Fara í efni
Íþróttir

Enginn leikjaskóli hjá Þórsurum í sumar

Hamar, félagsheimili Þórs. Myndin er af vef félagsins.

Íþróttafélagið Þór hefur tilkynnt bæjaryfirvöldum að félagið muni ekki bjóða upp á íþrótta- og tómstundaskóla, eða leikjaskóla eins og hann er yfirleitt kallaður, í sumar. Þetta kemur fram í frétt á vef félagsins og er þar vitnað í Reimar Helgason framkvæmdastjóra sem segir ástæður þessarar ákvörðunar vera fyrst og fremst faglegar.

Reimar hefur fyrir hönd félagsins sent bréf til Ellerts Arnar Erlingssonar, forstöðumanns íþróttamála, þar sem þetta er tilkynnt. Þar er að því er fram kemur í fréttinni á heimasíðu Þórs vísað til þess að út frá faglegum sjónarmiðum þar sem mönnun skólans sé ekki viðunandi og ekki í samræmi við kröfur og þarfir. Þar er einkum vísað til þess að í hópi þeirra sem sækja námskeið í skólanum hafi einstaklingum sem þurfa á sérstakri þjónustu og liðsinni að halda vegna greininga og hegðunarerfiðleika af ýmsum toga. Mönnun skólans eins og hún hefur verið sé ekki í samræmi við þær þarfir sem samsetning hópsins kalli á. Um sé að ræða hóp af börnum sem þurfi og fái stuðning og liðsinni í grunnskólunum, en sá stuðningur sé ekki til staðar þegar komið er í leikjaskólann. Það hafi leitt til þess að utanumhald hafi orðið erfiðara, atvikum þar sem hegðunarvandamál komi við sögu hafi fjölgað og það hafi bitnað bæði á öðrum krökkum og starfsfólki skólans.

Þá kemur einnig fram í fréttinni að tvívegis hafi átt sér stað viðræður við velferðarsvið Akureyrarbæjar um að fá inn í leikjaskólann fagfólk til að liðsinna þeim krökkum sem á þurfa að halda af áðurnefndum ástæðum. Það hafi ekki gengið eftir þó vel hafi verið tekið í það.

Tilraunir forsvarsmanna Þórs til að fá inn í skólann nemendur sem eru í kennaranámi við Háskólann á Akureyri hafa ekki borið árangur og mjög lítil ásókn er í að starfa við leikjaskólann, auk þess sem almennt hafi mjög fáir vinnuskólakrakkar sótt um að komast í vinnu á Þórssvæðinu í sumar. 

Þórsarar lýsa sig hins vegar reiðubúna til að koma aftur að slíku starfi ef leikjaskólahugmyndin verði hugsuð upp á nýtt og bærinn geri meiri kröfur um fagþekkingu og reynslu þeirra sem við slíka skóla starfa. Reimar tekur fram í bréfinu að hagnaður hafi verið af leikjaskóla Þórs á undanförnum árun, en það sem þörf sé á núna sé fagþekking til að geta boðið krökkum sem koma til félagsins upp á öryggi, gleði og þroskandi umhverfi.