Eyrarrokk skemmtileg hátíð og nauðsynleg
Tónlistarhátíðin Eyrarrokk verður haldin í fjórða skipti á Verkstæðinu neðst við Strandgötu eftir tæpar þrjár vikur og Hvanndalsbræðurnir Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson og Sumarliði Helgason eru fullir tilhlökkunar enda sannfærðir um að hátíðin nú verði sú besta til þessa. Þeir stofnuðu til Eyrarrokks á sínum tíma ásamt Helga Gunnlaugssyni eiganda Verkstæðisins og þremenningarnir standa enn í brúnni.
„Þetta er stærsta tónlistarhátíð sem haldin er á Norðurlandi ...“ segja Rögnvaldur og Sumarliði nánast einum rómi í samtali við blaðamann, en bæta við í flýti: „... fyrstu helgina í október.“ Alltaf stutt í léttleikann enda ekki verra að halda sig þeim megin í tilverunni.
„Okkur sýnist að þetta verði fyrsta hátíðin þar sem verður uppselt,“ segir Sumarliði, að öllu gamni slepptu. Hægt er að kaupa miða á bæði kvöldin eða sitthvort og aðeins fáeinir miðar eftir, botnar Rögnvaldur og bætir við: „Þeir verða örugglega fljótir að fara og ég hvet því vini mína til að drífa sig að kaupa miða. Það er svo leiðinlegt að þurfa að slökkva á símanum þegar þeir byrja að hringja eftir að orðið er uppselt ...“
Baraflokkurinn á tónleikum í Hofi árið 2010. Ásgeir Jónsson söngvari fremstur á sviðinu og gamalli mynd af honum varpað á tjald að baki hljómsveitinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þekktar hljómsveitir
Þekktar hljómsveitir verða á hátíðinni í ár eins og áður. Akureyrska hljómsveitin Baraflokkurinn, sem gerði það gott fyrir margt löngu, kemur til dæmis fram í fyrsta sinn á Eyrarrokki og verður án efa mörgum gleðiefni.
Ásgeir Jónsson söngvari Baraflokksins lést fyrir rúmum tveimur árum langt fyrir aldur fram og mun rokkarinn Magni Ásgeirsson sjá um sönginn að þessu sinni.
Þá má nefna að Langi Seli og skuggarnir mæta fjórða árið í röð og Fræbbblarnir verða með í þriðja skipti. Listi yfir allar hljómsveitirnar er neðst í fréttinni.
„Við erum mjög stoltir af því að fá Baraflokkinn til að spila á hátíðinni,“ segir Rögnvaldur. „Hann var eina akureyrska hljómsveitin sem hélt alvöru tónleika þegar ég var ungur, annars voru þetta allt danshljómsveitir.“
Hvers vegna ...
Þegar Rögnvaldur steig fyrstu skrefin í bransanum á sínum tíma tóku stundum nokkrar hljómsveitir sig saman og héldu tónleika og segja má að sú reynsla hafi verið kveikjan að Eyrarrokki.
„Svona tónleikar voru haldnir í gamla daga. Hér á Akureyri var svo sem engin tónleikamenning og erfitt fyrir hljómsveitir að fá að spila. Ef það tókst komu kannski 10 til 15 manns þannig að eina ráðið var að smala saman ýmsum hljómsveitum sem héldu sameiginlega tónleika, þá voru að minnsta kosti hinar hljómsveitirnar að hlusta, sem leit miklu betur út!“ sagði Rögnvaldur fyrir fyrstu hátíðina 2021 og þau orð voru jafn sönn þá og nú.
Langi Seli – Axel Hallkell Jóhannesson – hefur mætt á hátíðina á hverju ári ásamt hljómsveiti sinni, Skuggunum, og þeir verða á sínum tíma á fjórðu hátíðinni.
Rögnvaldur og Sumarliði segja mikla vinnu að skipuleggja hátíðina og á hverju ári spyrji þeir sjálfa sig hvers vegna þeir séu eiginlega að standa í þessu. „Svo þegar helgin rennur upp þá man maður það,“ segir Rögnvaldur. Hátíðin sé mjög skemmtileg og þeim þyki hún nauðsynleg.
„Við vorum reyndar að hugsa um að hætta eftir aðra hátíðina. Sú fyrsta gekk fínt en aðsóknin var ekki góð árið eftir. Þriðja hátíðin í fyrra var betri og nú stefnir í mjög góða hátíð,“ segir Sumarliði og bætir við: „Okkur var sagt áður en við fórum af stað að við yrðum að halda hátíðina að minnsta kosti fimm sinnum – fyrr kæmi ekki í ljós hvort hún myndi heppnast og festa sig í sessi.“
Hugsjónastarf
Þeir taka skýrt fram að hátíðin sé algjörlega óhagnaðardrifin og það sé mikilvægt. Peningar megi ekki ráða för.
„Hljómsveitirnar skipta innkomunni á milli sín og fá rétt fyrir bensíni, þetta er svo stór hópur. Við tveir fáum að sjálfsögðu ekkert fyrir nema ánægjuna; þetta er hugsjónastarf því okkur fannst vanta svona hátíð og það er meðal annars fyrirtækjum eins og Backpackers [þar sem þeir ræða við blaðamann Akureyri.net] að þakka að hægt sé að halda hátíðina. Hér er okkur útveguð gisting fyrir hljómsveitirnar á mjöööög góðu verði ...“
DAGSKRÁ EYRARROKKS Í ÁR
Föstudaginn 4. október
- Kælan mikla
- Múr
- Fræbbblarnir
- Tappi Tíkarrass
- Dr. Gunni
- Tonnatak
Laugardaginn 5. október
- Baraflokkurinn
- Rock Paper Sisters
- Langi Seli og Skuggarnir
- Bleiku Bastarnir
- Fókus
- Amma Dýrunn