„Enn að ryðja braut fyrir konur í flugi“

Á heimsvísu er hlutfall starfandi kvenna í röðum flugmanna aðeins tæplega 6%. Það fer þó vaxandi, með hverju árinu sem líður. Tvær ungar konur sem starfa sem flugmenn á Akureyri, þær Helga Sigurveig Kristjánsdóttir og Auður Birna Snorradóttir brenna fyrir málefnum kvenna í flugi, og ákváðu því að stofna samtökin Flugsystur. Þau eru fyrir allar konur sem tengjast flugi og hafa áhuga á því. Helga starfar sem flugmaður í sjúkraflugi hjá Norlandair og er formaður Vélflugfélags Akureyrar. Auður Birna er nýflutt heim til Íslands frá Spáni, en hún er atvinnuflugmaður og flugkennari hjá Flugskóla Akureyrar.
Samtökin verða formlega stofnsett að kvöldi þann 22. mars næstkomandi, þar sem Auður og Helga hafa skipulagt veislu í Skýli 13 á Akureyrarflugvelli. En hvers vegna vilja þær stofna þessi samtök? Hvernig kom það til? Og hverjar eru helstu áskoranir kvenna í flugi? Blaðamaður kíkti í kaffi í Flugskóla Akureyrar sem er einmitt staðsettur í Skýli 13, og fékk að heyra allt um Flugsystur.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Auði Birnu og Helgu. Seinni hlutinn verður birtur á morgun.
- Á MORGUN – FLUGSYSTUR: „ERUM MEÐ HÁFLEYG MARKMIГ
Flugsystur að fyrirmynd alþjóðlegra samtaka
„Ég er virkur meðlimur í alþjóðlegum samtökum kvenna í flugi sem heitir Women in aviation,“ segir Auður Birna. „Ég hafði hlakkað til að kynnast meðlimum félagsins á Íslandi þegar ég flutti nýlega heim aftur eftir að búa erlendis lengi. Ég komst því miður að því að félagsskapurinn hafði fjarað út eftir Covid. Ég sat svo um daginn með kvenkyns nemanda mínum í Flugskóla Akureyrar og hún spurði hvort að það væru einhverjar stelpur í nýjasta nemendahópnum af 15 einstaklingum. Þegar ég sagði henni að það væru bara strákar, sá ég strax vonbrigðin og það varð til þess að ég tók ákvörðun um að búa bara sjálf til félagasamtök fyrir konur í stéttinni og efla tengingu okkar á milli. Ég hafði strax samband við Helgu og við stækkuðum hugmyndina saman.“
T.v. Helga tekur flugið. T.v. Auður Birna í kennsluhlutverkinu. Myndir: aðsendar
Allar konur sem hafa áhuga á flugi velkomnar
„Okkur fannst vanta svona samtök,“ segir Helga. „Þar sem konur í flugi geta komið saman og haft stuðning frá hver annarri.“ Auður Birna tekur undir það, og aðspurð um það, hvort að samtökin séu bara fyrir flugmenn, segir hún að það hafi verið planið fyrst. „Svo langaði okkur að víkka það aðeins út, og bjóða í raun öllum að vera með sem hafa áhuga á flugi eða starfa í kring um flug. Á opnunarkvöldið okkar höfum við boðið öllum konum hérna á vellinum. Til dæmis konunum sem starfa uppi í turni, á Flugsafninu o.fl. Svo er líka nóg að hafa áhuga á flugi. Það gæti kannski kveikt áhugann enn frekar, að taka þátt í starfinu okkar.“
„Okkur langar að gefa af okkur og deila þekkingu innan samtakanna,“ segir Auður Birna. „Við sjáum þetta fyrir okkur sem stuðningsnet, þar sem við getum fengið dómgreind að láni hver frá annarri. Einkunnarorð samtakanna eru 'Þar sem vængir og vinátta mætast'. Flugsystur eru samtök á landsvísu, en hjartað verður á Akureyri. „Á opnunarkvöldinu ætlum við að vígja vefsíðuna okkar, en þar verða allskonar upplýsingar, þannig að það skiptir ekkert öllu hvar fólk er staðsett,“ segir Auður Birna.
Allar spurningar og vangaveltur varðandi áskoranir okkar í karllægri stétt eiga erindi til Flugsystra
Helga og Auður Birna byrjuðu á því að sýna blaðamanni áhrifamikið myndband um frumkvöðulinn Ernu Hjaltalín sem var fyrst kvenna til þess að ná atvinnuréttindum sem flugmaður, en hún lærði einmitt hjá Flugskóla Akureyrar. Það er ekki ýkja langt síðan, en það var árið 1952 sem hún fékk prófið. Allir samnemendur hennar fengu stöðu hjá Loftleiðum sem flugmenn, nema hún, eingöngu vegna þess að hún var kona. Hún gerðist flugfreyja og starfaði sem slík í aðalvinnu, en flaug mikið meðfram því. „Hún Erna ruddi mikla braut, hún er ómetanleg fyrirmynd og við eigum henni margt að þakka,“ segir Helga. „Við erum mjög heppin hér. Öll fyrirtækin sem tengjast Akureyrarflugvelli eru mjög opin og hvetja okkur til þess að vera sýnilegar. En það er margt annað sem gleymist.“
Þátturinn sem Auður og Helga sýndu blaðamanni. 36. þáttur af örþáttunum 'Öldin hennar', sem voru sýndir á RÚV árið 2015, hér er fjallað um Ernu Hjaltalín. Smellið á myndina til að horfa á þáttinn.
Áskoranir eru af ýmsu tagi í karllægri stétt
„Sem dæmi, þá eru margir búningar í karlasniði,“ segir Auður Birna. „Við fáum oft karlabúning, en höfum verið að deila ráðum okkar á milli. Til dæmis gat einhver bent á saumakonu sem var gott að fara til, til þess að laga búninginn. Á meðan staðan er svona, getum við þá allavega aðstoðað hver aðra og deilt góðum ráðum. Allar spurningar og vangaveltur varðandi áskoranir okkar í karllægri stétt eiga erindi til Flugsystra.“
„Við erum ennþá að ryðja brautina,“ segir Helga. „Það eru ekki bara buxurnar. Það er líka allt sem fylgir því að vera kona, líffræðilega. Þegar þú verður ófrísk, þegar það kemur upp, þá missir þú heilbrigðisvottorð tímabundið á meðan á því stendur, og svo tekur fæðingarorlofið við. Það er ýmislegt varðandi tíðahringinn, meðgöngu, fæðingarorlof og jafnvel breytingaskeiðið sem rætt er um og geta valdið okkur óþægindum í starfi.“
Helga og Auður Birna eiga báðar þrjú börn, en þær segja báðar að börnin hafi gaman af því að mamma sé flugmaður. T.v. Dætur Auðar Birnu prófa flughermi. T.h. Helga með syni sínum. Myndir: aðsendar.
Konur frekar spurðar út í fjölskylduaðstæður
„Það getur haft áhrif, á konu sem langar að verða flugmaður, ef hún á eftir að eignast börn,“ segir Helga. „Ég varð sjálf ekki flugmaður fyrr en eftir að ég eignaðist mín börn, þannig að ég þekki það ekki af eigin raun. Ég veit að konur hafa verið spurðar út í fjölskylduhagi og hvort þær ætli sér að eignast börn, í atvinnuviðtölum til dæmis.“ Auður Birna segist hafa verið spurð að því, hvort hún væri gift. „Ég játti því, og fékk þá til baka að það yrði nú ekki lengi. Allir endi á að skilja, ef móðir ákveður að verða flugmaður.“
Ég var einstæð móðir þegar ég fór í námið og fékk að heyra einhverjar efasemdarraddir. Kennarinn spurði mig hvernig ég ætlaði að fara að þessu.
Auður Birna og Helga eiga báðar þrjú börn. „Ég hef reyndar oft verið spurð um fjölskylduaðstæður,“ segir Helga. „Ekki hjá atvinnurekanda, heldur í tengslum við námið fyrir sunnan. Ég var einstæð móðir þegar ég fór í námið og fékk að heyra einhverjar efasemdarraddir. Kennarinn spurði mig hvernig ég ætlaði að fara að þessu. Það var náttúrulega svolítil brekka, en ég hafði alveg bein í nefinu til þess að spyrja hann bara til baka, hvort hann spyrði líka karlmennina að þessu.“ Auður Birna minnist þess þegar hún bjó úti á Spáni, þegar fluglæknir gerði ráð fyrir því að hún væri flugfreyja, en Helga hefur líka lent í þeim ruglingi. „Hann skammaðist sín samt og þetta var algjört hugsunarleysi. En þetta getur skeð.“
„Foreldrar mínir eru af gamla skólanum,“ segir Helga. „Þegar ég sagði þeim að ég ætlaði í flugnám, trúðu þau mér ekki. Ég var í mat hjá þeim þegar ég sagðist þurfa að drífa mig, til þess að mæta í skólann. Ha? Þú ert ekkert að fara í flugnám. Þau bara keyptu þetta ekki, en þegar þau voru búin að átta sig á því að ég ætlaði mér þetta, þá voru þau mjög stuðningsrík. Þau þurftu smá aðlögun, þetta var hræðsla líka, þau þekktu þetta ekki og fannst erfið tilhugsun að barnið þeirra færi að fljúga flugvélum.“ Auður Birna tekur undir þetta, og segir að það sé einmitt oft þekkingarleysi sem býr til fordóma.
Það gefur mér svo mikið, að sjá dóttur mína efast ekki neitt um þessa leið í lífinu
Innri fordómar kvenna oft erfiðir viðureignar
„Ég kem ekki heldur úr fjölskyldu sem var í flugi, en hafði mikla þörf fyrir að ferðast og sjá heiminn,“ segir Auður Birna. „Ég var orðin þriggja barna móðir á Akureyri og draumurinn um flug kitlaði ennþá, þegar ég sá auglýsingu um að koma í kynnisflug hjá Flugskólanum. Ég var komin í lögfræðinám í HA, en ég ákvað samt að prófa eitt flug, þannig að ég gæti bara lagt þennan draum frá mér í eitt skipti fyrir allt. Ég flaug yfir bæinn, yfir háskólann, hringdi svo inn næsta dag og hætti í náminu. Flutti mig alveg yfir í flugið og er hér enn.“
„Ég var sjálf með fordóma fyrir því, að ég gæti ekki verið ábyrg móðir og flugmaður á sama tíma,“ segir Auður Birna. „Ég hef fullan skilning á því þegar fólk efast um þetta, vegna þess að ég gerði það sjálf. Við tvær hérna, eigum báðar þrjú börn. Ég á tvær dætur, önnur þeirra vill verða flugmaður eins og mamma og hin vill verða geimfari. Þær eru með stjörnur í augunum yfir fluginu og yngsta mín, 9 ára, getur ekki beðið eftir að fá að byrja að læra. Það gefur mér svo mikið, að sjá dóttur mína efast ekki neitt um þessa leið í lífinu.“
9 ára dóttir Auðar Birnu ætlar sér að verða flugmaður og lítur mikið upp til mömmu. Myndir: aðsendar
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við flugsysturnar Auði Birnu og Helgu. Seinni hlutinn birtist á Akureyri.net á morgun.
- Á MORGUN – FLUGSYSTUR: „ERUM MEÐ HÁFLEYG MARKMIГ