Mannlíf
Ferðasaga Gísla til styrktar Mikael Smára
27.07.2023 kl. 06:05
Gísli Einarsson, sjónvarpsmaðurinn kunni, skemmtikraftur, kokkur og allt muligt mand, býður til mikillar gleðiveislu í Valsárskóla á Svalbarðseyri í kvöld, fimmtudagskvöld. Í þágu góðs málefnis kemur Gísli norður með geysivinsæla sýningu sína, Ferðasaga Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna), sem sýnd var 30 sinnum fyrir fullu húsi í Landnámssetrinu í Borgarnesi síðastliðinn vetur og áframhald verður nú með haustinu.
Það sem er sérstakt við þessa sýningu er að öll innkoma rennur óskipt til fjölskyldu lítils drengs, Mikaels Smára, sem er 11 ára gamall, haldinn ólæknandi hrörnunarsjúkdómi og hefur nú í sumar barist hart við bráðahvítblæði ofan á allt annað. Sýningin í Valsárskóla hefst kl. 20.00.
Gísli segir sjálfur í kynningu:
Fyrir þá sem hafa kannski ekki áttað sig á því hvað þarna er á ferðinni þá er þessi sýning (standup/sögustund eða hvað þetta á að vera) bara argasta bull frá upphafi til enda. Þetta er í raun bara atlaga að Íslandsmeti í aulabröndurum án atrennu, vanþroskaður húmor sem byggist á því að níða niður og hæðast að einstaka byggðalögum hringinn í kringum landið. Fólk hefur hinsvega komið og fæstir farið fyrr en sýningin er búin. Já og fólk hefur hlegið!
Í kynningu segir ennfremur:
En burt séð frá sýningunni þá er málefnið að þessu sinni gott. Öll innkoma af miðasölu fer til styrktar Mikael Smára sem er ellefu ára drengur frá Akureyri. Hann glímir við ólæknandi hrörnunarsjúkdóm og eins og það sé ekki nóg þá fékk hann bráðahvítblæði í vor. Mikael Smári er hinsvegar hetja eins og þær gerast hugumprúðastar og okkur fjölskyldunni, sem stöndum að sýningunni, þykir vænt um að geta lagt örlítið að af mörkum, með þessum hætti, til að létta honum lífið.
Gísli heldur áfram: Þannig að fyrir þá sem vilja gjarnan forðast að sjá Ferðabók Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna) (sem ég hef fullan skilning á) en vilja samt styrkja gott málefni þá er hér styrktarreikningur fyrir þetta verkefni:
- Kennitala: 040672 - 4789
- Bankaupplýsingar: 0370 - 26 - 044084
Fyrir þá, eins og Gísli orðar það, sem eru tilbúnir að leggja á sig að mæta og sitja undir þessu rugli í tæpa tvo tíma þá eru miðapantanir í gegnum netfangið:
gislilundi@gmail.com - Miðaverð 3.900 krónur.