Fara í efni
Pistlar

Eyrarrokk lengi lifi!

Það er ekki oft sem manni gefst tækifæri til að rífa fram gömlu góðu leðurbuxurnar, hermannaklossana og smella sér í geggjaða hljómsveitarbolinn sinn. Þetta tækifæri var akkúrat núna um helgina þegar Eyrarrokk var haldið hér á Akureyri í annað sinn. Þvílík nostalgía að sjá þessa gömlu góðu miðaldra pönkara og rokkara, konur jafnt sem karla, skríða úr holunum sínum og henda í kraftmikla tónleika. Einnig var fullt af yngri hljómsveitum sem að ég hafði aldrei heyrt um og vá hvað maður á eftir að hlusta betur á þessar grúppur!

Föstudagskvöldi byrjaði mjög fjörlega þar sem hljómsveitin Brimbrot steig fyrst á stokk og þar voru nokkrir góðkunningjar úr tónlistabransanum. Síðan komu sveitir eins og Skepna, Mosi frændi og Tappi Tíkarass sem margir muna eftir úr myndinni Rokk í Reykjavík. Kolrassa krókríðandi var síðan næst á svið og í lokin var það rokkabillí bandið Langi Seli og skuggarnir sem endaði þetta frábæra kvöld. Neita því ekki að ég sofnaði brosandi út af eyrum og líka með suð í eyrunum og ekki síst uppfullur af spenningu fyrir laugardagskvöldinu.

Hélt kannski að laugardagskvöldið myndi byrja á rólegu nótunum þar sem stemningin yrði keyrð upp eftir því sem liði á kvöldið. En nei! Hljómsveitin Tuð byrjaði kvöldið af miklum krafti og keyrði áhorfendur í gang. Næstir voru það drengirnir í Norður sem stigu á stokk, í kjölfarið var það hljómsveitin Ekkert og ég verð bara að segja að bæði böndin voru hrikalega skemmtileg. Það kom síðan í hlut Helga og Hljóðfæraleikanna að halda fjörinu áfram og sá hópur fór reyndar létt með það. Vicky var næst á svið og lokabandið var Power Paladin.

Ég ætla rétt að vona að þessi frábæra hátíð sem kallast Eyrarrokk sé búin að festa sig í sessi sem árleg rokkhátíð hér á Akureyri. Hversu frábært er það á fá að sjá 12 hljómsveitir, örugglega hátt í 60 listamenn, stíga á stokk á tveimur kvöldum hér í bæ? Það sem gerir þennan viðburð svo skemmtilegan er fjölbreytileikinn því allskyns tónlistarstefnur eru í boði. Einnig er þetta frábært tækifæri fyrir nýlegar hljómsveitir að koma sér á framfæri sem og hálfgert reunion fyrir eldri rokkhundanna - magnaðir endurfundir.

Núna eru leðurbuxurnar komnar inn í skáp og verða þar næsta árið ásamt hermannaklossunum. Það sem mér finnst hvað sorglegast er að geta ekki greitt í hanakamb lengur!

Ég segi margfalt húrra fyrir aðstandendum hátíðarinnar og öllum sem að henni komu!

  • Meðfylgjandi myndir tók Ágúst Halldórsson á Eyrarrokki um helgina.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00