Fjórar hokkíkonur frá SA halda í víking
Óhætt er að segja að fram undan séu miklar breytingar á kvennliði Skautafélags Akureyrar í íshokkí fyrir komandi tímabil. Að minnsta kosti fjórar hokkíkonur frá SA munu freista gæfunnar erlendis og mögulega fleiri á leiðinni. Þrjár munu spila með toppliðum í næstefstu deild í Svíþjóð og ein í efstu deild í Danmörku. Þrjár hafa flutt sig suður og spila með Fjölni og SR. Þessi útrás akureyrskra hokkíkvenna er ekki ný og nokkrar hafa farið út á undanförnum árum. Sunna Björgvinsdóttir er til dæmis lykilleikmaður í Södertälje og gríðarlega vel metin þar, en liðið fór í undanúrslit í sænsku 1. deildinni í fyrra. Silvía Rán Björgvinsdóttir spilaði með liði Hammarby í Svíþjóð, en meiddist illa snemma á þessu ári. Hún er byrjuð aftur og verður áhugavert að sjá hvar hún mun spila í vetur.
Gunnborg Petra Jóhannsdóttir (2004), Herborg Rut Geirsdóttir (2001) og Katrín Rós Björnsdóttir (2004) fara allar til félaga í Svíþjóð og Inga Rakel Aradóttir (2005) til Danmerkur. Áður hefur komið fram að Saga Margrét Sigurðardóttir Blöndal (2003) hafi skipt úr SA í Skautafélag Reykjavíkur þar sem hún mun spila á komandi tímabili. Berglind Rós Leifsdóttir (2001) og Hilma Bóel Bergsdóttir (2004) munu spila með Fjölni.
Það verður þó væntanlega enginn uppgjafartónn hjá kvennaliði SA því þar er áfram blanda af eldri og reyndari leikmönnum ásamt ungum leikmönnum sem fá þá tækifæri í stað þeirra sem eru farnar annað. Þessi útrás akureyrskra hokkíkvenna ber svo auðvitað starfi í yngri flokkum og meistaraflokki hokkídeildar SA gott vitni, svo ekki sé meir sagt.
Sterkari deildir, stærri umgjörð
Gera má ráð fyrir að það yfirgefa heimhagana til að spila hokkí erlendis verði nokkur viðbrigði hjá þessum stelpum, nema hvað Herborg Rut hefur áður spilað bæðí í Noregi og Svíþjóð. Það er ekki aðeins styrkleiki deildanna sem stelpurnar eru að takast á við heldur má einnig gera ráð fyrir stærri og meiri umgjörð. Sem dæmi má nefna að höllin þar sem Katrín Rós mun spila tekur 5.500 manns. Stærri liðin í 1. deildinni eru mörg hver með marga erlenda leikmenn og mikill munur á þeim og minni liðunum í deildinni.
Efsta deildin í Svíþjóð er sú sterkasta í Evrópu þar sem flestir bestu leikmenn Evrópu spila, að sögn Jóns Benedikts Gíslasonar, framkvæmdastjóra SA og hokkíþjálfara. Þróunin hefur verið sú að stóru félögin í karlahokkíinu hafa verið að setja meiri metnað í kvennaliðin sín og eru búin að setja stefnuna á að fara með þau upp í efstu deild. SA-konur eru að fara til Malmö, Rögle og Örebro í sænsku 1. deildinni, en þessi félögu eru öll með karllið í SHL, efstu deild karla. Næstefsta deild í Svíþjóð er sterkari en efsta deildin í Danmörku, og danska deildin sterkari en deildin hér heima.
Gunnborg Petra Jóhannsdóttir (2004) hefur samið við Malmö Redhawks, en liðið er eitt af toppliðunum í sænsku 1. deildinni, næstefstu deild í Svíþjóð.
Gunnborg Petra Jóhannsdóttir lengst til hægri í leik með SA í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Herborg Rut Geirsdóttir (2001) staldraði stutt við hjá SA að þessu sinni, en hún kom til félagsins fyrir síðasta tímabil og lyfti Íslandsmeistarabikarnum sem fyrirliði liðsins í vor. Hún hafði áður verið búsett lengi og spilað hokkí í Noregi og síðan í 1. deildinni í Svíþjóð. Hún hóf hokkíferilinn hjá SA, en flutti ung til Noregs ásamt fjölskyldunni. Herborg Rut hefur samvið við sænska félagið Rögle í Ängelholm, sem er lítil borg norður af Helsingborg á vesturströnd Svíþjóðar.
Herborg Rut Geirsdóttir tók við Íslandsmeistarabikarnum sem fyrirliði SA í fyrsta skipti í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Inga Rakel Aradóttir (2005) hefur spilað í varnarlínunni hjá SA og verið aðstoðarfyrirliði síðustu tvöð tímabil, en hún er uppalinn hjá félaginu og hefur spilað lengi með meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur. Eftir útskrift í vor ákvað hún að taka sér eins árs frí frá námi og er nú komin til Danmerkur til að spila þar íshokkí með Odense í efstu deild í Danmörku. Hún er í raun ekki að fara í atvinnumennsku heldur í svipaðar aðstæður og hér heima, nema að deildin er sterkari og það eru sex lið í deildinni, ekki þrjú eins og hér.
Inga Rakel Aradóttir, önnur frá hægri, í leik með SA í vor þegar liðið varð Íslandsmeistari. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Katrín Rós Björnsdóttir (2004) hefur skrifað undir samning við 1. deildar félagið Örebro í Svíþjóð, sem er eins og félög hinna tveggja sem nú halda til Svíþjóðar, eitt af toppliðunum í sænsku 1. deildinni.
Katrín Rós Björnsdóttir nr. 24 í leik með SA í vor þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.