Fara í efni
Fréttir

Ekkert fé fylgdi ákvörðun ráðherra

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), segir mikinn skilning þar á bæ á mikilvægi þjónustu við fólk sem glímir við ME sjúkdóminn. Ekkert fjármagn hafi hins vegar fylgt þeirri ákvörðun ráðherra á síðasta ári að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmistöð á Akureyri um sjúkdóminn.

Í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun skoruðu hjónin Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson á stjórnendur Sjúkrahússins á Akureyri að hrinda í framkvæmd ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem tilkynnt var fyrir tæpu ári, um að koma á fót slíkri miðstöð. „Þörfin er hrópandi,“  segja þau í greininni.

Miðstöðin, sem ráðherra fól SAk og Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) að koma á mót, og gekk undir vinnuheitinu Akureyrarklíníkin, átti að vera samhæfandi aðili um þjónustu við ME-sjúklinga á landsvísu, auk þess að vinna að skráningu sjúkdómsins og stuðla að rannsóknum.

Mikill skilningur en ekkert fjármagn

„Stjórnendur SAk tóku þeirri áskorun í samvinnu við HSN að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME sjúkdóminn á Akureyri. Mikill skilningur ríkir hjá stjórnendum SAk hvað varðar alvarleika málsins og mikilvægi slíkrar þjónustu,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir við Akureyri.net.

„Hinsvegar hefur því miður ekkert fjármagn fylgt þessari ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins og heilbrigðisráðherra. Stjórnendur SAk hafa því sótt sérstaklega eftir fjármagninu til þess að hefja starfsemina hægt og rólega en einnig hefur verið sótt um fjármagn í næstu fjármálaáætlun til að tryggja þjónustuna sem gengur undir nafninu Akureyrarklínikin.“

Hildigunnur segir að þrátt fyrir fjárskort hafi vinnuhópur starfsmanna úr röðum HSN og SAk tekið á móti stórum hópi sjúklinga. „Brýn þörf er því á að fjármagn fylgi ákvörðuninni til að geta opnað miðstöðina formlega sem allra fyrst svo að þjónustan geti þróast áfram.“

Freyja og Pétur Þór nefndu einmitt í greininni að þau hefðu á undanförnum vikum fengið að kynnast „frábæru starfi svokallaðs ME-teymis sem nýlega tók til starfa.“ Starfið sé mjög gott en geri þurfi enn betur og forstjóri SAk er greinilega á sama máli.

Frétt Akureyri.net í morgun:

Hvar er miðstöðin í þágu ME-sjúklinga?