,“ segir Ingibjörg. „Við sjáum meira af yngra fólki í hópi viðskiptavina, og finnum fyrir aukinni umhverfisvitund. Þegar við höfum verið að rýna í þessi mál, þá held ég að ástæðan fyrir samdrætti í sölunni úr búðinni, sé líka af því að það eru fleiri nytjamarkaðir í bænum núna, sem er mjög gott mál.“
„Ég veit ekki til þess að neitt annað sveitarfélag hafi gert álíka samning við félagasamtök, eins og Akureyrarbær hefur gert við okkur um þessa textílsöfnun á svæðinu,“ segir Ingibjörg. „Mig langar að hrósa bænum fyrir að velja að fara þessa leið og styðja við þetta verkefni. Báðir aðilar hafa hag af þessu fyrirkomulagi.“
Í sal Rauða krossins við Viðjulund er verið að gera klárt fyrir markaðinn, sem er haldinn fyrsta miðvikudag og fimmtudag í hverjum mánuði. Mynd: RH
Markaður Rauða krossins er haldinn fyrsta miðvikudag og fimmtudag hvers mánaðar, í salnum í Viðjulundi. „Þá fara kassarnir sem við erum búin að fylla allan mánuðinn af fötum og textíl sem ekki fer í búðirnar, upp í sal auk allskonar dótarís sem kemur stundum með í söfnunarkassana. Alls konar leikföng, spil, púsl og ótrúlegasta dót getur dúkkað upp,“ segir Gunnar Frímannsson. Hann segir að það hafi margt skrítið komið í gámana, en það sé eftirminnilegast þegar þau fundu gervilim. Hann fékk að standa keikur á flokkunarborðinu þangað til að þau fengu leið á honum, en ekki var íhugað að koma honum í endursölu.
Verða vitni að mjög mikilli sóun
„Fólk á náttúrulega að kaupa minna af fötum og ganga lengur í þeim,“ segir Gunnar að lokum. „Það er ótrúlega mikið af fötum sem kemur hérna inn, sem eru ónotuð eða næstum því ónotuð. Við verðum vitni að frekar mikilli sóun, en við gerum okkar besta til þess að nýta allt sem kemur inn. Auðvitað er auðveldrara að selja það sem er vel með farið og lítið notað, en við viljum samt hvetja fólk til þess að vanda sig og nýta betur.“
Gríðarlegt magn af textílúrgangi fer í gegnum flokkunarstöðina í Viðjulundi. Eflaust gætum við flest gert betur. Keypt minna og nýtt betur. Mynd: RH