Fara í efni
Mannlíf

Fæ því miður ekki „ísbjarnarull“ eins og síðast

Sútarinn og listakonan Lene Zachariassen, á Skinnaloftinu sínu á Hjalteyri. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Það er alltaf vandasamt verk að súta skinn og Lene Zachariassen, sútari og listakona á Hjalteyri er þekkt fyrir vandvirkni og virðingu fyrir viðfangsefninu. Um þessar mundir er þó einstaklega viðkvæmur gestur á borðinu hjá henni. Hvítabjörn sem gekk á land á Hornströndum árið 2011, birna með fallegan feld og langt ferðalag að baki, eins og fram kom í fyrri hluta viðtals Akureyri.net við Lene, sem birtist í gær. Hún tók á móti blaðamanni í lok desember og sagði frá.

„Ég afþíddi hana, en það tók alveg fjóra daga,“ segir Lene um sútunarferlið. „Ég þorði ekki að nota neitt nema ískalt vatn með salti, til þess að skemma ekki neitt. Ég beið og beið og sneri við á alla kanta, þangað til að hún var alveg þídd. Nú hef ég verið að skafa hana, en það hefur tekið þrjá daga. Til þess nota ég sérstakan, grænlenskan konuhníf sem kallast 'Ulu'.“ Lene sýnir blaðamanni hnífinn sem er glæsilegt handverk útaf fyrir sig. Hann er smíðaður í Ittoqqortoormiit sem er afskekktasta þorp Grænlands, og sá staður sem líklegast er að rekast á hvítabirni, samkvæmt heimasíðu Visit Greenland.

 

Lene sýnir hnífinn góða. 'Ulu' nefnist svona hnífur, sem grænlenskar konur nota til þess að skafa skinn. Mynd RH

„Þvínæst þurfti ég að flá lappirnar og taka beinin innan úr,“ segir Lene. „Þá þarf að fara alveg inn í fótinn og tærnar, en passa vel að missa ekki klærnar af. Og það sem þarf að passa rosalega vel, er að það verði engin fita eftir neinsstaðar á skinninu. Það er fitan sem morknar og getur skemmt skinnið. Þetta er því heilmikil sköfunarvinna, að ná allri fitunni burtu.“ Hún segist skafa og skafa, skola, skafa aftur, skola. „Aftur og aftur. Þetta er mikil þolinmæðisvinna og það er ekki hægt að flýta sér að þessu.“

Feldur og skinn hvítabjarna ótrúlegt „verkfræðiundur“ náttúrunnar

Hvítabirnir hafa ofboðslega þunna húð, þannig að Lene þarf að skafa mjög varlega svo að hárin missi ekki festuna. Ísbirnir eiga enga óvini, nema bara næsta björn, þannig að það þarf ekki mjög þykka húð til varnar. „Húðin er svört, með hársekkjum þar sem mörg hár koma saman,“ segir Lene. „Ég er búin að telja hversu mörg hár eru í hverjum sekk, og þau eru allt að tuttugu og fimm. Þar eru gróf hár og ullarhár saman, sem er mjög merkilegt og óvenjulegt. Þar eru líka glær hár sem eru mjög stinn, en ein skýringin er að þau leiði ljósið inn að svörtu húðinni til þess að hlýja dýrinu. Svo eru ullarhárin að loftræsta, þannig að eftir sundferð þá þornar feldurinn mjög fljótt. Þetta er eiginlega fullkomið kerfi. Betra en Gore-Tex!“ Lene þekkir sína feldi betur en flestir og hún ljómar af aðdáun þegar hún lýsir eiginleikum birnunnar.

 

Birnunni er hér stillt upp til þerris í sútunarrými Lene. Gatið eftir skotsárið sést vel á þessari mynd. Mynd RH

Þegar blaðamaður heimsótti Lene, í lok desember, var staðan þannig að birnan var tilbúin til þess að fara í pækil. „Það er í raun og veru bara saltvatn og maurasýra, til þess að ná niður PH gildinu, drepa allar bakteríur og gera hana tilbúna fyrir sútun. Eftir það þarf ég að skafa hana aftur, en þá verður sköfunin aðeins auðveldari. Eftir það tekur sútunin við. Þá liggur hún í vatni, salti og alun. Alun er steinefni sem hefur verið notað lengi bæði í litun, sútun, lyfjaframleiðslu, förðunarvöru og allskonar.“

Ullargarn af hvítabirni?

„Eftir sútun í 4-5 daga þvæ ég hana aftur og þarf eflaust að hreinsa eitthvað til,“ segir Lene. „Svo laga ég götin eftir byssukúlurnar, skotgatið er frekar stórt en ég sauma þetta saman. Þessi birna er ekki að missa neitt hár, þannig að ég fæ ekki hár til þess að spinna ísbjarnarull, eins og ég fékk síðast.“ Upp á Skinnalofti svokölluðu, þar sem Lene geymir gullin sín, á hún einmitt eina hespu af fínlegu, hvítu ísbjarnargarni síðan hún fékk síðast að vinna með ísbjarnarskinn. Það er nú ekki til á mörgum bæjum!

„Þegar þessu öllu er lokið, set ég hana hálfþurra í frost,“ segir Lene. „Þá bíður hún bara róleg þar eftir líkamanum sínum hjá uppstopparanum. Þar verður ákveðið hvernig hún á standa, hvort hún á að lyfta fæti eða hvað. Svo þarf að glæða hana lífi á ný. Ég fæ að vera handlangari hjá uppstopparanum, hjálpa til við saumaskap og fleira, og hlakka mikið til.“ Lene skellir birnunni í pækilinn og við segjum skilið við þær í bili, en fáum kannski að forvitnast um það, þegar hún lifnar við á ný.  

FRIÐAÐIR SKV. LÖGUM, EN ...

Til fróðleiks: 16. grein laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er þannig, samkvæmt vef Alþingis:

  • Hvítabirnir eru friðaðir samkvæmt lögum þessum á landi, hafís og á sundi, sbr. þó 3. mgr.
    [Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum.]
  • Fella má hvítabjörn sem gengið hefur á land og fólki eða búfénaði er talin stafa hætta af.
  • Hafi hvítabjörn verið felldur skv. 3. mgr. skal það tilkynnt ráðherra án tafar og getur hann þá krafist þess að björninn verði afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands til athugunar og ráðstöfunar, enda greiði ríkissjóður áfallinn kostnað.