Fjölbreytt bolluúrval en lítið um nýjungar í ár

Þó að bolludagurinn sé ekki fyrr en á mánudag eru bollur nú þegar komnar í sölu í öllum bakaríum Akureyrar. Úrvalið er með hefðbundnu sniði og minna um nýjungar í ár en oft áður.
„Í fyrra vorum við með nokkrar nýjungar en það seldist alls ekki eins mikið af þeim og klassísku bollunum. Svo í ár ákváðum við að gera frekar betur við þær í stað þess að bjóða upp á of mikið af tegundum,“ segir Sigurlaug Stefanía Einarsdóttir, rekstrar - og verslunarstjóri hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar, en þar verður boðið upp á sex tegundir af vatnsdeigsbollum og þrjár gerðir af gerbollum, m.a. klassíska púnsbollu og þá verður bankastjórabollan á sínum stað eins og fyrri ár (vatnsdeigsbolla með hindberjasultu, gulu kremi eins og í vínarbrauðunum, rjóma, súkkulaði og flórsykri).
Brauðgerð Kr. Jónssonar, Axelsbakarí og Brauðgerðarhús Akureyrar verða ekki með neinar bollunýjungar í ár. Bakaríið við brúna verður hins vegar með nýjungar í bland við aðrar klassískar bollur. Samsett mynd úr myndum Bakarísins við Brúna.
Saltkaramellurjómi og berlínarbollur
Axelsbakarí er ekki heldur að bjóða upp á neinar nýjungar í ár en úrvalið hjá þeim er þó fjölbreytt. „Við erum með gerdeigs- og vatnsdeigsbollur, og bjóðum upp á venjulegan rjóma, jarðarberjarjóma, hindberjarjóma og saltkaramellurjóma. Val er um hindberjasultu í botninn eða glassúrinn sem er ofan á bollunni,“ segir Margrét Baldvinsdóttir, einn eiganda Axelsbakarís og bætir við að rjóminn sem bakaríið notar sé 100% íslenskur rjómi. Þá bjóði bakaríð líka upp á berlínarbollur með hindberjasultu og krembollur. „Við höfum ekki verið í miklum nýjungum, þetta er það sem hefur gefist best og mest eftirspurn er eftir.“
Púnsbollan er klassík hjá Brauðgerð K. Jónssonar sem og bankastjórabollan sem fer í sölu á föstudag. Mynd: SNÆ
Veganbollur og Nútellabollur
Sama er upp á teningnum hjá Brauðgerðhúsi Akureyrar, þar eru engar nýjungar í ár. Bollurnar sem þar er boðið upp á eru vatnsdeigsbollur með og án sultu, karamellubollur, hindberjabollur, nútellabollur, gerdeigsbollur með og án sultu og veganbollur. „Það verða ekki nýjungar í úrvali þetta árið, en ég hef bætt gæðin á bollunum töluvert frá því í fyrra,” segir Andri Kristjánsson, annar eigandi Brauðgerðarhúss Akureyrar og bætir við. „Sú bolla sem hefur alltaf vinninginn í sölu er þessi klassíska vatnsdeigsbolla með sultu, rjóma og súkkulaði á toppnum,” segir Andri og undir það taka hin bakaríin í bænum þegar spurt er um vinsælustu bolluna hjá þeim.
Bakaríið við Brúna verður að vanda með alls konar bollur í boði hjá sér: vatnsdeigsbollur, gerdeigsbollur, berlínarbollur og lúxusbollur. Þar verða, ólíkt hinum bakaríunum í bænum, einhverjar nýjungar í boði, sú helsta eru lúxusbollur með jarðaberjum og rjóma. Bollurnar hafa verðið í sölu hjá þeim síðustu tvær helgar og vikuna fram að bolludegi og svo auðvitað á bolludaginn sjálfan.
Axelsbakarí þjófstartar ævinlega bollusölu á bóndadaginn og helgina sem á eftir fylgir. Bollusalan er nú komin á fullt hjá þeim og hér má sjá sannkallaða jarðaberjabombu sem samanstendur af vatnsdeigsbollu, sultu í botninum, jarðarberjarjóma, súkkulaðiglassúr og ferskum jarðarberjum. Mynd: Axelsbakarí
Leynibolla í Sykurverki
Sykurverk, sem er ekki hefðbundið bakarí eins og bakaríin þrjú hér að ofan, keyrir annan stíl í kringum bolludaginn með því að bjóða upp á öðruvísi bollur og þar eru þrjár nýjar bollur í boði í ár af 11 bollutegundum. „Nýjungarnar hjá okkur í ár eru s’mores-bolla og bolla með skyr mousse og bláberjum. Þá ætlum við líka að hafa eina aukabollu í ár sem verður eingöngu í sölu á bolludaginn sjálfan sem verður leynibolla. Við erum einmitt með leik í gangi á samfélagsmiðlum hjá okkur til að leyfa fólki að giska hver hún verður. Okkur finnst það mjög spennandi,“ segir Helena Guðmundsdóttir, einn af eigendum Sykurverks og bætir við að Leynibollan verður afhjúpuð á miðnætti aðfaranótt mánudags.
„Tegundirnar sem við erum með í ár og hafa verið áður hjá okkur eru: sykurverksbolla, kókosbollubolla, þrista mousse bolla, karamellumousse bolla, sítrónubökubolla, cookie dough bolla, ævintýrabarnabolla og svo vegan oreo-gerbolla. Vinsælustu bollurnar hjá okkur í fyrra voru þrista mousse og sítrónubökubollurnar. Við byrjuðum með þær í síðustu viku en allar bollurnar eru komnar í sölu hjá okkur nema leynibollan“.