Fara í efni
Mannlíf

Eitt best geymda leyndarmál í bænum

Mágkonurnar Hanne og Fjóla í verslun sinni My Little Showroom. Sumir kalla verslunina dönsku búðina þar sem Hanne er dönsk og þar eru eingöngu seld dönsk fatamerki.

Ein forvitnislegasta verslun Akureyrar var lengi vel My Little Showroom. Skilti sem dúkkaði upp með þessu dularfulla nafni í portinu hjá Centrum kitchen & bar fyrir þremur árum síðan gaf ekki miklar upplýsingar og vísaði aðeins upp stigagang. Nú er verslunin löngu flutt á annan stað í miðbænum og er alls ekki jafn dularfull og hún reyndist í fyrstu.

Við höfum ekki eytt einni einustu krónu í auglýsingar, þetta hefur bara frést kvenna á milli, segir Hanne Jacqueline Tarnow, sem rekur My Little Showroom, ásamt mágkonu sinni, Fjólu Tarnow. Þær stöllur viðurkenna að fólk hafi í byrjun komið mjög hikandi upp stigann á gamla staðnum enda ekki vitað hvers var að vænta. Í upphafi átti þetta ekki beint að verða verslun heldur meira svona sýningarrými – showroom – þar sem mágkona mín ætlaði að aðstoða konur með fataval og stíl, en einnig vera með einhverjar örfáar flíkur til sölu, þess vegna varð þetta nafn fyrir valinu, útskýrir Fjóla. Fjóla og eiginmaður hennar Carsten reka Strikið, Centrum kitchen & bar og Centrum hótel, og opnuðu þær mágkonur My little showroom á skrifstofunni þeirra. Við færðum skrifstofuna aðeins til að fá pláss fyrir verslunina. En móttökurnar voru svo góðar að við vorum fljótt búnar að teygja okkur út á gang, rifjar Fjóla upp.

Í versluninni er eingöngu að finna dönsk fatamerki. Til dæmis Lollys Laundry, Basic Apparel, Royal Vintage, Second Female, A moi og fleiri. Jakkinn til vinstri er frá Lollys Laundry en sá til hægri frá Rabens Saloner. 

Danska búðin gælunafn

Ári seinna flutti My Little Showroom svo á sinn núverandi stað að Skipagötu 6 (við hliðina á Ljósmyndastofu Páls), og þó ekki væri lengur um lítið showroom að ræða héldu þær stöllur nafninu á versluninni, sem á sér reyndar líka gælunafn. Já sumir kalla okkur dönsku búðina, segir Hanne. Ástæðan er sú að verslunin selur eingöngu dönsk fatamerki og þá er Hanne, sem er potturinn og pannan í afgreiðslunni, dönsk. Þegar við opnuðum þá kunni ég ekki eitt orð í íslensku,segir Hanne sem hefur unnið í tískubransanum alla sína tíð. Í Danmörku starfaði hún sem stílisti og kom að ýmsum verkefnum, m.a. fyrir sjónvarpsstöðina TV2. Þá rak hún lengi vel sína eigin tískuvöruverslun í Óðinsvéum. Þegar bróðir Hanne, Carsten, varð ástfanginn af hinni akureyrsku Fjólu og flutti til Akureyrar fyrir 11 árum síðan langaði Hanne að búa nær þeim. Það varð því úr að hún flutti líka til Íslands árið 2022 og þar sem útlit og tíska er hennar ástríða lá beinast við að skapa sér starfsvettvang á því sviði á Akureyri og þannig varð My Little Showroom til.

Fjóla í fatnaði úr My Little Showroom. Verslunin er þekkt fyrir að bjóða upp á aðeins öðruvísi föt en það er fyrir utan þægindarammann sem töfrarnir gerast að sögn Hanne. 

Töfrarnir gerast utan þægindarammans

Í versluninni erum við með góða blöndu af flottum kvenmannsfötum frá dönskum tískumerkjum sem við handveljum sjálfar inn. Við pössum okkur á því að eiga alltaf föt fyrir allar líkamsgerðir. Við reynum að vera með fatnað fyrir öll tilefni, bæði hversdagsföt og veislufatnað. Við veljum líka oft inn öðruvísi og sérstaka hluti og erum orðnar þekktar fyrir það, segir Hanne. Aðspurðar hvernig þær hafi þorað að bjóða upp á svona litrík og flippuð föt á Akureyri þar sem fáir skeri sig úr í fatavali segir Fjóla að ótrúlegt en satt þá hafi það gengið mjög vel. Ég var á bremsunni í byrjun, ég sagði oft við Hanne þegar við vorum að kaupa inn vörur að þetta eða hitt væri of litríkt því konurnar hér gengu bara í svörtu,rifjar Fjóla upp. En þá sagði Hanne bara: Ég nenni ekki að horfa lengur upp á það. Þessar konur þurfa að fá eitthvað annað. Og hún hafði rétt fyrir sér, konurnar voru þvílíkt að fíla þetta. Þær komu hlaupandi upp tröppurnar.

Frá því við byrjuðum fyrir þremur árum hafa viðskiptavinirnir líka vaxið með okkur. Konurnar hafa lært að stóla á okkur. Og þegar þær stóla á mig þá vita þær að ég segi ekki neitt sem ég er ekki að meina, en ég segi líka við þær að þær megi alveg ögra sér aðeins. Því það er fyrir utan þægindarammann sem töfrarnir gerast, segir Hanne.

Persónuleg stílistaleiðsögn í boði

Mágkonurnar hafa annars gjörólíkan stíl, sem gerir þær að góðu teymi. Hanne er með bóhemískan og mun flippaðri stíl en Fjóla sem aðhyllist meiri klassík og kvenleika. Þegar Hanne vill kaupa inn eitthvað mjög flippað þá segi ég við hana að hún verði þá að ná að selja flíkina, sem hún gerir svo alltaf, segir Fjóla og bætir við að Hanne sé frábær sölukonu. Tískuvitund er henni í blóð borin og hún veit því hvað hún syngur á því sviði. Við viljum hjálpa konum til þess að byggja upp þeirra fataskáp og viljum ekki selja þeim neinar skyndilausnir, segir Hanne og bætir við að hún bjóði konum einnig upp á persónulega stílistaleiðsögn og aðstoð utan hefðbundins opnunartíma. Þetta hefur t.d. verið vinsælt hjá minni vinkvennahópum og kostar ekkert aukalega.

Mér finnst vera mikið af konum hérna á Akureyri með flottan stíl. Þessar konur eru á kafi í atvinnulífinu, eru mikið á fundum og á ferðalögum og vilja koma vel fyrir. Margar konur hér í bænum eru mjög opnar og forvitnar og til í að prófa eitthvað nýtt.

Hanne og Fjóla hafa ólíkan stíl sem gerir þær að góðu teymi.  Hanne er með bóhemískan og mun flippaðri stíl en Fjóla sem aðhyllist meiri klassík og kvenleika.

Konur með flottan stíl

Talið berst að klæðaburði akureyrskra kvenna yfirhöfuð og segir Fjóla að hann hafi breyst mikið síðan hún flutti til Akureyrar árið 2011. Mér finnst vera mikið af konum hérna á Akureyri með flottan stíl. Þessar konur eru á kafi í atvinnulífinu, eru mikið á fundum og á ferðalögum og vilja koma vel fyrir. Margar konur hér í bænum eru mjög opnar og forvitnar og til í að prófa eitthvað nýtt,“ segir Hanne. Þá segjast þær eiga marga viðskiptavini í Reykjavík og víðar af landinu sem finnst gaman að koma inn í verslun eins og þeirra sem er ekki hluti af stærri keðju. Við erum oft spurðar hvort við ætlum ekki líka að opna á höfuðborgarsvæðinu en við höfum engan áhuga á því, þetta er akkúrat eins og við viljum hafa það, segir Fjóla en rétt er að geta þess að My little showroom er líka með vefverslun.

Dýraprent hefur verið vinsælt undanfarið og verður áfram. Þá er íþróttalegur fatnaður úr fínni efnum líka inn eins og buxurnar til hægri sem eru frá Co' Couture. Buxurnar með hlébarðamynstrinu eru frá Rabens Saloner. 

Bermúdastuttbuxur, vesti og dýraprent

Áður en mágkonurnar eru kvaddar er ekki úr vegi að spyrja þær aðeins út í tísku líðandi stundar og hvað sé væntanlegt í tískuheiminum. Bæði gallaefni og dýramynstur verða áfram áberandi. Hlébarðamynstrið hefur verið mjög vinsælt undanfarið en það eru fleiri dýramynstur að koma, bæði zebramynstur og snákaprent, segir Fjóla og Hanne bætir við að hlébarðamynstrið sé reyndar orðið klassískt. Sé hlébarðamynstrið á góðri flík í góðum efnum getur flíkin nýst ævilangt. Hins vegar klæðir hlébarðamynstrið ekki alla. Maður á að vera maður sjálfur en það er allt í lagi að færa sig aðeins úr stað en konur finna fljótt hvort þetta mynstur hentar þeim, segir Hanne. Þá segja þær að íþróttalegur fatnaður í fallegum efnum sé nokkuð sem sé nýtt og nefna dæmi eins og pólóboli með blúndum, eða æfingabuxur með sportrönd en samt úr sparilegum efnum. Þá eru bermúdastuttbuxur að koma aftur og eins alls konar vesti. Vínrauður er áberandi en verður rauðari með haustinu. Þá sjást einnig bleikir litir og fallega bláir tónar ásamt neon, í því sem væntanlegt er með vorinu.

  • Á MORGUN„GÓÐUR GRUNNUR ER LÍMIÐ Í FATASTÍLNUM“