Fimmti sigur KA í deildinni – MYNDIR
KA-menn eru þremur stigum ríkari í dag en í gær, eftir 2:1 sigur á Fylki á heimavelli í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.
Sólin skein á Akureyri (sem er reyndar varla frétt eins og tíðin hefur verið að undanförnu) en nokkur vindur var á meðan leikurinn fór fram á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið.
Fyrri hálfleikurinn var afar tíðindalítill en sá síðari líflegri. KA-menn komust í 2:0 og hefðu átt að vera búnir að gulltryggja sigur þegar gestirnir minnkuðu muninn þegar lítið var eftir. En eins og leikurinn þróaðist hefðu Fylkismenn getað farið heim á leið með eitt stig í pokahorninu og liðin þar með deilt stigunum, því þeir fengu mjög gott færi til að skora seint í leiknum og annað á síðustu andartökunum. Kristijan Jajalo markvörður var góðu heilli vel á verði og því man enginn lengur eftir færunum sem félagar hans klúðruðu hinum megin á vellinum ...
Nú verður gert hlé á deildinni vegna landsleikja. KA-menn verða næst á ferðinni 24. júní á útivelli gegn KR og leika raunar ekki deildaleik á heimavelli aftur fyrr en HK kemur í heimsókn sunnudaginn 30. júlí – eftir 50 daga!
KA er nú í fimmta sæti deildarinnar með 17 stig að loknum 12 leikjum.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
_ _ _
BRKOVIC SKALLAR Í ÞVERSLÁ
KA fékk hornspyrnu eftir 20 mínútna leik, Dusan Brkovic skallaði að marki og boltann fór í þverslána og út í teig. Þetta var í fyrsta skipti sem hætta skapaðist í leiknum.
_ _ _
GLÆSILEG TILÞRIF SVEINS
Eftir heldur tilþrifalítinn fyrsta hálftíma leiksins braut Sveinn Margeir Hauksson ísinn með stórglæsilegu marki. Þorri Mar fékk boltann út á hægri kantinn, lék áfram og sendi á Svein Margeir sem var utarlega í vítateignum, lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum efst í markhornið fær. Mögnuð tilþrif!
_ _ _
FYRSTA MARK WILLARDS Í EFSTU DEILD
Eftir liðlega klukkutíma leik bætti Harley Willard við marki fyrir KA og er það fyrsta mark hans í efstu deild. KA-menn sóttu hratt, Hallgrímur Mar sendi á Willard sem var utarlega í vítateignum vinstra megin og sendi boltann með hnitmiðuðu skoti neðst í fjærhornið.
_ _ _
ÓTRÚLEG BJÖRGUN
Nokkrum mínútum eftir mark Willards var Bjarni Aðalsteinsson hársbreidd frá því að bæta þriðja markinu við eftir hornspyrnu. Fékk raunar tvær tilraunir en seinna skotið varði Ólafur Kristófer Helgason markvörður á ótrúlegan hátt á línu.
_ _ _
DAUÐAFÆRI FYLKIS
Þegar rúmlega stundarfjórðungur lifði leiks fengu gestirnir dauðafæri eftir gott spil. Pétur Bjarnason skallaði boltann til Þórðar Gunnars Hafþórssonar en Kristijan Jajalo gerði mjög vel og varði.
_ _ _
FYLKISMENN EYGJA VON
Jajalo markvörður KA varði skalla Þórodds Víkingssonar eftir hornspyrnu aftur fyrir endamörk og Fylkismenn fengu því annað horn. Þegar spyrnt var aftur inn á teig kýldi Jajalo boltann en ekki vildi betur til en svo að hann fór beint til Benedikts Daríusar Garðarssonar sem þrumaði honum í netið. Fylkismaður stökk upp með markverðinum og KA-menn reyndu að sannfæra dómarann um að sá hefði brotið á Jajalo en höfðu ekki erindi sem erfiði. Fimm mínútur voru eftir skv. vallarklukkunni, sem reyndust raunar níu með uppbótartímanum.
_ _ _
HALLGRÍMUR Í ÚRVALS FÆRI
Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk tvö ákjósanleg tækifæri til að gera þriðja mark KA seint í leiknum. Þegar lítið var eftir komst hann einn gegn Ólafi markverði og hugðist senda boltann í hægra hornið en Ólafur sveif eins og köttur og varði skotið með tilþrifum.
_ _ _
FYLKIR NÁLÆGT ÞVÍ AÐ JAFNA
Einungis fáein andartök voru eftir af leiknum þegar Fylkismaðurinn Ómar Björn Stefánsson fékk óvænt dauðafæri til að skora og jafna. Einn samherjanna fór upp að endamörkum vinstra megin og sendi inn á markteiginn, boltinn fór í Óskar Björn og stefndi í markið en Jajalo markvörður var vel með á nótunum og varði. Var mörgum KA-manninum létt enda má segja að þar hafi hann tryggt liðinu tvö stig.