Fara í efni
Mannlíf

„Erum að skapa samfélagið á Akureyri saman“

Mehmet, Pyraie og Hilal í Reykjavík. Mynd úr einkasafni

„Ég var mjög hrifin af listrænum kvikmyndum og sótti listahátíðir og kvikmyndahátíðir þegar ég ung,“ segir Hilal Sen, innflytjandi á Akureyri frá Tyrklandi og lektor í sálfræði við Háskólann á Akureyri. „Þegar ég var fimmtán eða sextán ára, var ég á kvikmyndahátíð og sá 'Dancer in the Dark' með Björk í aðalhlutverki. Ég fór í kjölfarið að leita að Íslandi á heimskortinu og í alfræðiorðabókinni og þá hugsaði ég mér að það gæti verið spennandi að komast einhverntíman til Íslands. Ég mundi vel eftir þessu þegar ég sá atvinnutilboðin í Háskólanum á Akureyri og varð spennt aftur!“ 

Þriðji og síðasti hluti viðtals Akureyri.net við hjónin Hilal og Mehmet birtist í dag.

Við vorum alltaf svo afbrýðisöm út í öll þessi skandinavísku lönd, þau röðuðu sér alltaf í efstu sætin á öllum mælistikum um góða hluti í heiminum

Mehmet Harma, eiginmaður Hilal og dósent við sálfræðideild HA, hafði enga tengingu við Ísland þegar hugmyndin um að flytja kom upp, en hann þekkti Ísland sem fastagest á alþjóðlegum listum um hamingju íbúa, ríkidæmi og jafnrétti. „Ég hafði náttúrulega skoðað ótal svona lista í tengslum við kennsluna í félagssálfræðinni,“ segir hann. „Við vorum alltaf svo afbrýðisöm út í öll þessi skandinavísku lönd, þau röðuðu sér alltaf í efstu sætin á öllum mælistikum um góða hluti í heiminum,“ segir hann hlæjandi. Mehmet segir að Tyrkland og Bandaríkin hafi yfirleitt verið á svipuðum stað á svona listum, töluvert neðar. Reyndar hefur Ísland verið neðar en hin Norðurlöndin á listum yfir spillingu í stjórnmálum, bendir hann á, en við förum ekki að rekja ástæður þess í stuttu máli.

Árangur í íslensku skólakerfi olli vonbrigðum

„Við vorum meðvituð um að það er ekki alltaf hægt að treysta svona listum eins og nýju neti, en auðvitað er það rétt, að hérna hefur fólk það gott og býr við réttlæti og mannréttindi,“ segir Mehmet, aðspurður um það hvort að Ísland hafi staðist væntingar. „En það voru ýmsir hlutir sem komu okkur á óvart.“ Hilal segir að skólakerfið hafi valdið þeim nokkrum vonbrigðum, niðurstöður Íslands í PISA könnunum, til dæmis. Þar eru Tyrkland og Ísland nokkurn vegin á sama stað núna, þar sem Ísland færist neðar með hverju árinu sem líður.

Núna, seinna árið okkar erum við búin að setja upp gleraugun aftur og erum meira að fylgjast með því, hvernig samfélagið virkar

„Fyrsta árið okkar einkenndist svolítið af því að við vorum að upplifa margt í fyrsta sinn,“ segir Hilal. „Við sáum snjó í fyrsta skipti. Náttúruperlur. Bláa lónið. Allt það. Núna, seinna árið okkar erum við búin að setja upp gleraugun aftur og erum meira að fylgjast með því, hvernig samfélagið virkar. Dóttir okkar er byrjuð í skóla og við erum að spá mikið í því hvernig menntun hún fær. Við erum sjálf kennarar og lítum á það sem forréttindi að fá að mennta komandi kynslóðir, þannig að við höfum mikinn áhuga á þessu að sjálfsögðu.“

„Mér finnst oft eins og það skorti svolítið á vilja til þess að bæta stöðugt og þróa gæðin í menntakerfinu,“ segir Hilal. „Við höfum átt mörg góð samtöl við kollega okkar í kennslufræðinni í háskólanum, og við spáum mikið í framtíð menntunar. Við erum farin að hugsa það núna, að við gætum kannski orðið að liði varðandi þróun menntunar og í háskólanum erum við að safna upplýsingum í sameiningu. Kannski náum við að nýta þessar rannsóknir þegar fram líða stundir.“

Piraye, dóttir Hilal og Mehmet, er 7 ára og lauk fyrsta bekk í Oddeyrarskóla í vor. Hún hefur ferðast mikið þrátt fyrir ungan aldur og er hér á siglingu við Istanbul. Mynd úr einkasafni.

Varðandi tungumálið, þá eru hjónin í íslenskutímum fyrir útlendinga, en taka námið hægt og rólega, enda mikið að gera hjá þeim. „Nú er dóttir okkar að læra á íslensku í skólanum náttúrulega, og æfa sig að lesa heima, og við njótum góðs af því líka,“ segir Hilal. „Við erum að læra helling á því að hjálpa henni og hlusta á hana. Við erum svo að grúska með að þýða það sem hún er að lesa heima og þá kemur oft eitthvað undarlegt út, og við rekum okkur á ólíka málfræði. Þá erum við dugleg að heyra í íslenskum vinum okkar og spyrja. Þetta kemur hægt og rólega hjá okkur.“

Við þurfum eiginlega á því að halda, að nýir íbúar leggi sig fram við að kynna sig og kynnast ykkur

Við Íslendingar eru frekar lokaðir, oft á tíðum. Við tölum ekki svo gjarnan við ókunnuga nema ástæða sé til og höldum okkur oft við það sem við þekkjum og fólkið sem er nú þegar í lífi okkar. „Við skiljum mjög vel, að fólk hérna þarf ekki endilega að bæta við sig félagslega,“ segir Mehmet. „Fólk hefur sinn hóp og líður vel með það. Við höfum líka séð það, að það þarf stundum að nálgast fólk oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, til þess að koma á tengslum.“ Hilal tekur undir þetta og ítrekar að það sé ekki neitt undarlegt við það, að það þurfi, sem innflytjandi, að gefa sig að fólki og reyna að kynnast því. „Við þurfum eiginlega á því að halda, að nýir íbúar leggi sig fram við að kynna sig og kynnast ykkur. Það er fyrir okkur öll, fyrir samhljóminn í samfélaginu. Fyrr eða síðar, verður það auðveldara fyrir nýtt fólk að aðlagast.“

Hilal og Mehmet segja að þau eigi sína bestu vini á Akureyri úr röðum annarra innflytjenda, sem kannski eigi börn í skólanum líka eða eitthvað slíkt, en það er fólk í svipaðri stöðu, að eiga ekki félagslegt net og geta ekki talað á sínu móðurmáli. „Við erum samt alltaf að kynnast fleirum og það er mjög ánægjulegt að fá meiri og meiri innsýn í líf Íslendinga.“

Hvað kemur á óvart í fari Íslendinga?

Það er freistandi að spyrja Hilal og Mehmet, sem eru sálfræðimenntuð og koma sem innflytjendur til Íslands, hvaða skoðun þau hafi á íslensku samfélagi og hvað hafi helst komið á óvart. „Það er tvennt sem kom mér mikið á óvart,“ segir Hilal. „Fyrst ber að nefna neysluhegðun Íslendinga, sem reyndist vera mjög amerísk í eðli sínu. Það kom mér að óvörum, ég bjóst við meiri umhverfisvitund, eins og í Skandinavíulöndunum. Mér finnst lítil áhersla á nýtingu og sparsemi. Kannski er hluti ástæðunnar sá, að áhrif hlýnunar jarðar er ekki enn hægt að merkja að ráði hérna á Íslandi. Fólk er ekki farið að finna á eigin skinni, hvað er í vændum ef við vöndum okkur ekki.“

Mér finnst allir dagar vera nammidagar á Íslandi. Það er líka bara óhóflegt magn af sykri í ólíklegustu matvörum

Hitt atriðið sem Hilal nefnir, að hafi komið sér á óvart á Íslandi, er sykurneysla. „Ég upplifi mikla og óheflaða sykurneyslu hérna, sem veldur mér áhyggjum, aðallega varðandi krakkana,“ segir Hilal. „Mér var sagt að það væri bara nammi fyrir krakka á laugardögum, að það væri svokallaður nammidagur, en upplifun mín er ekki þannig. Mér finnst allir dagar vera nammidagar á Íslandi. Það er líka bara óhóflegt magn af sykri í ólíklegustu matvörum.“ Mehmet segir að hann hafi verið mjög hugsi yfir meðalaldri sem Íslendingar ná, 82 ár fyrir karlmenn og 85 fyrir konur, þegar hann sá matarmenninguna hérna. „Mér fannst ótrúlegt að sjá þennan háa meðalaldur miðað við hvernig fólk borðar. Allur sykurinn, óholl fita og unnar matvörur.“

Uppeldi barna á Íslandi undir smásjánni

„Annað, sem ég hef tekið eftir, er að mér finnst vanta upp á aðhald í uppeldi barna á Íslandi,“ segir Hilal. „Börn þurfa skýra ramma og mörk, alveg sama hvaðan þau koma. Auðvitað ekki neinn heraga, alls ekki, en meira aðhald en ég hef orðið vitni að hérna. Við erum að rannsaka uppeldi barna í deildinni minni í Háskólanum, ekki til þess að breyta neinu eða slíkt, bara til þess að fá skýra mynd af því sem er að eiga sér stað og þetta er mjög spennandi rannsókn. Við getum kannski séð við hverju er að búast með komandi kynslóðir ef við getum kafað ofan í uppeldið sem börnin okkar búa við í dag.“

Hilal og Mehmet segja að þó að Tyrkland sé 4000 km í burtu frá Íslandi, sé margt svipað í menningunni. „Okkur líður mjög vel hérna, vegna þess að þrátt fyrir að vera ólík að mörgu leyti, eiga Íslendingar og Tyrkir í grunninn margt sameiginlegt,“ segir Hilal. „Það er frekar mikið olnbogarými í menningunni okkar, fólki er treyst til þess að stuðla að góðu samfélagi. Það eru reglur og boð og bönn, en eftirlitið er ekki mikið. Þó það sé kannski ekki alltaf gott, er dásamlegt að hafa þetta frelsi í daglegu lífi. Við erum vön því að búa við svolítið lauslegan strúktúr, frelsi og óreiðu, og þekkjum það vel.“

„Tyrkir eru svipaðir og Íslendingar varðandi félagslyndi,“ bætir Hilal við. „Við erum líka vön því að halda okkur í hópum og erum ekki mikið að sækjast eftir að kynnast nýju fólki, þannig að við skiljum kannski betur en margir aðrir hvers vegna það getur verið erfitt að komast inn í samfélagið hérna.“

Í Tyrklandi, líkt og í Bandaríkjunum, er keppni allsstaðar. Í skólaumhverfinu til dæmis, er alltaf verðlaunað fyrir besta árangurinn. Þú ert rekinn áfram í að vera bestur í því sem þú tekur þátt í

Að lokum er áhugavert að segja frá því, að hjónin upplifa íslenska menningu alveg lausa við samkeppni. „Fólki er ekki stillt upp hlið við hlið og borið saman,“ segir Mehmet. „Í Tyrklandi, líkt og í Bandaríkjunum, er keppni allsstaðar. Í skólaumhverfinu til dæmis, er alltaf verðlaunað fyrir besta árangurinn. Þú ert rekinn áfram í að vera bestur í því sem þú tekur þátt í.“ Hilal og Mehmet koma úr þessu umhverfi og eru alin upp við þetta, en Hilal segir að þau hafi til dæmis rekið sig á með tónlistarnám dóttur sinnar. „Hún fór að æfa á fiðlu, og við vorum mjög upptekin af því að hún myndi ná að klára lögin sem hún var að æfa. Læra þau vel og vanda sig. Svo ræddum við við kennarann og það var allt mjög rólegt, áhersla á að hafa gaman og sjá til hvaða árangur myndi nást.“ Mehmet bendir á að hann hafi líka verið hissa á fimleikum, þar sem krakkarnir voru alls ekki að ná að gera það sem átti að gera, en samt var klappað og þeim hrósað.

En við sjáum að það er gott að krakkarnir búi við friðsælt umhverfi þar sem þau eiga að njóta þess sem þau gera og árangurinn skipti ekki öllu máli. Við erum að aðlagast þessu

„Við ákváðum að skoða þetta alveg upp á nýtt, og rýna í skoðanir okkar á þessu,“ segir Hilal. „Við erum mjög markmiðadrifin, sem dæmi er ekki í boði að klára ekki bók sem maður byrjar á. Sama hvort maður njóti þess að lesa hana eða ekki. Þetta er lærð hegðun sem við eigum svolítið erfitt með. En við sjáum að það er gott að krakkarnir búi við friðsælt umhverfi þar sem þau eiga að njóta þess sem þau gera og árangurinn skipti ekki öllu máli. Við erum að aðlagast þessu.“ Mehmet rifjar upp þegar hann bjó í Póllandi, við hliðina á tónlistarskóla. „Ég heyrði reglulega öskur í kennara, sem var að húðskamma nemendur sína. Þá hugsaði ég að þetta væri nú góður kennari, sem myndi ná árangri með nemendur sína. Stundum upplifi ég að nám dóttur minnar sé alveg hinum megin á rófinu, næstum því eins og frístund miðað við svona kennslu. Ætli það þurfi ekki að mætast einhversstaðar í miðjunni.“

Gott að vera laus við keppnisumhverfið í háskólasamfélaginu

Mehmet segir að það hafi verið áhugavert fyrir þau, komandi úr þessu keppnisumhverfi í menntaheiminum, að flytja til Íslands og fara að kenna hérna. „Ég upplifi sjálfan mig meðvitaðan, og finn ekki fyrir stressi, að fara í kennslu næsta haust,“ segir hann. „Ég kann að meta þetta umhverfi, þar sem meira er lagt upp úr áhuga og rými til þess að ræða fram og aftur, án þess að vera í stöðugri samkeppni og stressi.“ Hilal tekur undir. „Ég á erfitt með að vera í miklu keppnisumhverfi, þó að ég sé með mikið keppnisskap,“ segir hún. „Stressið drepur niður áhugann og hvatninguna til þess að fræðast og kenna. Það þurrkar mig alveg upp að vera sífellt að keppa við kollega mína, en í Tyrklandi urðu jafnvel oft illindi vegna þessa. Það kemur engum til góðs.“ Hilal segir að hún geti tekið undir með manni sínum, að kenna og stunda rannsóknir við Háskólann á Akureyri sé allt öðruvísi. „Hérna get ég raunverulega hugsað og kafað á dýptina.“

Að lokum er kaffið búið í bollanum og Hilal tekur saman upplifun sína af samfélaginu sem við erum að skapa á Akureyri. „Innst inni höfum við öll þessa þörf fyrir að tengjast öðru fólki og tilheyra,“ segir Hilal. „Það er sammannlegt þvert á öll landamæri. Það er mikilvægt fyrir fólk í okkar stöðu, innflytjendur og aðkomufólk, að leggja sig fram við að kynnast ykkur. Eins væri gaman fyrir ykkur að kynnast okkur, og sjá tækifærin og heyra sögurnar sem fylgja hverri einustu manneskju sem velur að taka þátt í samfélaginu okkar.“