Eyþór hvetur fólk til að gefa fuglunum
Eyþór Ingi Jónsson, organisti, ljósmyndari og fuglavinur, hvetur fólk til þess að muna eftir smáfuglunum nú þegar veturinn herjar á menn og málleysingja á Norðurlandi.
Eyþór er búsettur í Svarfaðardal, og birti eftirfarandi pistil í morgun á fuglasíðu sem haldið er úti í Dalvíkurbyggð. Boðskapurinn á ekki síður við á Akureyri en þar útfrá.
Kæru fuglavinir.
Hér í Laugagerði er 20 cm jafnfallinn snjór. Hætta er á að allt mófuglavarp sé farið forgörðum, en flestir verpa aftur þega snjóa leysir. En við getum hjálpað spörfuglunum, sem flestir eru komnir með unga. Skógarþrestir, auðnutittlingar, svartþrestir, músarrindlar, maríuerlur og starar verpa gjarnan í trjám, undir kofum og húsum, í þakskeggjum o.s.frv. og því hafa hreiður etv sloppið frá snjónum, en það er erfitt fyrir fuglana að ná í fóður.
Ég hvet ykkur til að setja brauðmola, fræ, ávexti, matarafganga o.s.frv. út fyrir fuglana. Setja undir tré og runna, við húsveggi, á plön sem ekki eru þakin snjó. Hjá mér er stöðugur straumur fugla sem eru nú þegar í dag búnir að taka með sér næstum hálft brauð og helling af fræjum. Hingað eru líka komnir fleygir ungar og svo sá ég snjótittlinga sem voru að sækja æti, en þeir verpa væntanlega einhversstaðar langt fyrir ofan mig í fjallinu.
Það er þekkt að fuglar sem eru vanir að ganga að mat í görðum, komi í sömu garða með unga sína, þegar þeir verða fleygir. Þetta á amk við um auðnutittlinga og hefur verið staðfest með því að lesa af fuglamerkjum. Semsagt, út með matinn.
Meðfylgjandi myndir tók Eyþór Ingi fyrir utan heimili sitt í morgun.
Auðnutittlingur