Fara í efni
Fréttir

Ekkert barn fremur ofbeldisverk í tómarúmi

Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur í framhaldi af umræðum á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag um geðheilbrigðismál ungmenna, vísað viðfangsefninu til frekari umræðu í fræðslu- og lýðheilsuráði annars vegar og velferðarráði hins vegar. Jafnframt verður sviðsstjórum fræðslu- og lýðheilsusviðs og velferðarsviðs falið að halda utan um og stýra þvegfaglegri vinnu við þær aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og vopnaburði meðal ungs fólks sem snúa að sveitarfélögunum.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, B-lista, var málshefjandi í umræðunni á fundi bæjarstjórnar. Hún lagði meðal annars áherslu á að vanda þyrfti umræðuna um ofbeldi meðal ungs fólks því það sé ekki þannig að öll börn séu farin að ganga með vopn á sér, þó vissulega séu til dæmi um það, einnig í okkar samfélagi. Ekki megi gleyma því sem gott er. 

Sunna Hlín Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar, var málshefjandi í umræðunni á fundi bæjarstjórnar.

Mikilvægt að vanda umræðuna

„Ég tel afar mikilvægt að við sem kjörnir fulltrúar tökum umræðuna um hvert hlutverk okkar er í þessu átaki. Er það mögulega okkar hlutverk að leiða samtalið í okkar nærsamfélagi, fá heimilin í lið með okkur, skólana, foreldrafélögin og hverfin. En að taka utan um þessi mál er langhlaup. Það eru engar skammtímalausnir, en fyrst og fremst þurfum við forvarnir og grípa þau börn sem standa höllum fæti sem fyrst. Snemmtæk íhlutun skiptir mestu máli hér og að við greinum nú þau verkfæri sem sveitarfélagið býr yfir. Við vitum vel að ekkert barn fremur ofbeldisverk í tómarúmi. Það eru einhverjar ástæður að baki þess að þeim líður ekki nægilega vel.“

Skuggalegar tölur í æskulýðsrannsókninni

Sunna Hlín sagði fyrsta skrefið vera að taka stöðuna og ræða málin opinskátt án þess að tala um einstök mál. Hún nefndi atriði eins og hvort unglingadrykkja væri að aukast aftur, hvort mikil fíkniefnaneysla væri í samfélaginu, hvort skólaforðun væri að aukast, vopnaburð í skólum og síðast en ekki síst af hverju börnunum okkar líður ekki nægilega vel eins og sést hafi í nýlegum könnunum, þar sem sjáist skuggalegar tölur.

Hún benti á að niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar væru reglulega kynntar og gefi góðar vísbendingar um stöðuna. „Þegar hættumerkin birtast verðum við að bregðast við með viðurkenndum aðgerðum og kynna niðurstöðurnar vel fyrir heimilunum líka,“ sagði Sunna Hlín einnig.

Umræðan of lítil á kjörtímabilinu

Sunna Hlín sagði meðal annars að Akureyrarbær væri að gera margt mjög jákvætt í málefnum barna, til að mynda með innleiðingu farsældarlaga og nú nýlega opnað greiningar- og þjálfunarheimili fyrir börn og ungmenni í neyð, ásamt fleiri verkefnum. „Umræða um þessi mál hefur bara verið alltof lítil á þessu kjörtímabili og fær lítið pláss í starfsáætlunum. Mögulega hefur þessi málaflokkur týnst í stóru fræðslu- og lýðheilsuráði,“ sagði hún meðal annars. 

Margt vel gert, en getum betur

Rauði þráðurinn í því sem fram kom var að umræðan væri mikilvæg og hana þyrfti að vanda, þessi umræða þyrfti að vera oftar á dagskrá hjá þeim sem hafa með þessi mál að gera, hægt væri að gera betur á ýmsum sviðum og þetta verkefni, geðheilbrigðismál ungmenna og vinna við að sporna gegn auknu ofbeldi, væri verkefni samfélagsins alls. Þar þyrftu verkin einnig að tala, margt væri nú þegar mjög vel gert, en hægt að gera betur.

Bæjarfulltrúarnir Lára Halldóra Eiríksdóttir (D), Hilda Jana Gísladóttir (S), Hulda Elma Eysteinsdóttir (L), Jón Hjaltason (óháður) og Heimir Örn Árnason (D) tóku þátt í umræðunni.

Upptöku af umræðum undir þessum lið á fundi bæjarstjórnar má sjá í spilaranum hér að neðan: