Fagrir flygiltónar óma á ný í Davíðshúsi
Hópur fólks átti notalega stund í Davíðshúsi síðdegis á sunnudaginn þegar nemendur við Tónlistarskólann á Akureyri léku á flygil skáldsins, Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.
- Neðst í fréttinni eru fleiri myndir af nemendunum í Davíðshúsi.
Ekki er langt síðan flygillinn kom heim á ný eftir viðgerð og segja má að nemendurnir hafi vígt hljóðfærið á nýjan leik á sunnudaginn.
„Hljóðfærið hefur fengið algjöra yfirhalningu í viðamikilli viðgerð sem fram fór fyrr á árinu þegar það var sent til Reykjavíkur til Sindra Más Heimissonar, hljóðfærasmiðs sem nostraði við hljóðfærið,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri en Davíðshús, húsið númer 6 við Bjarkarstíg, er í umsjá safnsins.
„Flygilinn er danskur smíðaður í kringum 1930 en hljóðfærið fékk Davíð í fimmtugsafmælisgjöf frá vinum sínum, Páli Ísólfssyni, Árna Kristjánssyni, Sigurði Nordal og fleirum árið 1945 þegar hann var nýfluttur í Bjarkarstíg 6.“
Á sunnudaginn lék nemendur Tónlistarskólans á flygilinn, einnig á þverflautu, fiðlu og selló til að fagna því að hljóðfærið er aftur komið á safnið „betra en nokkru sinni þó að hljómur sé ennþá í anda upprunalega flygilsins,“ segir Haraldur Þór og bætir við: „Nú opnast möguleikar til tónlistarflutnings í safninu sem aldrei fyrr.“
Viðgerðin var styrkt myndarlega af Safnasjóði að sögn Haraldar.
_ _ _ _ _
GJAFABRÉFIÐ
- Með flyglinum góða, afmælisgjöfinni árið 1945, fylgdi þetta forláta skjal. „Við vinir þínir og aðdáendur, fáir einir af allri hinni íslenzku þjóð, sendum þér fimmtugum þakkir fyrir ógleymanleg kynni og unnin afrek, og biðjum þess, að Ísland láti jafnan vaka yfir ljúflingi sínum, hollar vættir og máttugar.“
- Hópur fólks ritar undir skjalið, þar má m.a. þekkja undirskriftir Páls Ísólfssonar dómorganista, Sigurðar Nordal prófessors, Árna Kristjánssonar píanóleikara, Valtýs Stefánssonar ritstjóra, Arndísar Björnsdóttur leikkonu, Lárusar Pálssonar leikara og Helga Hjörvar útvarpsmanns.
_ _ _ _
Katrín Róbertsdóttir leikur á fiðlu, Sóley Sif Jónsdóttir á flygilinn og Friðrik Trausti Stefánsson á selló.
Sóley Sif Jónsdóttir leikur á flygilinn og Sólveig Erla Baldvinsdóttir á þverflautu.
Emilía Ólöf Valgarðsdóttir og Ísafold Gná Ólafsdóttir leika á flygilinn.
Benedikt Már Þorvaldsson leikur á flygilinn í Davíðshúsi.
Frá vinstri: Friðrik Trausti Stefánsson, Katrín Róbertsdóttir, Benedikt Már Þorvaldsson, Viktoría Sól Hjaltadóttir, Dagmey Lilja Snædal, Emilía Ólöf Valgarðsdóttir, Ísafold Gná Ólafsdóttir, Sóley Sif Jónsdóttir og Sólveig Erla Baldvinsdóttir.