Fara í efni
Mannlíf

Ég nenni ekki að labba upp Gilið – MYNDBAND

Það getur tekið á að ganga upp Listagilið í öllum veðrum. Akureyrska hljómsveitin Brenndu bananarnir hefur komið orðum á tilfinninguna sem margir Akureyringar kannast við.

Akureyrska hljómsveitin Brenndu bananarnir hefur sent frá sér nýjan smell. Margir Akureyringar tengja að öllum líkindum vel við textann sem fjallar um það hversu leiðinlegt það er að ganga upp Gilið.

Að sögn Heklu Sólveigar Magnúsdóttur, sem hefur verið aðalsprauta sveitarinnar frá því að hún var stofnuð í febrúar 2021, er Gilið áskorun fyrir marga gangandi vegfarendur, ekki síst í snjó og hálku. Í nýjasta lagi sveitarinnar sem kallast Ég nenni ekki að labba upp Gilið eru m.a. taldar upp aðrar lausnir fyrir fólk sem þarf að komast gangandi úr miðbænum og upp á Brekku en nennir ekki að fara um Gilið. „Ætli stálstiginn verði ekki oftast fyrir valinu hjá mér,“ segir Hekla sem gengur sjálf niður Gilið einu sinni á dag, sem þýðir að hún þarf að ganga upp Gilið á bakaleiðinni eða finna aðrar leiðir til þess að sleppa við það.

Brenndu bananarnir: Hekla, Sigrún og Grétar, sem er reyndar í pásu í bandinu í bili.

Nauðsynlegt að gíra sig upp fyrir gönguna

Lagið var frumflutt á tónleikum í mars en fór svo inn á Spotify og Youtube í vikunni. Auk Heklu skipar Sigrún Freygerður Finnsdóttir sveitina en þær eru 16 og 17 ára nemendur við Menntaskólann á Akureyri, Hekla á skapandi tónlistarbraut og Sigrún á mála- og menningarbraut. Aðspurð hvort Hekla leggi til að Akureyrarbær geri eitthvað til að gera Gilið gönguvænna neitar hún því og segir að auðvitað sé gott að hafa áskorun á borð við Listagilið í bænum. Hún vísar í texta lagsins og bendir á að ef skapið er í lagi þá tekur það ekki nema fimm mínútur að ganga upp Gilið. Það liggur því beinast við að spyrja út í það hvernig best sé að breyta skapinu þegar verið er að gíra sig upp fyrir göngu upp Gilið? „Þú setur auðvitað nýja Gil-lagið í eyrun og þá er þetta ekkert mál,“ segir Hekla.

Hlusta má á lagið hér fyrir neðan en við látum líka textann fljóta með svo fólk geti lært hann utan að og raulað með þegar gengið er upp Gilið.

Smellið hér til að hlusta

 

ég nenni ekki

ég nenni ekki

ég nenni ekki

að labba upp gilið

 

það er alltof bratt

og ég næstum datt

og ég vil komast heim í símann

 

ég nenni ekki

ég nenni ekki

ég nenni ekki að labba upp gilið

 

og ég þarf að reima

og er búin að steingleyma að þurfa að labba upp listagilið

 

ég held ég ætli bara að fara upp litlu lyftuna

hún er ljót og bleik en það skiptir ei því húsið er lokað

 

en kannski tek ég stálstigann

eða kirkjutröppurnar ég nenni hvorugu

en ég verð samt að velja eitthvað

 

ég bara nenni ekki

ég nenni ekki

ég nenni ekki

að labba upp gilið

 

ég hef fengið nóg og allt er fullt af snjó og skórnir mínir eru blautir

 

en hvað á ég að gera

ef ég nenni ekki

að labba upp gilið

 

þá kemst ég aldrei heim

í minn draumaheim

þar sem ég þarf ekki að labba upp gilið

 

kannski ef ég hætti að kvarta og legg bara af stað

það tekur ekki meira en svona fimm mínútur ef skapið er komið í lag

 

ég vil bara labba niður gilið

hlaupa niður gilið

skokka niður listagilið

 

ég nenni ekki

ég nenni ekki

ég nenni ekki

að labba upp gilið

 

ég nenni ekki

ég nenni ekki

ég nenni ekki

að labba upp gilið

 

ég nenni ekki

ég nenni ekki

ég nenni bara alls ekki að labba upp listagilið