Fara í efni
Mannlíf

„Ég er gömul sál og nörd í grunninn“

Vilhjálmur B. Bragason, leikari og listamaður. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Leiklistin er Þjóðvegur eitt í lífi mínu,“ segir Vilhjálmur Bergmann Bragason, gjarnan kallaður Villi. Blaðamaður Akureyri.net grípur hann í norðurferð sinni, þar sem hann býr mest fyrir sunnan í augnablikinu, og við fáum okkur kaffi á LYST. Líf lausaleiksleikarans er kannski svolítið rótlaust, en til þess að jarðtengja okkur, ákveðum við að leiðarstefið í viðtalinu verði landakort. Við erum bæði sögufólk, og okkur líður betur með eitthvað haldreipi. Einhvern þráð.

Þetta er fyrsti hluti viðtalsins við Villa, annar hluti birtist á morgun og sá þriðji og síðasti á sunnudaginn.

Á MORGUN – „FÉKK FYRSTA HLUTVERK NÍU ÁRA GAMALL HJÁ LA“


„Það eru tíu ár síðan ég útskrifaðist sem leikari, þannig að það er ekki úr vegi að líta í baksýnisspegilinn og skoða hvaða slóðir liggja að baki,“ segir Villi hátíðlega. „Maður vill alltaf að hlutirnir gerist hratt og að það sé stöðugt mikið á seyði, og svo líður manni eins og maður hafi ekki gert neitt. En þegar ég svo tíni til það sem ég hef gert þá kemur náttúrulega upp úr krafsinu að það er alveg fullt! En hugsa ekki allir svona? Hugsa um líf sitt í einhverjum tímabilum og maður veður úr einu í annað þangað til að maður staldrar við og lítur yfir landakort lífsins og skoðar leiðina sem maður hefur fetað og vill sjá einhvern árangur?“

„Ég hefði aldrei þorað að vona að ég myndi til dæmis vinna Grímuverðlaun sem leikari í aukahlutverki sjö árum eftir útskrift,“ segir Villi, en hann fékk verðlaunin fyrir að leika Ketil Skræk í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Skugga-Sveini árið 2022. „Maður sér hlutina aldrei eins og þeir verða, draumar rætast oft á óvæntan hátt þó maður upplifi sig oft í einhverri biðstöðu.“

 

Villi er hér í hlutverki Ketils Skræks í leikritinu Skugga-Sveini, sem hann fékk Grímuverðlaunin fyrir. Jón Gnarr lék tiltilhlutverkið. Mynd: LA

Ratar alltaf heim í leikhúsið

Þjóðvegur númer eitt er leiklistin, og svo eru allskonar malarvegir og slóðar sem liggja til allra átta út frá honum. Villi er í eðli sínu forvitinn og fróðleiksfús, og kveðst vera gömul sál og nörd í grunninn, þannig að vegakerfið er í rauninni margslungið og víða þvælst. Þrjú hjól undir bílnum, og allt það. Alltaf ratar Villi samt aftur inn á þungamiðjuna, þjóðveginn; leiklistina.

Leiklistin hefur leitt mig inn á svo margar brautir

„Þó að ég sé kannski ekki neitt háaldraður, þá er ég farinn að velta fyrir mér ákveðnum tilvistarspurningum,“ segir Villi. „Reyndar lít ég sennilega út fyrir að vera eldri en ég er, en í innanlandsflugi um daginn spurði mig tólf ára stelpa hvort að ég væri ekki maðurinn sem lék flugstjórann í Stellu í orlofi. Þó það sé ekki leiðum að líkjast, Gísla Rúnari, þá var ég nú ekki einu sinni fæddur þegar sú góða mynd kom út. Ég hef reyndar grun um að það sé aðallega mottan sem kveikti þessa hugmynd.“ Það er síðla mánaðar í mottumars þegar viðtalið er tekið, og Villi hefur ekki látið sitt eftir liggja.

Vandræðaskáld spruttu upp úr leiksýningu

„Ég hef komið við á mörgum stöðum á leiðinni hingað,“ segir Villi. „Til dæmis að stjórna Föstudagsþættinum á N4, vera í Gettu betur, veislustýra og skemmta, bæði einn og sem hluti af dúóinu Vandræðaskáld með Sesselíu Ólafs vinkonu minni. Veislustjórinn og skemmtikrafturinn Villi varð í rauninni til eftir leiksýningu sem ég og Sesselía sömdum og settum upp fyrir tíu árum; Útför, saga ambáttar og skattsvikara, leikrit um uppruna íslensku þjóðarinnar. Það voru lög í sýningunni, sem fólki þótti skemmtileg og við fengum tilboð um að spila lögin á árshátíðum og einhverju slíku. Vandræðaskáld spretta í rauninni upp úr þessari sýningu.“ 

„Við litum eiginlega ekki á okkur sem tónlistarfólk á þessum tíma, og gerum varla ennþá,“ segir Villi hlæjandi. „Ég hef reyndar fengið skammir frá vinum fyrir að segjast ekki vera tónlistarmaður, en mér hefur verið bent á að ég fæ stundum greitt fyrir það að flytja tónlist. Þá er ég, samkvæmt ströngustu kröfum, í rauninni tónlistarmaður. Ég varð bara að gjöra svo vel að gangast við því. Ég titla mig samt í rauninni alltaf sem leikara, og listamann. Gleymum ekki að leiklistin er þjóðvegurinn, þó ég rúnti og villist allskonar krókaleiðir.“

 

Vandræðaskáld, Villi og Sesselía, hafa vakið kátínu um allt land með snjöllum gríntextum. Meðal annars er fastur liður að þau gera upp árið á Facebook síðu sinni með lagi. Myndir: Facebook

Leiklistin var fyrsta ástin

„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri, en pabbi minn er frá Kópavogi og við fórum árlega þangað til að þess að heimsækja ömmu og afa,“ segir Villi. „Ég var í rauninni frá upphafi frekar gömul sál. Ég var farinn að tala mjög snemma og var með fullorðinslegan orðaforða, en margar skondnar sögur eru til af því. Sagan sem oftast er vitnað til, er einmitt sagan af því, þegar ég kom í leikhús í fyrsta skipti. Þá fóru foreldrar mínir með mig og bróður minn á Dýrin í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu. Ég var fimm ára og bróðir minn fjögurra. Siggi Sigurjóns var Mikki refur og Örn Árnason var Lilli klifurmús í þessari uppfærslu. Þegar ég geng inn í stóra salinn, þá verður litla barnið ég fyrir svo miklum hughrifum, að ég nem staðar í gættinni, lít upp í stuðlabergið fyrir ofan mig og baða út höndunum þannig að enginn kemst framhjá. Þarna segi ég hátíðlega: „Drottinn minn! Leikhússalurinn!“ Það var ást við fyrstu sýn og ég fékk alvarlega leikshúsbakteríu þarna fimm ára gamall sem ennþá lifir góðu lífi.“

Ég beit það í mig þarna, að ég þyrfti að komast í leikhús. Alltaf. Ekki bara á barnasýningar

„Ég endurlék Dýrin í Hálsaskógi óteljandi sinnum eftir þessa upplifun,“ segir Villi. „Ég vildi yfirleitt vera Mikki refur, af því að mér fannst það mest djúsí hlutverkið. Ég neyddi bróður minn sem var ári yngri, til þess að vera Lilli klifurmús. Hann gat ekki sagt R. Og í rauninni þjálfaðist hann lengi vel ekkert í því að laga það, þar sem ég talaði yfirleitt fyrir hann. Hann átti náttúrulega að segja ýmislegt í þessari sýningu og þegar við vorum í eitt sinn að leika fyrir ömmu hérna fyrir norðan, sennilega í tíunda skipti, þá átti hann að segja; 'Þarna sé ég í skottið á refnum', en hann segir auðvitað 'Þarna sé ég í skottið á lefnum'. Ég neyddist náttúrulega til þess að stöðva sýninguna og útskýra fyrir áhorfendum (ömmu), að hér væri um misskilning að ræða. Þetta ætti að sjálfsögðu að vera refur, en ekki lefur.“

 

Villi var spekingur í barnæsku, og líklega óhætt að segja að hann hafi fæðst með leikhúsblóð í æðum. Myndir úr einkasafni Villa.