Fara í efni
Fréttir

Elsta leikskólahús í bænum rifið – MYNDIR

Elsta leikskólahús bæjarins horfið af yfirborði jarðar. Gamla Pálmholt stóð efst á lóðinni við Þingvallastræti, við hlið litla gula hússins sem tekið var í notkun 2003 og var upphaflega kennslustofa en síðar vinnuastaða fyrir kennara. Mynd: Þorgeir Baldursson

Elsta leikskólabygging á Akureyri, Pálmholt efst við Þingvallastræti, er horfin af yfirborði jarðar. Starfsemi var hætt í húsinu árið 2021 þegar Pálmholt og Lundarsel sameinuðust og var húsinu lokað í kjölfarið vegna skemmda. Síðar var ákveðið að rífa húsið og lauk því verki í síðasta mánuði.

Mynd: Þorgeir Baldursson

Pálmholt var vígt þann 11. júní árið 1950. Kvenfélagið Hlíf stóð að byggingu þess og rak þar sumardvalarheimili til ársins 1971. Nafnið var ákveðið af Gunnhildi Ryle sem gaf land undir reksturinn með því skilyrði að húsið yrði nefnt Pálmholt eftir æskuheimili hennar.

Árið 1971 gaf Kvenfélagið Hlíf Akureyrarbæ Pálmholt og bærinn tók alfarið við rekstri þess. Þar með hófst rekstur fyrsta dagheimilisins á Akureyri.

Pálmholt í fyrrasumar. Hluti gula hússins lengst til vinstri á myndinni var byggður árið 1950 og var elsta leikskólahús bæjarins. Mynd: Þorgeir Baldursson


Mynd: Minjasafnið á Akureyri/Gísli Ólafsson

Pálmholt var tekið í notkun 1950 sem fyrr segir, árið 1954 var byggt við húsið og sal bætt við svo að börnin gætu leikið sér undir þaki þegar illa viðraði. Síðasta áfanga hússins var bætt við 1958 og eftir það var pláss fyrir 100 börn á Pálmholti. Börnum var safnað í rútu víðsvegar um bæinn um 9 leytið á morgnana, þau keyrð í Pálmholt og svo skilað aftur um 6 leytið.

Pálmholt baðað geislum sólar snemma í nóvember. Mynd: Hörður Geirsson

Unnið að niðurrifi gamla Pálmholts 9. nóvember síðastliðinn.

Árið 1985 var byggður annar leikskóli á sömu lóð og Pálmholt. Sá fékk nafnið Flúðir. Leikskólarnir tveir voru sameinaðir árið 2012 undir nafni Pálmholts og húsin nefnd efra Pálmholt og neðra Pálmholt en árið 2021, þegar Pálmholt og Lundarsel sameinuðust, var efra húsinu lokað eins og fram kom í upphafi.

Pálmholt er starfrækt í dag, í neðra húsinu, sem hluti sameinaðs leikskóla, Lundarsels - Pálmholts.

Í þessu sambandi má rifja upp að Kvenfélagið Hlíf, sem stofnaði Pálmholt og rak sem sumardvalarheimili til 1971, var lagt niður fyrr á þessu ári:

Kvenfélagið Hlíf lagt niður – stofnað 1907