Fara í efni
Íþróttir

Fæ einingar fyrir að æfa og keppa á skíðum

Sonja Lí með vinkonum sínum í skíðamenntaskólanum í Geilo. Myndir með viðtali eru úr einkasafni Sonju.

Skíðakonan Sonja Lí Kristinsdóttir er 19 ára á þessu ári, en hún vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fullorðinsflokki á dögunum, þegar hún sigraði í svigi. Skíðamót Íslands fór þá fram í Oddsskarði í Fjarðabyggð. Sonja Lí ólst upp í Naustahverfinu og gekk í Naustaskóla. Hún fór ekki í MA eða VMA eins og mörg akureyrsk ungmenni, heldur fór hún í skíðamenntaskóla til Noregs, nánar tiltekið til Geilo, og var stödd þar þegar blaðamaður Akureyri.net náði tali af henni. Foreldrar Sonju Lí eru Kristinn Magnússon og Greta Huld Mellado, en pabbi hennar fór einmitt í sama skíðamenntaskóla þegar hann var yngri og skíðaáhuginn er frá honum kominn. 

Fær einingar fyrir að keppa og æfa

„Ég er á þriðja ári núna og útskrifast í vor,“ segir Sonja. „Ég fæ einingar fyrir að æfa og keppa á skíðum, er í rauninni í hálfu bóklegu námi á móti skíðunum og útskrifast með venjulegt stúdentspróf. Svona get ég æft miklu meira en ég myndi annars hafa tök á. Í Noregi eru miklu fleiri staðir sem hægt er að skíða á, miklu fleiri mót og fleiri keppendur. Það var svolítið erfitt fyrir mig að koma hingað, eftir að vinna langoftast heima, og lenda svo í keppnum þar sem startlistinn var allt í einu áttatíu manns og ég kannski að lenda einhversstaðar neðarlega. Það var stór breyting en það hvetur mig samt áfram, og ég legg mig meira fram.“

 

T.v. Sonja Lí sjö ára með pabba sínum í fjallinu. T.h. Á HM Unglinga í febrúar 2025

Alltaf verið sjálfstæð

„Pabbi minn var líka á skíðum og ég ólst upp við það að fara mikið á skíði,“ segir Sonja Lí. „Hann hefur líka verið skíðaþjálfari og þjálfar t.d. í dag á Akureyri. Hann fór á ólympíuleika, sem er eitthvað sem mig dreymir um líka. Það hjálpaði alveg varðandi þessa ákvörðun, að ég færi hérna út í skólann 16 ára, að hann hafði verið á sama stað og þekkti til. Hann sagði reyndar að hann hefði ekkert leyft mér að fara ef þau hefðu haft einhverjar áhyggjur af mér, en ég hef alltaf verið frekar sjálfstæð og þetta hefur gengið vel.“

„Ég keppti á HM unglinga í ár, sem gekk ágætlega,“ segir Sonja Lí, „en ég keyrði út alveg í lokin í sviginu, sem var svekkjandi af því að það er betri greinin mín. Ég kláraði í stórsvigi og var þokkalega ánægð en ég man ekkert í hvaða sæti ég var. HM unglinga verður hérna í Noregi á næsta ári og ég stefni á að standa mig vel þar.“ 

 

Sonja Lí fagnar Íslandsmeistaratitlinum í svigi fyrir austan á dögunum. Til vinstri er Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir sem hlaut silfurverðlaun og til hægra Sara Mjöll Jóhannsdóttir sem lenti í 3. sæti og fékk bronsið.

Líður vel í Noregi og stefnir á að fara aftur í haust

„Það var svolítið erfitt að fara í burtu svona ung,“ segir Sonja Lí. „Ég sakna vina og fjölskyldu, að hitta þau ekki daglega. En það er orðið svo auðvelt að heyrast í gegnum netið, sem betur fer. Ég var snögg að ná norskunni og er búin að eignast góðar vinkonur hérna. Mér finnst mjög gaman að búa hér.“

„Við æfum mest svig og stórsvig, og mig langar að bæta við mig hraðagreinum í risasvigi og bruni,“ segir Sonja Lí, en hún hefur glímt við meiðsli um nokkurt skeið. „Ég keppti ekkert í fyrra útaf álagsmeiðslum. Ég hef verið að passa mig, en ég hef verið að keppa allan veturinn hérna úti og mætti á landsmót á Íslandi sem gekk mjög vel. Ég er að ná að takast betur á við meiðslin núna.“

„Það er hægt að taka aukaár eftir útskrift hérna í skólanum, þar sem maður er þá ekkert í námi, bara æfingum,“ segir Sonja Lí að lokum, en hún stefnir á að koma heim í sumar og fara svo aftur í skólann í haust og nýta sér það.