Fara í efni
Mannlíf

Fékk fyrsta hlutverk níu ára gamall hjá LA

Vilhjálmur B. Bragason. Hann varð ástfanginn af leikhússalnum fimm ára gamall og hefur varla yfirgefið hann síðan. Hér er hann í Samkomuhúsinu, þar sem hann fékk fyrsta hlutverkið - árið 1998 í Söngvaseið. Mynd: aðsend.

„Ég beit það í mig fimm ára gamall, að ég þyrfti að komast í leikhús. Alltaf. Ekki bara á barnasýningar, heldur líka fullorðinssýningar,“ segir Vilhjálmur B. Bragason, leikari og listamaður. Við sitjum yfir kaffibolla á LYST og þegar hér er komið sögu, er Villi að rifja upp þegar hann varð fyrst heillaður af leikhúsinu. Það var óvenju snemma, enda fullorðnaðist Villi á ógnarhraða og var snemma talinn gömul sál. Eftir svolítið karp við foreldra sína, fékk hann sínu fram og missti helst ekki af neinu leikverki á Akureyri þaðan í frá. 

Þetta er annar hluti viðtalsins við Villa, fyrsti hluti var birtur í gær á Akureyri.net:

Í GÆR – „ÉG ER GÖMUL SÁL OG NÖRD Í GRUNNINN“
Á MORGUN -
„ÉG ER EIGINLEGA ÓFÆR UM AÐ GRÍNAST EKKI“

Fór sex ára gamall á Óperudrauginn og Djöflaeyjuna

„Ég komst að því sex ára gamall að það væri verið að sýna Óperudrauginn hjá Leikfélagi Akureyrar. Plakatið var einhver spennandi gríma og ég fór að suða í foreldrum mínum um að ég þyrfti að komast á þessa sýningu. Það kom ekki til greina, þangað til að afi minn sálugi bauðst til þess að fara með mig. Það varð úr og það bjuggust allir við því að við kæmum fljótlega aftur, að ég myndi ekki nenna þessu eða verða hræddur. En aldeilis ekki, ég sat hugfanginn alla sýninguna, límdur við sætið. Amma þurfti að búa til skikkju fyrir mig eftir þetta og við föndruðum grímu svo ég gæti endurleikið drauginn. Ég fór líka sex ára gamall á Djöflaeyjuna hjá LA og það er ljóslifandi í minningunni.“

 

T.v. Villi spekingslegur um 5 ára aldurinn. T.h. Mynd úr Degi frá árinu 1994 þar sem fjallað var um frumsýningu Óperudraugsins. Bergþór Pálsson lék aðalhlutverkið, en Villi fór 6 ára gamall að sjá þetta verk þrátt fyrir efasemdir foreldra.

Hagmælskan frá pabba og svarti húmorinn frá mömmu

Foreldrar Villa eru ekki með bakgrunn sem tengist leikhúsi, en pabbi hans, Bragi V. Bergmann er kannski þekktastur í bænum sem krossgátukóngurinn, en hann býr til krossgáturnar í bæði Dagskrána og Vikublaðið. „Pabbi er íslenskukennari, les mikið og hann er hagmæltur mjög og hefur gert mikið af limrum og tækifærisvísum í gegnum tíðina,“ segir Villi. „Ég hef ort mikið af textum líka og hef gaman af því, og núna erum við farin að halda hagyrðingakvöld, ég og kollegar mínir í leikhúsinu. Þessi áhugi á sér eflaust uppruna hjá pabba.“

„Það er líka hagmælska í fjölskyldunni mömmu megin og mikil músík,“ segir Villi um móður sína, Dóru Hartmannsdóttur. „Mögulega sprettur tónlistin þaðan og svo auðvitað minn kolsvarti húmor. Hann er hundrað prósent frá mömmu.“

Fékk fyrsta hlutverkið í atvinnuleikhúsi níu ára

„Ég náði því rétt svo, að byrja í Barnaskóla Akureyrar, áður en hann sameinaðist Gagganum og breyttist í Brekkuskóla,“ segir Villi. „Þar var tónmenntakennari sem við kölluðum Bigga söng, Birgir Helgason. Hann var goðsögn í leiknum og það var ein af lukkum lífs míns að hann tók mig til hliðar eftir tónmenntatíma einn daginn og benti mér á að það væru prufur fyrir krakka hjá Leikfélagi Akureyrar, þar sem átti að setja upp Söngvaseið (Sound of Music). Ég hafði ekki hugmynd um það, en ég fór að hans ráðum og endaði á því að fá hlutverk þar, níu ára gamall, og lék í einhverjum tugum sýninga. Það varð ekki aftur snúið eftir þetta. Mér fannst ég einfaldlega vera kominn heim, þó ég gæti ekkert útskýrt það frekar.“

 

Hér er Villi í hlutverki sínu í barnahópi kafteins Von Trapp í Söngvaseiði. F.v. Audrey Freyja Clarke, Villi, Hildur Franklín, Þóra Einarsdóttir, Ingimar Björn Davíðsson og Helga Margrét Clarke. Mynd: tímarit.is

Önnur mynd úr Söngvaseið, en hér er Hinrik Ólafsson með hópnum líka. Hann lék Kaftein Von Trapp í sýningunni og kenndi ungum Villa nokkur lykilatriði í leikaralistinni, t.d. að vera ekki senuþjófur. Mynd: Leikfélag Akureyrar.

Breyttist í litla dívu heima við

„Það var stundum álag fyrir níu ára barn að leika í svona stórri sýningu,“ segir Villi. „Ég man alveg eftir því að hafa verið svolítið uppstökkur heima við og breyst í litla dívu, oft á tíðum. Pabbi hefur grínast með það að þegar það var ennþá verið að prufa okkur krakkana til þess að velja í hlutverk, þá skutlaði hann mér í leikhúsið en ég var eitthvað taugaóstyrkur og sat sem fastast í bílnum. Hann sagði að ég þyrfti ekkert að gera þetta, ef mig langaði ekki til þess. Þá dró ég andann djúpt og sagði: Auðvitað fer ég inn! Ég á heima á sviðinu!“ Hér þarf Villi aðeins að stoppa og hlæja að dramadrottningunni sem þarna var að stíga sín fyrstu skref í leikhúsheiminum.

Fullorðnu leikararnir voru allir með kaffi og ég þurfti að vera með

„Ég fékk hlutverk í jólasýningu hjá LA árið eftir og ég var búinn að finna mína hillu,“ segir Villi. „Ég kynntist Þráni Karlssyni í leikhúsinu og hann varð eiginlega minn lærifaðir. Við héldum sambandi og ég fór oft í kaffi til hans, og þrátt fyrir þennan áratuga aldursmun vorum við mjög góðir vinir.“ Blaðamaður furðar sig á því að tíu ára barn hafi verið farinn að drekka kaffi, en það kemur á daginn að Villi byrjaði kaffidrykkju þegar hann lék í Söngvaseið. „Fullorðnu leikararnir voru allir með kaffi og ég þurfti að vera með, þó að það væri sennilega meiri mjólk en kaffi í mínum bolla fyrst um sinn. Það vakti reyndar litla hrifningu þegar ég sullaði kaffi á matrósarfötin mín, en það blessaðist allt. Ég hef drukkið kaffi síðan.“

Fékk föðurleg ráð frá Hinriki Ólafs

„Það var heilmikill lærdómur sem fólst í því að leika í Söngvaseið, ég lærði til dæmis að maður á ekki að vera senuþjófur, en ég lærði það 'the hard way' eins og maður segir. Þá var rómantísk danssena á milli kafteinsins Von Trapp og Maríu, sem Hinrik Ólafsson og Þóra Einarsdóttir léku. Knútur, persónan sem ég lék, sonur kafteinsins, átti að vera til hliðar á sviðinu að fylgjast með og reyna að herma eftir danssporunum. Ég var að stíga skrefin, þegar ég heyrði að salurinn byrjaði að hlæja. Þetta hvatti mig áfram, ég fann að þau voru að hlæja að mér og ég fór að ýkja hreyfingarnar enn meira og uppskar eftir því. Hinrik Ólafsson skammaði mig eftir þessa senu, þar sem athyglin átti að vera á innilegum dansi þeirra – en ekki á mér. Hann var góður samt, og leiðbeindi mér á föðurlegan hátt,“ segir Villi. Eftir þessi fyrstu hlutverk Villa á sviði, var framtíðin ráðin og hugur unga leikarans pikkfastur við leikhúsið til frambúðar.

 

Villi hefur í seinni tíð skrifað æ meira fyrir sviðið, oft með góðum kollegum. Sýningin 'Fullorðin', sem hann samdi ásamt Birnu Pétursdóttur og Árna Beinteini sló í gegn hjá Leikfélagi Akureyrar og flakkaði suður á land líka. Myndir: aðsendar.

Byrjaði að fikta við skrif í menntaskóla

Þarna var Villi búinn að finna sinn þjóðveg í gegnum lífið, og þó að það hafi heillað hann að leika, þá hefur hann líka haft áhuga á skrifum. „Ég fór að fikta við að skrifa þegar ég var í menntaskóla, og þá áttaði ég mig á því að það gaf mér líka heilmikið,“ segir Villi. „Sem leikari er maður alltaf að glæða orð einhvers annars lífi, sem er gott og blessað, en það er svolítið öðruvísi að hafa skrifað orðin sjálfur. Ég hef brennandi áhuga á öllu mögulegu, til dæmis fólki, ég reyni alltaf að skilja hvað liggur að baki. Af hverju fólk er eins og það er og af hverju það gerir það sem það gerir. Kannski er þetta í grunninn einhver flótti frá því að skilja sjálfan sig. Ég ætla að skilja alla hina áður en ég byrja á sjálfum mér!“

Mér finnst góð saga vera eins og fjársjóður

„Ef ég fæ áhuga á einhverju, sama hversu afmarkað það er, þá þarf ég að vita allt um það og sekk mér í efnið,“ segir Villi. „Ég hef líka alltaf verið sólginn í að sanka að mér sögum og elska að segja sögur. Ef þú segir mér einhverja skemmtilega sögu, þá er ég að fara að segja hana áfram. Mér finnst svo gaman að deila, mér finnst góð saga vera eins og fjársjóður! Ef við hendum okkur aftur í vegasamlíkinguna, þá er þetta kannski eins og að vera á ferðalagi, og þú pakkaðir miklu meira af nesti en allir hinir. Þá getur þú verið að gauka að fólki kexkökum og fróðleiksmolum á leiðinni.“

„Allt getur verið áhugavert. Það skiptir máli hvernig því er miðlað, hvernig þú segir söguna,“ segir Villi. „Mér finnst reyndar ekkert mjög gaman að lesa fræðirit, nema þau séu skemmtilega skrifuð. Ef texti verður mjög þurr, þá eðli málsins samkvæmt, verður maður þyrstur.“


Þetta var annar hluti viðtalsins við Villa, á morgun köfum við aðeins ofan í húmorinn sem hefur fylgt honum dyggilega og það sem er framundan á landakortinu.

Á MORGUN – „ÉG ER EIGINLEGA ÓFÆR UM AÐ GRÍNAST EKKI“

 

Villi steig fyrst á svið Samkomuhússins níu ára gamall í Söngvaseið árið 1998. Hér er hann 24 árum síðar á sama sviði, í hlutverki Ketis Skræks í Skugga-Sveini, en hann fékk Grímuverðlaunin fyrir besta leik í aukahlutverki. á myndinni f.v: María Pálsdóttir, Villi, Jón Gnarr, Árni Beinteinn og Þórdís Björk. Mynd: aðsend