Fara í efni
Mannlíf

Fagna 120 ára afmæli Rotaryhreyfingarinnar

Stjórn Rótarýklúbbs Akureyrar, frá vinstri: Arna Georgsdóttir forseti, Óskar Ægir Benediktsson gjaldkeri og Elín Hrönn Einarsdóttir ritari.
Í dag, sunnudaginn 23. febrúar, eru 120 ár síðan Rótarýhreyfingin var stofnuð og því er fagnað um allan heim. Hvarvetna er kynning á starfseminni í tilefni dagsins og á Akureyri verður vöfflukaffi frá klukkan 14.00 til 16.00 í Stafholti 14. Þar má hver sem er reka inn nefið. „Verið hjartanlega velkomin í þægilegt spjall og ljúffengar vöfflur, engin skuldbinding,“ segir í tilkynningu Rótarýklúbbs Akureyrar.
 

„Rótarý er ein stærsta og virtasta góðgerðarhreyfing heims og hefur lagt til á síðustu þremur árum yfir 30 milljarða króna á ári til hinna ýmsu verkefna,“ segir í tilkynningunni. „Vegur þar þungt að The Bill and Melissa Gates foundation hefur treyst Rotary svo vel að þau bjóða tvo dollara í mótframlag við hvern dollar sem Rotarýhreyfingin safnar alþjóðlega til að vinna að útrýmingu lömunarveiki. En þetta er ekki eina verkefni Rótarý í góðgerðamálum. Einnig er unnið að friðarmálum, aðstoð við mæður og börn, stuðningi við menntun, öflun drykkjarvatns á þróunarsvæðum, eflingu efnahags nærsamfélaga og síðast en ekki síst verndun umhverfisins.“

Rótarý er félagsskapur fólks á öllum aldri sem hefur það sameiginlega markmið að láta gott af sér leiða, í nærsamfélaginu, á landsvísu sem og í heiminum öllum.

Gamalgróinn en síungur í anda

Rótarýfélagar telja um 1,2 milljónir í yfir 200 löndum. Fyrsti Rótarýklúbburinn á Íslandi var stofnaður í Reykjavík árið 1934 og nú eru um 1200 félagar á Íslandi í 32 klúbbum, þar af er einn ungmennaklúbbur, Rotaract. Konur eru um 30% félaga og fjölgar þeim jafnt og þétt.

Rótarýklúbbur Akureyrar er gamalgróinn, stofnaður árið 1938 en er þó síungur í anda, eins og það er orðað í tilkynningunni. „Félagar í dag eru um 33 talsins, bæði konur og karlar, en Rótaryklúbbur Akureyrar var í fremstu röð að stuðla að kynjajöfnuði og eru kynjahlutföll í dag um 50/50 sem ekki verður toppað.“

Klúbburinn hefur í gegnum tíðina komið að mörgum góðum verkefnum og stutt málefni samfélagsins. „Rótaryklúbburinn hefur um langa hríð verið með Botnsreit í Eyjafjarðarsveit í fóstri. Þessi fallegi skógræktarreitur er opinn almenningi og rómað útivistarsvæði þótt það fari ekki hátt. Þangað er farið í skemmtilegar vinnuferðir nokkrum sinnum á ári. Rótarýhreyfingin hefur verið einn af máttarstólpum Plokkdagsins og hefur klúbburinn lagt þar gjörva hönd á plóg. Gefandi að hafa þannig jákvæð áhrif á nærsamfélagið sitt.“

Þroskandi félagsskapur

„Rótarýklúbbur Akureyrar er afar góður félagsskapur fólks sem hittist vikulega, borðar saman og fræðist um málefni líðandi stundar. Ekki er skyldumæting á fundi en vitaskuld fæst mest úr félagsstarfi með virkri þátttöku. Rótarý er þroskandi félagsskapur þar sem gefst tækifæri á virkri þátttöku og að koma fram og skipuleggja viðburði, ferðalög og starf klúbbsins. Stjórnmál og trúmál ræðum við þó ekki en leggjum upp úr því að efla vináttu og styrkja tengslanet.“