Fara í efni
Fréttir

Eigum við ekki bara að breyta þessu?

Skjáskot úr myndbandinu sem Halldór Kristinn birti á Facebook.

Hvernig vilt þú sjá miðbæinn á Akureyri?

Þannig spyr Halldór Kristinn Harðarson, veitingamaður á Vamos við Ráðhústorg, á myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðlum í gær.

Myndbandið er tekið upp fyrir utan Vamos á meðan hverri bifreiðinni á eftir annarri er ekið þar framhjá. Halldór viðrar einmitt þá hugmynd að loka svæðinu fyrir bílaumferð yfir sumarið í því skyni að auka mannlífið til muna.

„Hvað finnst ykkur? Núna er ég að gera mitt besta til að lífga aðeins upp á miðbæinn,“ segir Halldór og nefnir eitt og annað; hann hafi m.a. haldið Vamos Mini Fest, Vamos Versló Fest, heilgrillað svín og lamb fyrir utan, boðið upp á kakó og grillaðar möndlur á Þorláksmessu og fleira sé í bígerð.

Fólkið kemur dansandi

„Mér finnst stemningin niður á Ráðhústorgi helmingi betri þegar það er hægt að setja heilan helling af borðum og stólum, tónlist fyrir utan, ég setti körfuboltaspjald, cornhole og fótboltaspil út og eitthvað um að vera, og það stoppaði ekki notkunin á því. Um helgina hélt ég Vamos Mini Fest og gekk það frábærlega, en bærinn var líka lokaður.“

Hann nefnir að þetta sé fyrsta svæðið sem fólk af skemmtiferðaskipum sjái þegar það gangi í miðbæinn; „fallega torgið okkar, en oft er lítið um að vera á því, en þegar ég hef gert eitthvað þá koma farþeganir á skipinu dansandi inn í bæ og ánægjan er mikil hjá gestum sem sækja að.“

Þarf sjálfur að sækja um leyfi ...

Hann heldur áfram: Ég persónulega væri bara til í að taka það skref að loka fyrir umferð þarna, taka smá skref áfram og lífga aðeins upp á þetta. Það fara allir í fríinu sínu til Tenerife, Kaupmannahafnar, Dublin eða annarra borga, dásama menninguna þar og hvað það væri frábært ef þetta væri svona heima á Akureyri.

Bætir svo við: Er þá ekki kominn tími til að breyta þessu bara?

 „Ég er til í að leggja mitt af mörkum, en í hvert skipti sem ég geri eitthvað þá þarf ég sjálfur að láta loka miðbænum, sækja um hin og þessi leyfi og svo framvegis. Ætlum við endalaust að byggja íbúðir og hótel en lítið um að vera? Ég myndi ekki nenna að heimsækja þannig bæ ef ég væri gestur hér í bæ.“

Svo mörg voru þau orð. Fróðlegt verður að sjá hver viðbrögðin verða. Það er ekkert launungarmál að mörgum bæjarbúum þykir Ráðhústorg býsna kaldranalegt og óaðlaðandi ...