Fara í efni
Mannlíf

Fjölsmiðjufössari #8 - Píramídar, saumavél og Ísfólkið

Áttundi Fjölsmiðju-Fössarinn. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Á föstudögum í vor langar okkur á Akureyri.net að hressa okkur við fyrir helgina og birta myndaþátt af því besta sem er í boði í Fjölsmiðjunni. Eins og flestir bæjarbúar vita, kennir þar ýmissa grasa og mörg höfum við farið þangað með dótið sem við erum hætt að nota. En hvað er í boði þennan ágæta Fjölsmiðju-fössara?

 

Samkvæmt sérfræðingum Fjölsmiðjunnar er þetta ekki eins manns búr, eins og blaðamaður hélt. Þetta er kassi fyrir tölvur. Ef einhver er að spá í að opna gagnaver í heimahúsi um helgina, væri þetta flott byrjun. 

 

Gamlar veiðistangir sem eiga fullt inni. Eflaust hafa ófáir fiskarnir fengið að kenna á þessum pörupiltum í gegnum tíðina. 

 

Það er ekki hægt að meta að verðleikum, dýrðina sem fylgir hvíld í rafstýrðum Lazyboy. Þessi er líka svona fallega grænn, sem allir vita að er rólegheitalitur. 

 

Erlingur í Fjölsmiðjunni segir að allar saumavélar komi við hjá viðgerðarmanni áður en þær eru settar í sölu. Þessi malar eflaust eins og kettlingur og ekki skemmir fyrir hvað hún er töff og retró!

 

Undarlegir píramídar. Það heyrist í þeim skrölt þegar þeir eru hristir, þannig að blaðamaður getur ekki ábyrgst að þeir séu hættulausir. Hvort það fylgir þeim múmía, er allsendis óvíst og aðeins ein leið til þess að komast að því!

 

Fleiri listaverk frá framandi menningarheimum eru í boði þennan föstudaginn. Þessi fallega mynd er þrívíð, í djúpum ramma. Hún er bersýnilega af asískum uppruna, en það lítur út fyrir að myndin sé aðallega mótuð úr skeljum. 

 

Það er alveg tímabært að fara að undirbúa þjóðhátíðarveisluna, en það er bara rúmur mánuður í 17. júní! 

 

Þau sem ætla sér að standa í stórræðum í garðinum um helgina ættu kannski að tryggja sér þessa! 

 

Nú er óskað eftir snilligáfu lesenda. Hvað í ósköpunum er þetta? 

 

Þessir fagurbláu íshokkískautar eru svo listilega vel gerðir, og virðast lítið notaðir. Skauta-seasonið fer nú reyndar að renna sitt skeið í bili, en hugsaðu þér hvað þú myndir bera af í Skautahöllinni í þessum elskum!

 

Er erfitt að velja á Netflix? Á þremur stöðum í bænum er hægt að rifja upp gamla takta og ná sér í mynd - eins og forðum á vídjóleigurnar. Fjölsmiðjunni, Hertex og svo auðvitað okkar eina sanna Amtsbókasafni.

 

Sem endranær er líka nóg af eðal-lesefni. Ísfólkið og ástareldar Rauðu seríunnar bíða þín í Fjölsmiðjunni. 

 

Ef einhver hefur hugsað sér að villa á sér heimildir um helgina, hver svo sem ástæðan kann að vera, þá eru þessar flottu grímur til í Fjölsmiðjunni. Þú verður óþekkjanleg/ur.

 

Frábært úrval af hjólum fyrir sumarið! 

 

Hlaupabrettin tvö, sem voru líka í síðasta Fjölsmiðju-fössara eru ennþá til. 

 

Þökkum Fjölsmiðjunni kærlega fyrir að opna dyrnar fyrir blaðamanni, og hvetjum fólk til þess að halda áfram að styrkja það góða starf sem þar fer fram. Í leiðinni viljum við minna á hina nytjamarkaðina í bænum, Hertex, markað Rauða krossins og Norðurhjálp. Endurnýtum og styrkjum gott málefni í leiðinni. Góða helgi!