Flugsystur: „Erum með háfleyg markmið“

Flugsystur eru ný samtök sem eru fyrir konur í flugi. Það eru flugmennirnir Helga Sigurveig Kristjánsdóttir og Auður Birna Snorradóttir sem stofna samtökin og boðið verður til veislu í Skýli 13 um helgina, þar sem Flugsystur takast formlega á loft (ekki bókstaflega, þær ætla að halda sig á jörðinni þetta kvöldið!). Opnunarkvöldið verður laugardaginn 22. mars og Auður Birna og Helga segja að það séu allar velkomnar sem hafa áhuga á flugi, það þurfi ekki að vera flugmaður til þess að vera með.
Þetta er annar hluti viðtalsins við Helgu og Auði Birnu, sá fyrri birtist á Akureyri.net í gær.
„Við erum aðallega að hugsa um vináttu, samfélag og stuðning, hjá Flugsystrum,“ segir Auður Birna. „Til dæmis eftir erfitt flug, þegar þig vantar einhvern sem þú treystir og þarft að fá að tala.“ Það er mikilvægt fyrir konur í flugi, að efla samstöðu, einfaldlega vegna fámennis. Helga tekur sem dæmi, en hún er formaður Vélflugfélags Akureyrar, að þar séu reglulega viðburðir. „Ég fæ nánast undantekningarlaust skilaboð frá konum í félaginu, hvort að ég ætli að mæta, það er eins og við þurfum að vita af hver annarri upp á að vilja mæta.“
Blaðamaður heimsótti Helgu og Auði Birnu í Skýli 13, en þar er Flugskóli Akureyrar til húsa. Auður Birna kennir hjá skólanum og Helga er flugmaður hjá Norlandair. Það var vetrarfrí í skólum bæjarins þannig að synir blaðamanns voru dregnir með í vinnuna. Það þótti þeim ekki leiðinlegt, en þeir fengu að skoða allskonar flugvélar og prófa flughermi meðal annars. Mynd: RH
Umræðan á netinu getur verið óvægin
„Ég fylgist mjög vel umræðunni um kvenflugmenn á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Auður Birna. „Og nú er til dæmis mikið rætt um að í flugslysi sem varð um daginn hjá Delta flugfélaginu, þar sem vélin lenti í raunni á hvolfi, var kona í flugstjórnarklefanum. Hún var ekki flugstjóri, heldur aðstoðarflugmaður, en hún er samt að fá útreiðina í umræðunni. Ef þú leitar að upplýsingum um þetta slys á netinu, þá er hræðilega illa talað um hana, þó að hún hafi ekki borið ábyrgðina.“ Helga tekur undir og rifjar upp þegar annað flugslys varð í Bandaríkjunum, þar sem flugvélin hafnaði í Hudson ánni við New York borg, hafi kona einmitt verið flugmaður – en ekki flugstjóri. Þáverandi og núverandi forseti þar í landi hafi látið hafa eftir sér að hann vildi ekki útiloka það, að kyn flugmannsins hafi átt hlut að máli.
„Svona mál gera það að verkum, að konur kannski upplifa meiri pressu,“ segir Auður Birna. „Ég fylgist mjög vel með, eins og margar aðrar. Við erum þakklátar fyrir stöðuna hérna á Íslandi, ég efast um að umræðan yrði svona ef að eitthvað kæmi upp á.“ Helga segir að kennari sem hún hafði hafi sagt að það væri svolítill munur á því, að kenna konum og körlum, en karlarnir væru frekar til í að láta vaða og prófa eitthvað sem þeir teldu sig vera komnir með á hreint, frekar en konurnar. „Þær vilja alltaf vera með allt upp á tíu, áður en þær gera hlutina.“
Við ítrekum það, að það er mjög góð stemning hérna og alls ekki þannig að við upplifum okkur eitthvað lægra settar en neinn annar
„Ég hefði viljað þekkja aðra konu í náminu mínu,“ segir Helga. „Einhverja fyrirmynd, sem ég hefði getað leitað til.“ Auður Birna segir að það séu yfirleitt mikið fleiri nemendur í Flugskóla Akureyrar sem eru karlkyns, til dæmis eru allir 15 nemendur í bóknámi karlkyns núna. „Það eru tvær stelpur í verklegu námi, þannig að hlutfallið er frekar ójafnt þetta árið. Það hafa samt komið ár þar sem hafa verið betri hlutföll. Ég var sjálf með stelpum í bekk þegar ég lærði, við vorum þrjár eða fjórar og ég var mjög heppin.“
Helga er flugmaður hjá Norlandair og sinnir sjúkraflugi. Myndir: aðsendar
Það vantar fyrirmyndir fyrir ungar konur í flugi
„Það verður að taka samt fram, að ég upplifi mig mjög velkomna í karlahópinn,“ segir Helga, og Auður Birna tekur undir það. „Við ítrekum það, að það er mjög góð stemning hérna og alls ekki þannig að við upplifum okkur eitthvað lægra settar en neinn annar. Enda er hlutverkið með Flugsystrum einfaldlega að búa til samfélag fyrir okkur, til þess að deila reynslu, kynnast og eignast vinkonur í fluginu. Þetta er alls ekki þannig að við séum ekki velkomnar, eða að það sé ekki staður fyrir okkur. Þetta er spurning um félagsskap.“
Helga segir frá skemmtilegri sögu, þar sem hún fékk hringingu frá eldri manni sem ætlaði að segja sig úr Vélflugfélaginu, sökum aldurs. „Hann hafði svo hætt við, þegar hann sá að það var kona í formennsku í félaginu, það fannst honum alveg frábært.“ Auður Birna segir frá því, hvað það vanti líka bara fyrirmyndir fyrir ungar konur í flugi. „Ég var búin að vera með 20-30 kennara í flugi, þegar ég lenti á mínum fyrsta og eina kvenkyns kennara. Ég var alveg með stjörnur í augunum, mér fannst hún svo svöl. Hún var búin að vera í listflugi, hafði alist upp á flugvellinum með pabba sínum, smíðað vélar og allt. Pínulítil spænsk kona, en svo sterk og flott. Hún kenndi mér til dæmis margt varðandi það að færa vélarnar þegar maður hefur ekki líkamlega burði í það. Ég lærði margt af henni sem ég hefði ekki lært af karlmanni.“
Auður Birna hefur verið flugkennari í Málaga á Spáni og nú kennir hún hjá Flugskóla Akureyrar. Myndir: aðsendar.
Draumurinn að geta veitt styrki í framtíðinni
„Í framtíðinni langar okkur í Flugsystrum að vera með fjáraflanir og geta styrkt konur til flugnáms, til dæmis,“ segir Auður Birna. „Við erum með styrktaraðila í dag, Flugskóli Akureyrar er okkar helsti styrktaraðili, Vélflugsfélagið og 55 Markaðsstofa líka, en við erum að leita að fleiri styrktaraðilum. Öll starfsemi verður í sjálfboðavinnu, og draumurinn því að geta nýtt fjármagn sem kemur inn til góðra verka. Kristján Víkingsson, eigandi Flugskólans er mjög ánægður með framtakið og líst mjög vel á það að hvetja til þess að laga kynjahlutföllin svolítið.“
Að koma þarna í kjól og hælum hefði verið eitthvað skrítið, en þetta er allt í hausnum á manni auðvitað
„Ég var eina konan af 32 flugkennurum á Malaga á Spáni, þar sem ég bjó síðast,“ segir Auður Birna. „Ég upplifði ekki fordóma þar, en ég tók aldrei þátt í félagsstarfi í fyrirtækinu. Mér fannst eitthvað óþægilegt að mæta sem eina konan á einhvern fínni viðburð. Að koma þarna í kjól og hælum hefði verið eitthvað skrítið, en þetta er allt í hausnum á manni auðvitað. Þarna hefði verið gott að hafa einhverja með sér.“
„Á viðburðinum sem við ætlum að halda til þess að fagna stofnun Flugsystra, ætlum við einmitt að gera okkur svolítið fínar, koma saman og skála,“ segir Auður Birna. „Við ætlum að horfa saman á myndbönd um konur í flugi, spjalla og kynnast. Við ætlum að kynna vefsíðuna, sem er enn í vinnslu, og bjóða þeim sem vilja taka þátt að leggja eitthvað til málanna. Þetta er ekki bara ég og Helga, þetta verður samvinna og við viljum sjá samtökin þróast í takt við þær konur sem taka þátt. Við erum með háfleyg markmið!“ segir Auður Birna að lokum.
Merki Flugsystra
Viðburðurinn verður haldinn í Skýli 13, kl. 20.00, laugardagskvöldið 22. mars. Flugsystur hafa opnað Facebook síðu, þar sem frekari upplýsingar er að finna. Einnig bendir Auður Birna á að það gæti verið gaman fyrir áhugasöm að fylgja Flugskóla Akureyrar á samfélagsmiðlum.