Fara í efni
Fréttir

Endómetríósa ekki bara í hausnum á konum

Endómetríósa er krónískur bólgu- og verkjasjúkdómur sem hefur áhrif á milljónir kvenna um allan heim.Sjúkdómurinn orsakast af því að vefur svipaður slímhúðinni inni í leginu byrjar að vaxa utan við legið, til dæmis á eggjastokkum, eggjaleiðurum, kviðarholi, þörmum eða þvagblöðru.

Mars er alþjóðlegur mánuður tileinkaður vitundarvakningu um endómetríósu.  Á Akureyri ætla konur með endómetríósu, sem og aðrir sem láta sig málefnið varða, að safnast saman á Vamos , þriðjudagskvöldið 11. mars og horfa saman á heimilda- og fræðslumyndina Tölum um ENDÓ - ekki bara slæmir túrverkir sem Endósamtökin létu gera fyrir ári síðan í samstarfi  Silfra Production. Myndin fjallar um reynslu átta íslenskra kvenna af endómetríósu og segir myndin frá líkamlegum, tilfinningalegum og félagslegum áskorunum sem þær standa frammi fyrir vegna þessa flókna og óvægna sjúkdóms.

Myndin verður sýnd á RÚV  á þriðjudagskvöldið og að því tilefni bjóða samtökin í áhorfspartý á Vamos við Ráðhústorg en sambærilegt áhorfspartý verður einnig haldið í Reykjavík. Á Vamos verður frír bjór í boði frá kl. 19:30, á meðan birgðir endast, en sýning myndarinnar hefst kl. 20.05. Allir eru velkomnir á viðburðinn og kostar ekkert inn. 

 

Ákall um styttri greiningartíma og fleira

Í tilefni af Endómars hrintu Endósamtökin af stað herferðinni „Þetta er allt í hausnum á þér”. Herferðin varpar ljósi á hindranir og fordóma sem konur og einstaklingar sem fæðast með innri kvenlíffæri mæta innan heilbrigðiskerfisins. Endósamtökin skora á alla að sýna stuðning í verki með því að skrifa undir ákallið, sem verður afhent heilbrigðisráðherra að loknum Endómars.

Í ákallinu krefjast samtökin þess að:
 
1. Heilbrigðisstarfsfólk hlusti á konur og fólk með endó, trúi þeim og taki reynslu þeirra alvarlega.
2. Stjórnvöld setji aukið fjármagn í úrræði fyrir fólk með endó.
3. Greiningartími sjúkdómsins verði styttur og kerfið grípi inn fyrr.
Hægt er að skrifa undir á síðunni www.sofnun.endo.is