Fallegt fyrsta verk menningarráðherra
Logi Már Einarsson, nýr ráðherra menningar og fleiri málaflokka í lýðveldinu, lét vont veður ekki aftra sér frá því að komast heim til Akureyrar í dag. Og það sem hlýtur að mega telja fyrsta verk hans í embætti var fallegt og viðeigandi.
Logi vildi vitaskuld komast í faðm fjölskyldunnar eins og fleiri enda stutt til jóla en ekki síst vildi hann komast norður sem fyrst því í kvöld voru á dagskrá í heimabænum tónleikar ungrar listakonu sem hann ætlaði sér ekki að missa af.
Ráðherrann hugðist fljúga norður að loknum fyrsta fundi ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í dag en flugi var aflýst og því greip hann til þess að ráðs að leigja bíl og ók galvaskur af stað. Hvasst var á leiðinni og víða mjög hált en allt gekk eins og í sögu; Logi var á undan vonda veðrinu ef svo má segja, því það versnaði mjög þegar leið á og í kvöld var Holtavörðuheiði lokað.
Eitt hlutverka ráðherra menningar er vitaskuld að kynna sér málaflokkinn vel og þakkarvert er að viðkomandi fylgist vel með grasrótinni. Það gerði Logi sannarlega í kvöld og sló fleiri en eina flugu í því höggi. Það gladdi tónlistarkonuna ungu nefnilega augljóslega að faðir hennar, sjálfur ráðherrann, skyldi komast í tæka tíð!
Hrefna Logadóttir er aðeins nýorðin tvítug en tónleikar hennar á Þorláksmessukvöld á veitingastaðnum LYST í Lystiagarðinum eru þó orðnir að hefð. Þar spilar hún og syngur kósí jólalög, eins og það var kynnt.
Ekki nóg með að Logi sé ráðherra menningarmála og faðir tónlistarkonunnar, heldur hannaði arkitektinn Logi húsið dásamlega í Lystigarðinum þar sem tónleikarnir fóru fram. Toppið það!