Fara í efni
Mannlíf

„Félagsskapurinn er einfaldlega númer eitt“

Sigurrós Aðalsteinsdóttir. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Það eru miklir möguleikar til handavinnu og sköpunar í Sölku í Víðilundi, félagsmiðstöð fólksins. Eitt af því sem er hægt að læra og iðka, er postulínsmálun. Í kjallaranum í suðurenda hússins er allt til alls fyrir málunina og ófáar jólagjafirnar, sparistellin og kleinuskálarnar sem hafa verið málaðar þar. Sigurrós Aðalsteinsdóttir er 84 ára, en hún var driffjöðurin í postulíninu í tuttugu ár, þar sem hún vann óeigingjarnt starf við utanumhald og leiðbeiningu nýrra málara. Blaðamaður Akureyri.net fékk að skoða postulínsvinnustofuna með Sigurrósu, og forvitnast um starfið.

Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku. Fyrri umfjallanir:

  • Í GÆR – HITTAST Í SÖLKU OG PRJÓNA EINS OG VINDURINN
  • MARGT RÆTT OG SKAPAÐ Í PRJÓNAKLÚBBNUM
  • KYNNUMST BIRTU OG SÖLKU Í PÁLÍNUBOÐI
  • HEKLAR KOLKRABBA FYRIR LITLAR HENDUR
  • PÚLA Í HRÚTAKOFANUM Í GÓÐRA VINA HÓPI

 

„Mér fannst strax sem krakki gaman að búa eitthvað til sjálf, “segir Sigurrós, en hún hefur búið á Akureyri nær alla tíð, en ólst upp til 15 ára aldurs í Bakkaseli. „Fyrst saumaði ég föt á dúkkurnar mínar, og svo þróaðist það út í allskyns handverk, mér hefur alltaf þótt gaman að skapa. Ég byrjaði samt ekki að mála fyrr en ég kom hingað, en eldri systur mínar tvær voru byrjaðar að mála hérna postulín og mér fannst það svo spennandi. Ég var hins vegar ekki orðin nógu gömul, en þá var þetta starf bara fyrir eldri borgara. Ég var samt hætt að vinna, þannig að ég óskaði eftir undanþágu og fékk hana. Þetta var fyrir 25 árum.“ 

„Ég vann á allskonar stöðum hér áður fyrr,“ segir Sigurrós, aðspurð um starfið áður en hún hætti að vinna. „Ég vann bara þar sem ég gat fengið vinnu. Ég var í sláturhúsinu í eldgamla daga, frystihúsinu, salthúsinu, í síld og allskonar. Síðast vann ég í Hagkaup.“

Ég labba oft hingað á morgnana bara til þess að fá mér kaffibolla og rabba um daginn og veginn, en ég bý í blokkunum við Mýrarveg

„Þegar ég byrjaði að mála hérna, var leiðbeinandi í fullu starfi, en svo hætti hún og þá átti að loka þessu,“ rifjar Sigurrós upp. „Þá voru um það bil tuttugu konur yfirleitt að mála hérna og þeim fannst það agalegt, að það skyldi eiga að loka og suðuðu í mér um að taka við utanumhaldinu sem ég ákvað að verða við. Síðan þá sá ég um að panta inn, sá um brennsluna, aðstoða og að leiðbeina nýjum. Ég gerði það í tuttugu ár í sjálfboðavinnu, en er hætt í dag.“

Einn karlmaður í postulíninu, annars konur

„Þetta gat verið mikil vinna, sérstaklega á haustin og fram að jólum, “segir Sigurrós, en þá voru konurnar að útbúa jólagjafir handa vinum og vandamönnum. „Þá var ég oft að skjótast hérna um helgar og á kvöldin til þess að brenna og skipta um í pottunum svo að allt næðist í tæka tíð.“ Sigurrós talar alltaf um konur, en hún segir að það hafi reyndar verið einn karlmaður í postulíninu á sinni tíð, en það var hann Númi Adolfsson, sem hún segir að hafi verið mjög vandvirkur og mætt vel.

 

Hillurnar eru hlaðnar af fínerís postulíni, en oft eru myndir á mununum sem eru ætlaðar til málunar. Málararnir borga efniskostnað og geta málað þegar vinnustofan er opin. Sigurrós segir að stundum sé fólk að mála fríhendis, en oftast séu valin verkefni með myndum. Mynd: RH

Sjálfsagt að koma til móts við fólk

„Það var nú oft fíflast hérna, heldur betur,“ segir Sigurrós um stemninguna í postulíninu. „Mikið talað og oft hátt, um allt á milli himins og jarðar. Ég man eftir einni konu sem fannst það allt of mikið, það er nú ekki allra að vera í miklu skvaldri. Ég leyfði henni bara að mála heima hjá sér og koma svo með hlutina sína hingað í brennslu. Hún var svo þakklát, en reglurnar voru þannig þá að það var ekki leyfilegt. Mér fannst bara sjálfsagt að koma til móts við fólk.“

„Það eina sem ég myndi vilja bæta hérna eins og staðan er í dag, er aðstaðan í postulíninu,“ segir Sigurrós, en vinnustofan er í minna lagi. „Það er ekki nóg pláss og svo eru stöðug læti í pípum hérna og við heyrum það vel þegar fólk er að sturta niður á eftir hæðinni. Það er ekkert voðalega huggulegt.“

 

Litríkar flísar liggja á borðunum í postulínsmálunarstofunni. Mynd: RH

Tekur þátt í ýmsu félagsstarfi

„Ég kem hérna ennþá og mála sjálf, þó að ég sé hætt að sjá um utanumhaldið,“ segir Sigurrós. „Mér finnst svo gaman að mála, en það er orðið aðeins erfiðara. Ég titra orðið svo mikið í hendinni, að ég held hendinni stöðugri með hinni, svo ég geti málað. Ég á fimm dætur og ég er búin að gefa þeim öllum handmálað matarstell, eins málað handa sjálfri mér. Það er ekkert hægt að gefa fólki endalaust postulín!“ Sigurrós er ekki bara í máluninni, en hún mætir á föstudögum í saumaklúbb, svo mætir hún til þess að spila félagsvist, bæði í Sölku og Birtu (í Bugðusíðu).  

„Það er svo sorglegt að vita af fólki sem situr mest eitt heima. Ég hef verið að reyna að ýta við fólki sem ég þekki, til dæmis fékk ég eina konu sem var búin að loka sig af, til þess að koma í spilaklúbb á mánudögum. Það var nóg að taka skrefið, nú kemur hún alla mánudaga. Ég hvet fólk til þess að koma, bara prófa, það er svo gaman. Ég labba oft hingað á morgnana bara til þess að fá mér kaffibolla og rabba um daginn og veginn, en ég bý í blokkunum við Mýrarveg.“   

„Þessi félagsskapur hérna, hann er einfaldlega bara númer eitt,“ segir Sigurrós að lokum.


Þetta er eitt af nokkrum viðtölum á Akureyri.net um félagsstarfið í Sölku. Fyrri umfjallanir:

  • KYNNUMST BIRTU OG SÖLKU Í PÁLÍNUBOÐI
  • HEKLAR KOLKRABBA FYRIR LITLAR HENDUR
  • PÚLA Í HRÚTAKOFANUM Í GÓÐRA VINA HÓPI
  • MARGT RÆTT OG SKAPAÐ Í PRJÓNAKLÚBBNUM
  • HITTAST Í SÖLKU OG PRJÓNA EINS OG VINDURINN