FISK Kompaní hættir með kjötborðið
Sælkeraverslunin FISK Kompaní hefur undanfarin ár boðið ferskt kjöt til sölu úr borði en nú verður breyting þar á. Eigendur segja það ekki svara kostnaði að vera með ferskt kjötborð en segjast héðan í frá munu selja sérvalið kjöt úr frysti.
„Ástæðan er einföld. Þetta er ekki að gera sig; salan er of sveiflukennd til að við getum boðið upp á ferskt kjöt úr borði allt árið. Kjötið hreyfist varla á vissum tímum og þetta skilur því ekkert eftir sig,“ segir Ragnar Hauksson við Akureyri.net. Hjónin Ragnar og Ólöf Ásta Salmannsdóttir, eigendur FISK Kompanís sem eðli málsins samkvæmt er fyrst og fremst þekkt sem verslun með fisk, bættu við kjötborði fyrir nokkrum árum.
„Við byrjuðum að selja kjöt árið 2016 en aðstæður í þjóðfélaginu í dag ásamt hækkunum á kjöti breyta aðstæðum,“ segir Ragnar. „Verð á kjöti hefur hækkað mikið, ekki síst á lambakjöti. Við höfum reynt að halda verðinu niðri eins og við getum til að fá meiri hreyfingu, en það dugar ekki til.“
Valdar kjötvörur verða þrátt fyrir þetta til sölu í FISK Kompaní sem fyrr segir. „Við erum að fara í breytingar í Kjarnagötunni, setjum inn ný kæliborð í nóvember og munum þá líka setja upp frysti. Við munum kaupa inn kjöt, láta það fullmeyrna og seljum síðan vacumpakkað úr frysti.“