Einstakt andrúmsloft dregur fólk á krullumót
Tugir erlendra keppenda sækja akureyrskt krullufólk heim til að taka þátt í alþjóðlega krullumótinu Ice Cup sem krulludeild Skautafélags Akureyrar heldur í byrjun maí og hefur gert næstum árlega frá 2004. Blaðamaður Akureyri.net kíkti við á einn kvöldviðburðinn að lokinni keppni þann daginn, þegar fólk hittist til að gæða sér á hákarli, sviðum, hrossavöðva og harðfiski ásamt fleiri íslenskum krásum. Á meðal keppenda núna voru ísmaður á þrennum Ólympíuleikum og silfurverðlaunahafi á Heimsmeistaramóti.
Sérstök tengsl við danskan klúbb
Camilla Jensen er þekkt dönsk krullukona sem hefur spilað á hæsta getustigi um árabil. Hún hefur unnið til silfurverðlauna á Heimsmeistaramóti, en alltaf þurft að vinna fulla vinnu með því það er ekki mikið um peninga eða opinbera styrki í íþróttinni. Hún kemur frá dönskum vinaklúbbi krulludeildar SA, Tårnby Curling Club. Krullufólk á Akureyri hefur átt í góðu sambandi við þennan danska klúbb í yfir tvo áratugi. Fólk frá danska klúbbnum hefur komið á Ice Cup og krullufólk héðan oft farið á mót í Tårnby, sem er bær rétt við Kastrup-flugvöllinn.
„Ó, Tårnby á í sérstöku sambandi við krulluklúbbinn á Akureyri,“ segir Camilla þegar hún er spurð um þessi tengsl. „Þetta er eins og fjölskylda, stóri og litli bróðir og það hefur alltaf verið þannig. Krullufólk um allan heim er eins og ein stór fjölskylda, en við höfum alltaf átt í sérstöku sambandi við íslensku fjölskylduna okkar. Ef ég kem heim þá er það hingað.“
Opnunarhóf mótsins var haldið í Flugsafninu. Þar voru liðin kynnt til leiks og fengu að hitta fyrstu andstæðinga sína. Hér eru Garpar, þeir Árni Grétar Árnason, Kristján Bjarnason og Hallgrímur Valsson, en þeir verja allir miklum tíma og vinnu í að undirbúa svellið og annað í kringum mótið. Fyrir miðju er Camilla Jensen og danska liðinu Team Hyggelicious til hægri, Bo Legaard, Mark Callan og Karolina Jensen, systurdóttir Camillu. Mynd: Sigurjón Pétursson.
Silfur á HM og síðan til Akureyrar
Camilla er ekki að koma á Ice Cup í fyrsta skipti því árið 2007 komu hún og tvær aðrar úr danska landsliðinu til Akureyrar um það bil mánuði eftir að þær unnu til silfurverðlauna á HM. Þeim fannst gott að létta á pressunni og taka þátt í afslöppuðu skemmtimóti eftir strangar æfingar og keppni á HM og fleiri stórmótum. „Það var reyndar mjög ljúft því þegar þú ert á Heimsmeistaramóti ertu á hæsta stigi og undir þrýstingi, en síðan þegar við komum hingað þá var það mjög ljúft, afslappað og allir voru mjög vingjarnlegir og það var mjög gott fyrir sálina, bara að geta slakað á og spilað,“ segir Camilla.
Hún segir aðspurð að til að halda sér á hæsta stigi þurfi miklar æfingar, að minnsta kosti fimm sinnum í viku, auk styrktarþjálfunar og svo helst að keppa tvisvar til þrisvar í mánuði á sterkum mótum. Þetta gerði hún ásamt liðsfélögunum í mörg ár, alltaf með fullri vinnu því styrkir dugðu ekki til að gera krulluna að atvinnu að hluta eða öllu leyti. Það var því ekki um það að ræða að hætta í vinnu og stunda krulluna eingöngu. „Nei, við gátum það ekki því við fengum ekki styrki. Fyrir Ólympíuleikana 2010 fékk ég líklega sem nemur tíu prósent af laununum mínum svo ég gat tekið mér smá frí til að æfa meira. Ég hef alltaf unnið líka, þannig hefur það verið,“ segir Camilla Jensen.
Sharon Gallegos og Adam Kapp sópa svellið af krafti, en það er gert til að steinninn renni aðeins lengra ef á þarf að halda. Adam er í bol frá Bónus, en sagan segir að þegar hann kom hingað fyrst með félögum sínum hafi þau einfaldlega gengið inn í Bónus og beðið um að fá gefins boli til að nota sem liðsbúninga. Við því var orðið og núna, mörgum árum síðar, stunda nokkrir starfsmenn frá Bónus á Akureyri krulluna reglulega. Mynd: Sigurjón Pétursson.
Áttunda skiptið og orðstírinn berst
Hinn bandaríski Adam Kapp var að spila á Ice Cup í áttunda skipti og stýrði liði sínu til sigurs í þetta skipti og reyndar ekki í fyrsta skipti sem hann vinnur til verðlauna á mótinu. Adam er sá erlendi keppandi sem hefur komið næst oftast á mótið, á eftir Gwen Krailo sem við sögðum frá í annarri umfjöllun.
- Gefur 35 þúsund dali til byggingar krulluhallar | akureyri.net
- Ice Cup krullumótið: 70 erlendir keppendur | akureyri.net
Upphafið að fyrstu ferð Adams og vina hans hingað var löngun til að heimsækja Ísland og þegar hann og vinir hans komust að því að hér væri hægt að spila krullu og taka þátt í móti á Íslandi gerði það útslagið.
„Við komum alltaf aftur og við segjum öðrum gjarnan frá mótinu. Við höfum myndað góð tengsl hérna. Þetta hljómar kannski væmið, en þetta er eins og heimili að heiman þegar við komum hingað. Þetta er svo vel skipulagt og í hvert skipti sem við komum er eitthvað nýtt að gera og við skemmtum okkur mjög vel. Við segjum fólki sögur héðan og fólk áttar sig á að þetta hljómar mjög skemmtilegt og orðið berst áfram. Það er fólk hér frá Chicago, Seattle og fleiri stöðum. Það var örugglega talað um þetta áður en við komum, en við viljum halda að við höfum hjálpað við að kynna mótið,“ segir Adam.
Hann segir aðspurður að andrúmsloftið í kringum mótið sé sérstakt. „Já, algjörlega. Hér eru allir svo frábærir, allir eru svo vingjarnlegir, fólk býðst til að skutla þér ef þú þarft, leiðbeina þér eða hjálpa þér að finna það sem þú þarft. Það finnst öllum mjög gaman, mikil gestrisni og okkur finnst við eiga svo marga vini hérna, sem við fáum að hitta á hverju ári. Þetta er einstakt, fólk býður okkur heim til sín og kemur í heimsókn til okkar í Bandaríkjunum svo þetta er frábært samband,“ segir Adam Kapp, einn sigurvegara Ice Cup 2023.
...
Myndirnar með fréttinni eiga hjónin Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursson og fengum við góðfúslegt leyfi til að nota þær. Fleiri myndir þeirra er að finna í albúmi þeirra á google - smellið á myndina hér að neðan til að opna það.
Markus Fischer og Freddy Frost stinga saman nefjum. Mynd: Þóra Hrönn Njálsdóttir.