Fara í efni
Mannlíf

Fögnuður ljóðs og lífs þrátt fyrir krabbamein

Ásgeir H Ingólfsson ljóðskáld og blaðamaður. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Hér er viðburðurinn mín kæru, til að fagna lífinu, dauðanum, eftirlífinu, öðrum víddum og almennri ást og vinskap.“

Óvenjulegur viðburður á samfélagsmiðlinum Facebook vekur áhuga blaðamanns Akureyri.net. Lífskviða 2025 heitir viðburðurinn, og þegar hann er skoðaður nánar kemur í ljós að um er að ræða litla listahátíð manns, sem er með krabbamein og hefur fengið þær fréttir frá lækni að hann eigi vikur, eða í besta falli mánuði ólifaða.

Ásgeir H Ingólfsson er 48 ára gamall, ljóðskáld og blaðamaður. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri en hefur búið víða. Tvær ljóðabækur hafa komið út eftir hann, Framtíðin og Grimm ævintýri. Nú síðast hefur hann alið manninn í Prag, við störf og skriftir, en síðustu vikurnar hefur hann þó búið heima hjá móður sinni, Hrefnu Hjálmarsdóttur, í Hjallalundi á Akureyri. Þar taka þau mæðgin á móti blaðamanni með heimabakaðri hjónabandssælu og kaffi.

Óvænt strik í reikninginn hófst með brákuðu rifi

Krabbameinið kom mjög óvænt og skyndilega inn í líf Ásgeirs, en það hófst í rauninni með því að hann brákaði rifbein, sem virtist sakleysislegt í fyrstu. „Ég var í Tallinn í nóvember síðastliðnum, á ferðalagi,“ segir Ásgeir. „Ég datt og brákaði mig og ætlaði nú að kíkja til læknis en hummaði það eitthvað fram af mér. Ég gerði það svo loksins þremum vikum síðar þegar ég kom aftur heim til Prag. Þau voru svolítið lengi að finna brákunina en þau sjá eitthvað annað þarna líka. Tveimur dögum síðar kom í ljós að það var krabbi.“ Eftir töluverða bið og óvissu í greiningarferlinu er ljóst að Ásgeir er með krabbamein í vélinda og lifur.

Það kom á daginn að ég þurfti kannski meiri umhyggju en ég hélt

„Systir mín, Auður, og mamma komu til mín fljótlega eftir greiningu,“ segir Ásgeir, sem var óviss með það fyrst, hvort að hann vildi takast á við veikindin í Prag eða heima á Íslandi. „Við vorum saman úti um jólin og svo fór ég heim með þeim 1. janúar. Ég á alveg þægilegri sófa og stærra sjónvarp í íbúðinni minni í Prag. En ég sakna þess lítið núna, það kom á daginn að ég þurfti kannski meiri umhyggju en ég hélt.“ 

„Ég man það allra fyrsta sem ég hugsaði, þegar ég heyrði um krabbann,“ segir Ásgeir. „Þau sátu þarna á móti mér, læknir og félagsráðgjafi, með einhverjar væntingar um að ég hlyti að þurfa að tala um tilfinningar gagnvart dauðanum og eitthvað svoleiðis. En ég var ekki þar. Allra fyrsta hugsunin var; Allt sem ég á eftir að skrifa. Hvað næ ég að klára? Ég hugsaði um öll ljóðin, skáldsögurnar, allt sem liggur óklárað í tölvunni minni. Kannski fæ ég lengri tíma en þau segja, en ef ekki? Næ ég allavegana að klára það mikilvægasta?“

 

Ein af þeim myndum sem fylgdu Facebook færslu Ásgeirs þar sem hann sagði frá veikindum sínum. Hann fékk þó allavegana einar góðar fréttir á sjúkrahúsinu, sem hann segir frá í færslunni: „Eftir að hafa verið skráður 182-3 cm alls staðar síðustu áratugi er ég svo bara 184. Ég er ennþá að stækka!“ Mynd: Facebook

Listin, arfleifðin og Lífskviðan

„Allra neikvæðasta greiningin sem ég fékk, var fyrir svona viku síðan, það sem væri hægt að kalla dauðadóm,“ segir Ásgeir. „Ég var kominn með þessa hugmynd áður, um að setja upp einhvern viðburð. Ég fór svo eitthvað að hugsa um það sem er á skjön. Líkvökur, jarðarfarir. Í staðinn vildi ég eitthvað sem innihélt orðið líf. Vinur minn stakk svo upp á orðinu Lífskviða. Okkur fannst það fallegt og ákváðum við að skíra viðburðinn það.“ Viðburðurinn mun eiga sér stað á laugardaginn kemur við Götu sólarinnar í Kjarnaskógi, en það verður opið hús frá 14-17 og svo hefst hin aðalgiggið kl. 19, segir Ásgeir. „Það sem verður á dagskrá verða ljóð, tónlist, list, ræður og hvað sem okkur dettur í hug. Það er nóg að flottum listamönnum að mæta, frægum og óuppgötvuðum í bland,“ segir hann. 

Í hverju er arfleifðin falin? Hvað skiljum við eftir?

„Við hugsum kannski, þegar við heyrum orðið ævistarf, að því fylgi feit bankabók,“ segir Ásgeir. „Þetta á bara ekki við um ansi mörg okkar. Fæst klárum við það sem við ætlum okkur og mörg eigum við kannski lítið eftir handa erfingjum. En mér finnst þetta vera kjaftæði, vegna þess að það er bara útaf þessari forskrift. Í tölvunni minni er hellingur af verðmætum, það sem ég hef skrifað og skapað.“ Verðmæti manneskju er margslungið og Ásgeir segist hafa fundið því sem er óklárað, farveg í fangi vina sinna. 

„Vonandi bara reddast þetta og ég hef einhverja áratugi til þess að klára þetta sjálfur,“ segir Ásgeir. „En ef ekki, þá er ég búinn að finna ljósmæður og ljósfeður fyrir hugverkin. Þá geta þau tekið þetta og klárað fyrir mig. Sumt er kannski mjög nálægt því að vera klárt, og þá verður kannski kvittað fyrir það með mínu nafni og aðstoð frá Jóni. Sumt er rétt byrjað, og þá verður kvittað fyrir það með nafni Jóns, með þökk fyrir kveikjuna frá Ásgeiri.“ 

Það eru mörg búin að boða komu sína í Lífskviðuna. „Í rauninni er viðburðurinn opinn öllum,“ segir Ásgeir. „Öll eru velkomin, þó ég þekki þau ekki neitt. Auðvitað er ekkert mikið pláss, það komast fjörutíu í sæti, en það er líka hægt að kíkja bara við. Ég er búinn að fá mikla hjálp frá fólkinu mínu til þess að skipuleggja og það er draumurinn að hérna blandist saman hugverk og list og úr því verði eitthvað líf.“ Ásgeir segir að það sé svo fallegt, að það sé allskonar lið á leiðinni til Akureyrar til þess að vera með. „Ég hef búið svo víða, að vinahópurinn minn er stór og dreifður sem þekkist ekkert mikið innbyrðis. Mér finnst fallegt að þau tengist.“

 

Lífsstarf Ásgeirs hefur verið við skriftir. Hér er hann í myndatöku fyrir viðtal, þar sem hann var á ólíklegustu stöðum í Prag, alltaf að skrifa.
Upphaflega planið var alltaf að verða rithöfundur, segir Ásgeir, en hefur ílengst í blaðamennskunni. Ljóðin hafa samt alltaf fylgt honum. Mynd: Facebook/Tyko

Krabbameinsorðaforðinn er leiðinlegur

Ásgeiri finnst orðaforðinn í kring um krabbamein frekar leiðinlegur, en hann minnist á það þegar við erum að vandræðast með orðið dauðadómur, eða að fá dóm. „Ég er til dæmis búinn að banna fólki að nota orðið 'æðruleysi',“ segir hann. „Mér finnst það svo mikið kjaftæði. Æðruleysi er hættulegt, auðvitað á það stundum við, en ef mig langar að vera reiður þá má ég það alveg líka.“

„Ég er fæddur á Akureyri en hef búið tvist og bast, hér, í Reykjavík og erlendis,“ segir Ásgeir. „Síðustu tíu árin hef ég verið mest erlendis.“ Ég var fyrst blaðamaður fyrir alvöru á Mogganum, fyrir Davíð, og hef skrifað fyrir ýmsa fjölmiðla síðan. Ég lærði bókmenntafræði en tók svo mastersgráðu í blaðamennsku og ritlist, nældi mér í kennsluréttindi. Þráðurinn hefur verið blaðamennska, ljóðagerð og önnur skrif.“ 

Ljóðin hafa alltaf heillað Ásgeir

„Ég held að ljóð skapi farveg,“ segir Ásgeir. „Af öllum skrifandi formum held ég að ljóðlistin sé að sumu leyti, fyrir mér, félagslegust.“ Ásgeir segist ekki hafa mikla skrifaorku eins og er, en hann er með stórt ljóðahandrit í pípunum sem hann hefur náð að hafa orku í að skipta niður í minni hluta og koma til vina sinna. „Ég hef eiginlega ekki skrifað neitt um krabbann,“ segir Ásgeir H Ingólfsson, en viðtalið varð ekki lengra, enda hjónabandssælan hennar Hrefnu komin á borðið.

 

Að lokum birtum við hér ljóð úr seinni ljóðabók Ásgeirs, Framtíðin. 

NÚNA

Hvenær byrjar nútíðin?
Byrjar hún fyrir eða eftir Búsáhaldabyltingu?
Fyrir eða eftir næstu byltingu?
Fyrir eða eftir mig?
Byrjar hún fyrir eða eftir þessi kaflaskil?
Byrjar hún núna eða misstum við af byrjuninni á meðan við biðum í biðröðinni?
Byrjar hún eftir að bókin kemur út?
Byrjar hún fyrir eða eftir næsta punkt? 

 

Ásgeir hafði frumkvæði að þáttunum Ljóðamála á N4 árið 2021, en þar voru leidd saman ljóðskáld og leikstjórar til þess að færa áhorfendum frumsamin ljóð í Covid-faraldrinum. Hér má sjá þegar hann las sjálfur ljóð í þættinum, en serían eru enn aðgengileg á YouTube.