Fara í efni
Menning

Einstök Íslandskort 1535-1849 til sýnis

Eitt kortanna í Schulte-safninu, eftir Giovanni Francesco Camocio, 1574.

Sendiherra Þýskalands, Clarissa Duvigneau, opnar sýninguna Einstök Íslandskort 1535-1849 – Schulte landakortin á Minjasafninu á Akureyri í dag, fimmtudaginn 6. júní, kl. 17. Þangað eru öll velkomin.

Liðin eru 10 ár síðan þýsk hjón, dr. Karl-Werner Schulte og dr. Gisela Schulte-Daxbök, færðu Akureyringum fyrstu kortin að gjöf, 76 að tölu. Síðan hafa þau bættu miklu við og í safninu eru nú alls 187 Íslandskort.

Á sýningunni gefur að líta 43 stór og smá Íslandskort helstu kortagerðarmanna Evrópu frá árunum 1535-1847. Elstu kortin sýna óljósar útlínur sem oft byggjast á vafasömum upplýsingum, jafnvel hreinum lygasögum og fölsunum. Þar má einnig sjá ævintýraeyjar og furðudýr.

Jafnvel eina eintakið!

Í tilkynningu frá safninu segir: „Þegar fram líða stundir verða útlínur landsins kunnuglegri með vaxandi þekkingu byggðri á vísindaleiðöngrum á vegum evrópskra konunga á norðlægar slóðir eða leit að siglingaleiðum til austurlanda.“

Fjöldi Íslandskorta hefur prýtt veggi heimilis Schulte-hjónanna í Þýskalandi í gegnum árin. Myndin er tekin þar.

„Kortin eru einstök og jafnvel ekki að finna í öðru eintaki í heiminum svo vitað sé. Stór hluti kortasafnsins sem telur 187 kort, er hvorki að finna í íslenskum né erlendum landakortasöfnum. Þá er þetta gullið tækifærið til að sjá slík kort því Minjasafnið á Akureyri er eini staðurinn þar sem árlega er hægt að skoða þessi fallegu og sögulegu kort,“ segir í tilkynningu Minjasafnsins.

Tóku ástfóstri við Akureyri 

Íslandskortin eru samofin ástarsögu gefendanna, þýsku hjónanna dr. Karl-Werner Schulte og dr. Giselu Schulte-Daxbök, sem tóku að safna Íslandskortum fljótlega eftir að ástin kviknaði milli þeirra á 7. áratugnum. Í fyrstu átti þetta að vera eitt kort til að skreyta heimilið og halda tengslum við Ísland og Akureyri þangað sem brúðkaupsferðalagið hafði leitt þau. Veggir heimilisins fylltust smátt og smátt af sögulegum landakortum af Íslandi. Árið 2014 gáfu Schulte hjónin íbúum Akureyrar kortin 76 sem prýddu heimilið en eftir fráfall Giselu hefur Karl-Werner aukið við safnið í hennar nafni. Á sýningunni gefur að líta úrvalskort úr safninu ásamt nýjustu kortunum 10 talsins sem Karl-Werner afhendir á fimmtudaginn, en þau eru jafnframt þau elstu í safninu frá 1535-1597.

Hönd Giselu heitinnar og eitt fyrstu kortanna sem hjónin gáfu Akureyrarbæ sumarið 2014.

Hinsta hvíla í Lögmannshlíð

Akureyri.net hefur reglulega fjallað um Schulte safnið og þau hjón á síðustu árum. Ekki er ofsagt að ofan að þau hafi tekið ástfóstri við Akureyri því hjónin tóku þá ákvörðun að hér yrðu þau lögð til hinstu hvílu. Gisela lést árið 2019, var jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði og eiginmannsins býður pláss henni við hlið.

Karl-Werner og synir hans tveir komu til Akureyrar þegar Gisela hefði orðið sjötug, í júlí árið 2022. Akureyri.net ræddi þá við Karl-Werner og Sven, son þeirra Giselu:

 

Höfðingleg gjöf! Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Dr. Karl-Werner Shulte, Gisela Shulte Daxboek og Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins þegar hjónin færðu Akureyrarbæ fyrsta hluta safnsins að gjöf fyrir 10 árum, föstudaginn 4. júlí árið 2014. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Í tilkynningu frá Minjasafninu er tekið fram að öll séu hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar í dag, frá kl. 17.00 til 19.00.
  • Dagskráin hefst á stuttum ávörpum sem Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, dr. Karl-Werner Schulte og Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands flytja.
  • Þýska sendiráðið býður upp á léttar veitingar og Karl-Werner Schulte býður upp á þýsk vín úr rómuðu heimahéraði hans.
  • Sýningin stendur yfir allt til 6. október.
  • Vert er að geta þess að næsta sunnudag, 9. júní, verður leiðsögn um sýninguna með Karl-Werner og Haraldi Þór safnstjóra. 


Eitt kortanna í Schulte-safninu, eftir Giovanni Francesco Camocio, 1574

Fjöldi Íslandskorta hefur prýtt veggi heimilis Schulte-hjónanna í Þýskalandi í gegnum árin. Myndin er tekin þar.