Ekki grundvöllur fyrir tveimur Vínbúðum

Ekki er fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að reka tvær Vínbúðir á Akureyri, að mati Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, ÁTVR. Þetta kemur fram í svari frá fyrirtækinu við fyrirspurn Akureyri.net.
Vínbúðinni við Hólabraut í miðbæ Akureyrar verður lokað þegar ný verslun ÁTVR verður opnuð í verslunarkjarnanum Norðurtorgi nyrst í bænum, væntanlega snemma í næsta mánuði. Frétt Akureyri.net þess efnis fyrir rúmri viku vakti mikla athygli og margir lesendur hafa í framhaldinu lýst furðu sinni á því að ekki verði áfram áfengisverslun miðsvæðis í sveitarfélaginu.
Spurt var um ástæðu þess að Vínbúðinni í miðbænum verði lokað og hver væri rökstuðningurinn væri fyrir því að ein búð verði á Akureyri og á þeim stað sem raun beri vitni. Í skriflegu svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur aðstoðarforstjóra sagði:
„ÁTVR auglýsti eftir húsnæði fyrir nýja Vínbúð í sept. 2022. Meðal krafna var að húsnæðið væri á skilgreindu miðsvæði eða verslunar og þjónustusvæði. Norðurtorg uppfyllti skilyrði útboðsins og voru með hagstæðasta tilboðið.“
Sigrún Ósk segir einnig: „Því miður er ekki fjárhagslegur grundvöllur fyrir rekstri tveggja Vínbúða á Akureyri eins og staðan er í dag.“