Fara í efni
Fréttir

„Ég vil ekki að þetta skilti fari aftur upp“

Hörður Rögnvaldsson, einn eigenda Hafnarstrætis 99 í miðbænum, kveðst hafa orðið mjög undrandi þegar hann las það í frétt á Akureyri.net fyrir nokkrum dögum að Amaro-skiltið yrði sett utan á húsið á nýjan leik á næstunni.

Skiltið var tekið niður fyrir þremur árum, í ágúst árið 2021, og Hörður segist ekki hafa heyrt orð um málið síðan. „Ég er stærsti einstaki eigandi hússins fyrir utan Ríkiseignir og það hefur ekkert verið talað við mig,“ segir Hörður við Akureyri.net

Umrætt skilti var áberandi utan á Amaro-húsinu svokallaða í áratugi, upphaflega var það ljósaskilti en löngu var slökknað á perunni þegar það var fjarlægt sumarið 2021. Þá var greint frá því að skiltið yrði endurnýjað, lýsing sett í það á ný og því síðan fljótlega komið fyrir á sama stað. Ekkert fréttist hins vegar af skiltinu aftur fyrr en í síðustu viku þegar upplýst var að til stæði að koma því fyrir utan á húsinu á ný fyrir Akureyrarvöku í lok ágúst.

Mjög skrýtið

Hörður á hluta annarrar hæðar hæð Amarohússins og verslunarpláss á jarðhæð. „Mér finnst þetta mjög skrýtið. Ég hef ekki verið spurður og skil ekki að einhver maður úti í bæ ætli að setja skilti utan á hús sem hann á ekkert í og ekki í samráði við eigendur hússins,“ segir hann.

Hörður kveðst hafa beðið um, þegar skiltið var tekið niður á sínum tíma, að fá að fylgjast grannt með. „Það eina sem ég vissi þá var að skiltið yrði tekið niður, hugmyndir væru um að laga það og setja jafnvel upp aftur, en ég sagði reyndar strax að ljósaskilti færi ekki upp á sama stað. Ég rek gistiheimili á annarri hæð og skiltið var þar beint fyrir utan.“

Spurður hvort hugsanlegt sé að málið hafi verið unnið í gegnum húsfélag Hafnarstrætis 99 segist Hörður ekki vita til þess. „Mér hefur að minnsta kosti ekki verið sagt frá því. Svona mál verður að taka fyrir á fundi. Það verður að gera hlutina rétt,“ segir hann og ítrekar að afstaða hans hafi ekki breyst: „Ég vil ekki að þetta skilti fari aftur upp.“

Amaro skiltið upp fyrir Akureyrarvöku