Endómetríósa ekki bara í hausnum á konum

Mars er alþjóðlegur mánuður tileinkaður vitundarvakningu um endómetríósu. Á Akureyri ætla konur með endómetríósu, sem og aðrir sem láta sig málefnið varða, að safnast saman á Vamos , þriðjudagskvöldið 11. mars og horfa saman á heimilda- og fræðslumyndina Tölum um ENDÓ - ekki bara slæmir túrverkir sem Endósamtökin létu gera fyrir ári síðan í samstarfi Silfra Production. Myndin fjallar um reynslu átta íslenskra kvenna af endómetríósu og segir myndin frá líkamlegum, tilfinningalegum og félagslegum áskorunum sem þær standa frammi fyrir vegna þessa flókna og óvægna sjúkdóms.
Ákall um styttri greiningartíma og fleira
Í tilefni af Endómars hrintu Endósamtökin af stað herferðinni „Þetta er allt í hausnum á þér”. Herferðin varpar ljósi á hindranir og fordóma sem konur og einstaklingar sem fæðast með innri kvenlíffæri mæta innan heilbrigðiskerfisins. Endósamtökin skora á alla að sýna stuðning í verki með því að skrifa undir ákallið, sem verður afhent heilbrigðisráðherra að loknum Endómars.