Fannst Elísabet vilja leiðbeina að handan
„Það er eins og Elísabet hafi verið í heimsókn hjá mér; ég hef verið hálf andsetinn af þessum lögum, sérstaklega laginu Hafdjúp,“ segir Michael Jón Clarke, tónskáld, söngvari og stjórnandi Arctic óperu við Akureyri.net. „Ég hef alltaf verið upptekinn af hafinu enda fæddur lengst inn í landi og lega Akureyrar við sjó skipti miklu máli í þeirri ákvörðun minni að setjast hér,“ segir hann og bætir við: „Beta lét mig ekki í friði hvorki vakandi né sofandi fyrr en ég hafði gert epískan undirleik við það lag og tvö önnur!“
Michael og hans fólk í Arctic óperu halda tónleika sem þau kalla Tóna norðursins í Hofi á sunnudaginn þar sem flutt verða sönglög norðlenskra tónskálda, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag.
Tónskáldin eru flest mjög þekkt en eina konan í hópi þeirra, Elísabet Geirmunsdóttir, var einkum kunn fyrir höggmyndalist; Listakonan í Fjörunni.
„Elísabet, sem lést aðeins 45 ára, var ekki þekkt sem tónskáld en samdi bæði lög og ljóð. Hún kunni ekki að skrifa nótur en fékk Birgi Helgason til að skrifa lögin niður; þannig varðveittust þau. Og aðeins eitt laga hennar hefur verið útsett fyrir kór, Áskell Snorrason gerði það,“ sagði Michael.
„Sum lög þurfa ekki undirleik en önnur kalla á að leikið sé með á píanó,“ segir Michael og vísar til laga Elísasbetar. „Þau voru aðeins til sem laglínur. Það voru engar útsetningar til en ég var alltaf með lögin í hausnum; spilaði hljómana hvað eftir annað í huganum, þeir létu mig ekki í friði og stundum þurfti ég að hlaupa heim og finna þá á píanóinu.“
Hann segist aldrei hafa verið áhugamaður um dulræna hluti en nefnir að Elísabet hljóti að hafa verið þarna einhvers staðar í undirmeðvitundinni og viljað leiðbeina honum. „Þetta er í raun og veru það næsta sem ég hef komist því að einhver reyni að hafa samband við mig að handan,“ segir Michael og bætir við: „Mér finnst útsetningarnar hafa tekist svakalega vel. Fólkið mitt sem hefur verið að æfa lögin er mjög hrifið af þessu og við frumflytum útsetningarnar á tónleikunum á sunnudaginn. Ég held að þetta verði mjög flott.“