Fara í efni
Fréttir

Flogið með tvo slasaða vélsleðamenn á SAk

Þyrla Landhelgisgæslunnar við Sjúkrahúsið á Akureyri í dag. Myndir af Facebook síðu lögreglunnar.
Tveir vélsleðamenn slösuðust í Eyjafirði í dag og voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hvorugur er talinn alvarlega slasaður. Annað slysið varð í Grýtubakkahreppi en hitt í Þorvaldsdal en þyrlan sótti báða í sömu ferð.
 
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra kemur fram að tilkynning hafi borist kl. 15.56 um slasaðan vélsleðamann við Þönglabakka í Grýtubakkahreppi. „Í kjölfarið voru sjúkraflutningamenn á Akureyri ræstir út sem og björgunarsveitir frá Grenivík og Akureyri. Vegna staðsetningar slyssins þótti ljóst að erfitt yrði fyrir viðbragðsaðila að komast á vettvang og að verkefnið yrði tímafrekt. Því var óskað eftir aðstoð frá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Áhöfn björgunarskips Sigurvins frá Siglufirði var einnig ræst út í þetta verkefni. Aðgerðastjórn á Akureyri var virkjuð.“
 
Tæpum klukkutíma síðar, kl. 16.44, þegar viðbragðsaðilar voru á leið á vettvang í Grýtubakkahreppi, barst önnur tilkynning um vélsleðaslys, skammt frá gangnamannahúsinu Derri í Þorvaldsdal, handan fjarðarins. Lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir frá Dalvík voru send þangað og aftur var óskað eftir aðstoð frá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar við að flytja hinn slasaða á SAk.
 

Fór svo að þegar þyrla LHG hafði sótt vélsleðamanninn úr Þönglabakka flaug hún yfir í Þorvaldsdal og sótti hinn vélsleðamanninn og flutti á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.