Fara í efni
Mannlíf

Eru áramótaheit góð hugmynd?

Mynd: Unsplash.com/@kellysikkema

Um áramót nota margir tækifærið til að endurmeta stöðuna hjá sér, líta yfir farinn veg og setja sér ný markmið eða dusta rykið af gömlum markmiðum. En eru áramótaheit af hinu góða eða geta þau jafnvel verið skaðleg og brotið fólk niður fremur en að ýta því áfram? 

Akureyri.net fékk Einar Eddu Kristinsson, sálfræðing hjá HA og á Metis sálfræðiþjónustunni og Maríu Björk Ingvadóttur félagsráðgjafa og framkvæmdastjóra Félagsráðgjafafélags Íslands til þess að velta fyrir sér ágæti áramótaheita.

- Eru áramótaheit góð eða slæm?  

Einar: „Áramótaheit eru í sjálfu sér hvorki góð né slæm, þau eru í raun bara markmiðasetning sem á sér stað 31. desember - og það er gott að eiga sér markmið. Góð markmið geta virkað hvetjandi á okkur, aukið ánægju okkar og árangurstilfinningu, en öll markmiðasetning getur verið dæmd til að mistakast sé ekki rétt að henni staðið og þá skiptir litlu hvort það sé gamlárskvöld, Þorláksmessa að sumri eða hvaða dagur sem er. Kannski erum við líklegri til þess að setja okkur öfgafull og óraunhæf markmið eftir jólafrí sem einkennist oft af ofneyslu í mat og drykk og rútínuleysi í svefni og hreyfingu - og við ætlum heldur betur að flýta okkur að taka til. Illa skilgreind og óraunhæf markmið eru ekki líkleg til árangurs og geta jafnvel haft neikvæðar og niðurbrjótandi afleiðingar fyrir þann sem þau setur. Svarið við spurningunni hvort áramótaheit séu góð eða slæm er því: Það fer eftir ýmsu.“

María: „Helstu kostir við að setja sér áramótaheit eru þau að þá gefst manni tækifæri til að endurmeta stöðu sína og setja sér markmið, skapa tilfinningu fyrir fersku upphafi sem eykur eldmóð og vilja til að gera breytingar. Svo er ég ekki frá því að ferlið geti hjálpað fólki að átta sig á hvað það vill bæta til að bæta lífið og ef maður strengir heit með öðrum, þá verði til ákveðinn aðhaldsrammi. Helstu gallar við áramótaheit eru að við sköpum mögulega óraunhæfar væntingar með of stórum eða óskýrum markmiðum og ef við byggjum þessi heit ekki á djúpstæðum áhuga eða þörf, getur áhuginn dofnað fljótt. Það er heldur ekki vænlegt til árangurs ef við upplifum þrýsting frá samfélaginu um að við „eigum“ að setja okkur áramótaheit.“ 

Helstu kostir við að setja sér áramótaheit eru þau að þá gefst manni tækifæri til að endurmeta stöðu sína og setja sér markmið, skapa tilfinningu fyrir fersku upphafi sem eykur eldmóð og vilja til að gera breytingar.

Einar Eddu og María Björk eru sammála um að það sé mikilvægt í allri markmiðasetningu að markmiðin séu vel skilgreind, raunhæf og merkingarbær. Þá þurfa þau að vera mælanleg, tímasett og sveigjanleg.

- Hvernig áramótaheit er best að strengja? 

María: „Ef við viljum nýta okkur áramótaheit til þess að bæta eigið líf þá tel ég gagnlegt að hugsa um þau sem vel skilgreind og raunhæf markmið, mælanleg þannig að hægt sé að fylgjast með framförum og ekki minnst að við höfum þau tímasett. Áramótaheit geta verið skaðleg þegar þau eru of almenn eða óraunhæf. Dæmi um það er: „Ég ætla að verða hamingjusöm“, án þess að skýra það nánar. Einnig ef þau eru byggð á ytri þrýstingi, t.d. „Ég ætla að léttast af því að allir gera það á nýju ári“. Eða ef þau eru ekki í takt við innri hvöt og skapa þá streitu eða sektarkennd frekar en hvatningu.“

Einar: „Ef áramótaheitið er vel skilgreint og raunhæft og hefur einhverja raunverulega merkingu fyrir mér hafa líkurnar á að það náist aukist verulega. Ef ég veit hvert ég vil stefna og hvernig ég ætla mér að komast þangað get ég útbúið plan og ekki skemmir fyrir ef markmiðið er mælanlegt og með vel skilgreindum tímaramma líka. Það er til dæmis erfitt að fylgja eftir markmiðinu „Ég vil vera glaðari“ vegna þess að ég veit ekki alveg hvernig ég ætla að fara að því að komast á þann stað. Ég veit ekki einu sinni almennilega hvernig það liti út eða hvenær markmiðinu væri loksins náð. En ef ég set mér það markmið að „hitta vini mína að minnsta kosti aðra hverja viku næstu þrjá mánuðina“ eða „fara í ræktina þrisvar sinnum í viku næsta mánuðinn“ eða „spila með börnunum mínum á laugardagskvöldum í desember“ hef ég eitthvað í höndunum sem ég get farið eftir. Við sem sagt verðum að velta fyrir okkur hvaða hegðun er samræmanleg markmiðinu. Að lokum er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að markmið þurfa að vera sveigjanleg, árangur er sjaldnast fullkomlega línulegur, hann er frekar sveiflukenndur - stundum gengur vel og stundum ekki eins vel – jafnvel illa! Þá er mikilvægt að muna að þetta ferli snýst ekki aðeins um lokatakmarkið heldur einnig um ferðina í áttina að því. Ef markmiðið skortir sveigjanleika er hætt við að við gefumst upp um leið og við leiðumst örlítið út af sporinu, dettum jafnvel í sjálfsgagnrýni og vonleysi.“ 

 Illa skilgreind og óraunhæf markmið eru ekki líkleg til árangurs og geta jafnvel haft neikvæðar og niðurbrjótandi afleiðingar fyrir þann sem þau setur

- Strengið þið sjálf áramótaheit?  

María: „Mér hefur gengið misvel með að strengja og fylgja eftir áramótaheitum, þrátt fyrir einbeittan ásetning en hef samt bæði séð og heyrt að áramótaheit geti verið öflugt tæki til að skapa breytingar ef þau eru raunhæf og skýr. Ég tel hins vegar að það geti verið skynsamlegra að nálgast markmið með opnari og sveigjanlegri hætti því of oft er tilhneigingin til að setja sér óframkvæmanleg heit sem svo veldur manni kvíða eða vonbrigðum.“

Einar: „Ég sjálfur set mér ekki eiginleg áramótaheit - ég set mér frekar markmið sem einskorðast ekki við einn tímapunkt.“

Áhugaverðir valkostir við áramótaheit  - Hugmyndir frá Maríu Björk 

  • Setja sér lítil, samfelld markmið: T.d. „Ég ætla að lesa 10 blaðsíður á dag“ frekar en „Ég ætla að lesa 50 bækur á árinu.“
  • Einblína á ferlið fremur en niðurstöðuna: T.d. „Ég ætla að hreyfa mig reglulega“ frekar en „Ég ætla að missa 10 kíló.“
  • Nota mánaðarlegar eða vikulegar endurskoðanir: Þetta gerir markmið sveigjanleg og aðlaganleg.
  • Þakklætislisti eða áhersla á það sem gengur vel: Þetta getur skapað jákvæða sjálfsmynd frekar en að einblína á það sem þarf að laga.