Fagna 40 ára afmæli Ferðaklúbbsins 4x4
Fjörutíu ár eru í dag síðan Ferðaklúbburinn 4x4 var stofnaður og af því tilefni eru um 240 fjallajeppar hvaðanæva af landinu komnir saman á Akureyri; allt breyttir jeppar, eins og það er kallað – sumir stökkbreyttir eins og einn jeppaeigandinn orðaði það í morgun.
Eigendur flestra jeppanna hittust við verslunarmiðstöðina Glerártorg um níuleytið í morgun og annar hópur við Skógarböðin. Þaðan var ekið af stað úr bænum í dagsferð í minni hópum.
Um hádegisbil á morgun, laugardag, verður fjallajeppasýning á bílastæði í grennd við fiskvinnslu ÚA á Oddeyri og annað kvöld verður afmælinu fagnað með 500 manna veislu á Akureyri. Meðfylgjandi myndir voru teknar við Glerártorg áður en lagt var í hann í morgun.
4x4 klúbburinn er félag þeirra sem hafa áhuga á ferðalögum um landið á fjórhóladrifsbílum. Markmið klúbbsins eru einnig, svo dæmi séu nefnd, að standa vörð um ferðafrelsi og stuðla að náttúruvernd og sjálfbærri ferðamennsku um náttúru landsins.