Fara í efni
Mannlíf

„Ég þurfti ekki að heyra svarið – ég sá það“

Hljómsveitin Toymachine gefur loks út plötu á morgun, 20 árum „of seint“ eins og fram kom hér á Akureyri.net í gær. Þar sagði bassaleikarinn Atli Hergeirsson frá fyrsta hluta ævintýrisins og heldur nú áfram sögunni þar sem frá var horfið. Nafninu hafði verið breytt úr Gimp í Toymachine og þeir héldu af stað á ný, fullir eldmóðs, „tilbúnir í að leggja allan heiminn að fótum okkar,“ eins og Atli sagði í gær.

Kvöld í Sjallanum á Akureyri 12. mars 1999 varð kveikjan að Iceland Airwaves hátíðinni sem nánast hvert íslenskt mannsbarn kannast við í dag, og þúsundir úti í hinum stóra heimi.

Fremstu útgáfurisar heims í Sjallanum!

„Umboðsmennirnir okkar, Guðmundur [Cesar Magnússon] og Svanur [Zophoníasson] komu sér í hreint út sagt stórkostleg sambönd vestanhafs. Ég skil varla ennþá hvernig í ósköpunum þeir fóru að því – það er eiginlega efni í heila bíómynd! Þessir tveir íslensku sjómenn fengu Icelandair í samstarf og fluttu fulltrúa fremstu útgáfurisa Bandaríkjanna alla leið norður til Akureyrar til að sjá og hlusta á okkur í Sjallanum ásamt hljómsveitunum Dead Sea Apple og Carpet, sem Cesar var þá líka farinn að aðstoða. Þarna var til dæmis mættur Harry Poloner hjá EMI og fleiri risa kallar í bransanum,“ segir Atli þegar hann rifjar ævintýrið upp.

„Svanur og Cesar eru hugmyndasmiðir Iceland Airwaves í grunninn en misstu þetta eiginlega úr höndum sér þegar boltinn fór að rúlla og varð sífellt stærri. Þegar ákveðið var að halda þessa frægu fyrstu Airwaves hátíð í flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli haustið 1999 var það alls ekki á hreinu hvort við fengjum að vera með. Til þess að komast þangað þurftum við að sigra í hlustendavali á X-inu 977 sem náðist ekki einu sinni á Akureyri á þessum tíma,“ segir Atli. Þeir kunnu hins vegar ráð við því: „Við höfðum útvarpsstöðina Frostrásina á Akureyri og fengum hana í lið með okkur. Frostrásin bað hlustendur sína í heila viku að hringja inn á X-ið og kjósa Toymachine áfram. Ég held að allir á Akureyri hafi hringt inn og það oft. Við unnum þessa keppni með stæl og vorum komnir inn – og ég held að þetta gigg í flugskýli 4 á fyrstu Iceland Airwaves hátíðinni hafi verið einir af okkar allra bestu tónleikum til þessa og stemningin var ótrúleg. Það var að minnsta kosti upplifun okkar. Ég hef ekki heyrt neinar upptökur af þessu og er ekki viss um að ég vilji það. Minningin er góð svona!“ segir Atli og skellihlær.

Ég vil fá ykkur til New York!

Strax eftir tónleikana í flugskýlinu, þegar strákarnir vorum enn að þurrka af sér svitann, vindur sér inn til þeirra maður sem segjist vilja fá þá til New York í næsta mánuði. „Hann vildi fá okkur til að spila á CBGB´s með nokkum öðrum böndum fyrir framan fullan sal af fólki frá stærstu útgáfufyrirtækjunum, EMI, Roadrunner, Sony og Maverick records sem dæmi. Þessi fyrrnefndi maður sem ég man ekki nafnið á var frá ASCAP, sem er í Bandaríkjunum svipað og STEF hérna heima.“

Strákarnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið, en ekki kom annað til greina en þiggja boðið. Atli segir það eina í stöðunni hafa verið að drífa sig norður og æfa eins mikið og vel og þeir mögulega gætu, til til þess að stíga svo síðasta skrefið í átt að heimsfrægðinni; komast á samning í Bandaríkjunum eins og þá dreymdi um.

„Við fengum styrk frá Akureyrarbæ og einhverjum fyrirtækjum, auk þess sem Svanur og Cesar lögðu út fyrir ferðinni til New York þangað sem við fórum í nóvember.“

New York í nóvember 1999 - Toymachine á sviði CBGB klúbbsins, strákarnir fyrir utan staðinn og Atli Hergeirsson, bassaleikari sveitarinnar, léttir á sér á vel skreyttu salerni staðarins.

 

Sukk, limósína og íbúð á Manhattan

Spennan var mikil en Atli segir að ferðin hafi hins vegar í raun gert út af við hljómsveitina. „Þarna var mikið sukk á meðlimum bandsins og margt gekk á sem ég ætla ekki út í hér. Með okkur í för voru nokkrir félagar okkar, til dæmis Gunnar Sigurbjörnsson, hljóðmaður, sem við lítum reyndar á sem meðlim bandsins, svo mikilvægur er hann. Það er ómetanlegt hvernig hann nær að láta okkur hljóma á tónleikum. Alger töframaður og kær vinur sem við köllum ávallt pabba okkar!“

Trausti Björgvinsson, sviðsmaður og rótari, var einnig með í för, og Ingi Tryggvason, sem átti að vera einskonar kynningarfulltrúi strákanna, en Atli segist reyndar ekki skilja enn þann dag í dag hvers vegna hann fór með.

„Þarna vorum við í partýi með hljómsveitinni At the drive in og hittum Ross Robinson og fleiri spaða. Vorum komnir til himnaríkis að okkar mati og útgefendur kepptust í raun um að vera í kringum okkur og halda okkur glöðum með allskonar „tríti“. Við ferðuðumst um í limósínu og fengum íbúð út af fyrir okkur á besta stað á Manhattan. Það var svo ótrúlegt að stíga loks inn á CBGB´s, þennan goðsagnakennda klúbb þar sem bönd eins og Talking Heads, Blondie og Ramones urðu hreinlega til. Þessi staður var ekkert mikið stærri en Græni hatturinn, lofthæðin var þó meiri og kakkalakkar skriðu á veggjunum sem voru annað hvort út spreyjaðir eða stútfullir af límmiðum. Við vorum mættir í rokkholu alheimsins og maður fann hvað maður var eitthvað lítill í sér. Maður var ekki alveg þessi harði rokkhaus til að vera að spila þarna.“

Hræðileg frammistaða

Tónleikastaðurinn var fullur af útgefendum og alls kyns bransafólki þetta kvöld og tilhlökkun akureyrsku strákanna gífurleg, eins og gefur að skilja. „Það voru fjögur eða fimm önnur bönd sem þarna komu fram. Loks kom að okkur og í stuttu máli sagt héldum við afleita tónleika – vægast sagt. Þetta bara small ekki hjá okkur.“

Atli segir sennilegt að mikil þreyta hafi setið í hópnum eftir partístand dagana á undan. „Þarna slitnaði strengur í gítarnum hjá Kristjáni og allt gekk á afturfótunum. Ég man að ég stóð upp á sviði og fann hvernig ég hitnaði í framan og hugsaði: Er þetta í alvörunni að gerast núna? Þetta var tækifærið en það klúðraðist. Við vorum komnir aftur á byrjunarreit, vorum algjörlega eyðilagðir þegar við komum niður af sviðinu og töluðum lítið saman. Þögnin var ærandi. Ég man ennþá svipinn á Gunna Sigurbjörns þegar ég spurði hann eftir tónleikana hvernig þetta hafi komið út. Ég þurfti ekki að heyra svarið – ég sá það. Þó kom Cesar alsáttur til okkar eftir giggið og var í miklu stuði og gríðarlega ánægður með þetta. Ég skildi það ekki þá, en ég skil það núna. Hann var búinn að vera edrú í 15 eða 20 ár en missteig sig þarna og leyndi því fyrir okkur, að minnsta kosti fyrir hluta hópsins. Hann hefur sennilega ekki lesið rétt í aðstæður vegna þess. Hinn umboðsmaðurinn okkar, Svanur, gerði það hins vegar og sennilega fékk hann snert af taugaáfalli í þessari ferð, kallgreyið.“

Járnið orðið ískalt

„Þegar heim var komið var sem sagt lítið að frétta hjá Toymachine og ekkert utan úr heimi. Járnið, sem búið var að hamra síðustu mánuði, var orðið ískalt. Við héldum þó áfram og stefnan var sett á að gera plötu til að hafa eitthvað til að selja áfram. Gera eina lokatilraun. Við töluðum lítið um þessa ferð lengi vel og þurftum að gera hana upp síðar.“

Atli flutti suður upp úr aldamótum og Baldvin eignaðist sitt fyrsta barn „með öllum þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem því fylgir, og bandið bara leystist upp hægt og rólega. Við spiluðum okkar síðustu tónleika í Íþróttahöllinni á Akureyri þar sem við komum fram ásamt Jet Black Joe. Við vissum innst inni að þetta væri síðasta giggið okkar. Jenni gekk svo í Brain Police sem þá var einmitt í leit að söngvara og hann smellpassaði þar inn. Svo bara liðu árin og við hittumst ekki oft. Ég er reyndar giftur frænku Baldvins þannig að við vorum alltaf í miklu sambandi ef frá er skilið um það bil ár upp úr aldamótum þar sem við töluðum ekkert saman. En bandið var búið að vera þarna og platan kom aldrei út, þótt öll lögin væru tilbúin. Það átti bara eftir að setja punktinn aftan við þetta ævintýri,“ segir Atli Hergeirsson.

Á MORGUN – Ómetanlegt að koma plötunni út

Í GÆR - Söguleg sveit loks með plötu, 20 árum of seint!