„Ég er eiginlega ófær um að grínast ekki“

Við erum á ferð um landakortið með Villa, Vilhjálmi B. Bragasyni, leikara og listamanni. Yfir kaffibolla á LYST, ræðum við um leiðina sem hann er á, hvaðan hann er að koma og hvert ferðinni er heitið. Við höfum neglt það niður, að á hans landakorti er leiklistin Þjóðvegur eitt og alltaf ratar hann þangað aftur eftir að hafa rannsakað hinar ýmsu hliðargötur og dali. Húmor hefur verið dyggur ferðafélagi Villa, en hann er ekki bara kómískur á sviðinu heldur hefur hann skapað sér mörg verkefni við veislustjórn og annað skemmtanahald sökum þess hve fyndinn hann getur verið. En hvaðan kemur þessi húmor? Í fyrri hluta viðtalsins, sem var birt í gær, kynntumst við Villa sem gamalli sál í ungum dreng, helteknum af drama og leiklist.
Þetta er þriðji hluti viðtalsins við Villa.
Í GÆR – FÉKK FYRSTA HLUTVERK NÍU ÁRA GAMALL HJÁ LA
Í FYRRADAG – „ÉG ER GÖMUL SÁL OG NÖRD Í GRUNNINN“
„Ég hef velt þessu mikið fyrir mér sjálfur, hvað veldur því að húmorinn er mér svona nærtækur í dag. Ég er eiginlega ófær um að grínast ekki! Það væri mjög áhugavert að prófa að leika eitthvað mjög dramatískt, það væri gaman að takast á við það, þar sem ég væri ekki að reyna að vera fyndinn,“ segir Villi og brosir.
Húmor er mjög dýrmætur. Hann í rauninni afvopnar mann og opnar á allskonar tilfinningar
„Húmor byrjar oft sem einhversskonar varnarviðbragð hjá fólki. Ég skildi eiginlega ekki alveg að ég væri eitthvað fyndinn fyrr en ég er um tvítugt. Ég streittist í rauninni á móti því, ég ætlaði að verða mjög alvarlegur og alvörugefinn leikari og listamaður. Það var ekkert í boði að grínast.“
T.v. Myndasería frá tónleikum Vandræðaskálda á Græna hattinum, en það drepfyndna dúó skipa Villi og Sesselía Ólafs. T.h. Villi sem Ketill skrækur í Skugga-Sveini, en að leika misheppnaða vonda karaktera er í sérstöku uppáhaldi hjá Villa.
Móðgaðist við fyrstu tillögu um uppistand
„Ég hef alltaf haft gaman af því að segja sögur, og í menntaskóla til dæmis var ég mikið í því og fólk hló gjarnan að sögunum mínum,“ segir Villi. „Ég hélt fyrst að það væru bara sögurnar sem voru fyndnar, ekki ég. Ég man svo eftir því, þegar vinkona mín segir við mig í einhverju partýi þar sem ég er að segja frá, að ég ætti nú bara að vera uppistandari af því að ég væri svo fyndinn. Ég eiginlega hálfmóðgaðist og fannst eins og það yrði eitthvað fyrir neðan mína virðingu að verða einhver grínisti. Þannig að það er í raun gott á mig, hvað hefur orðið úr mér! Ég tók sjálfan mig allt of hátíðlega, og í dag veit ég að það að vera kómískur – að gera það vel, er oft erfiðara heldur en drama. Í kómík þarf tímasetningar og tilfinningu sem ekki er hægt að kenna. Að skilja tungumál húmorsins, er bara í blóðinu. Við getum hins vegar öll verið dramatísk! Ég er samt alls ekki að gera lítið úr því.“
„Húmor er mjög dýrmætur. Hann í rauninni afvopnar mann og opnar á allskonar tilfinningar,“ segir Villi. „Flestar bestu leiksýningar sem ég hef séð eru einhver blanda af gríni og alvöru, vegna þess að ef þú vilt virkilega koma við hjartað í fólki, þá læturðu það hlæja fyrst og hreyfir svo við því. Húmorinn fær fólk til að slaka á og opnar einhverjar gáttir.“
Villi skrifaði leikritið 'Fullorðin' ásamt Birnu Pétursdóttur og Árna Beinteini. Verkið er samansafn stuttra leikþátta þar sem húmorinn ræður ríkjum. Hér er hann ásamt Birnu á sviðinu. Mynd: aðsend
Var hræddur um að vera leiðinlegur
„Foreldrar mínir skildu þegar ég var tólf ára, og það var erfiður skilnaður,“ segir Villi. „Ég held að það hafi haft meiri áhrif en ég kannski gerði mér grein fyrir þá, og ég notaði mögulega húmorinn þar sem haldreipi. Að geta slegið á létta strengi og lyft stemningunni þegar á þurfti að halda var dýrmætt. Ég er ekki búinn að greina þessa kenningu í þaula, og það eru fleiri hlutir sem kannski höfðu áhrif. Sem unglingur upplifði ég mig oft svolítið á skjön við minn aldurshóp, af því að ég var svona gömul sál og hafði áhuga á hlutum sem höfðuðu ekki endilega til fólksins í kring um mig. Þarna spratt upp einhver ótti við að vera leiðinlegur. Ég var eins og gamall maður í líkama unglings. Svo náttúrulega kom það á daginn að vinir mínir kunnu að meta þetta í fari mínu og auðvitað erum við öll að ofhugsa það, hvernig við erum á þessum árum.“
Villi er ekki fastur við leikhúsið, en verkefni í sjónvarpi heilla hann töluvert um þessar mundir. T.v. Villi og Birna Pétursdóttir léku í Krakkaskaupinu 2024 hjá RÚV. T.h. Villi var kynnir á Edduverðlaununum 2024 ásamt Ólafíu Hrönn. Myndir: aðsendar
Spennandi verkefni framundan á ýmsum sviðum
„Það er margt spennandi framundan hjá mér,“ segir Villi. „Ég er nýlega búinn að aðstoða vin minn, Kristinn Óla (Króla), við að skrifa lokaverkefnið sitt í leikaranámi í LHÍ, ásamt Hjalta Rúnari Jónssyni. Þetta endaði sem sex manna hurðafarsi, en hurðafarsi er svona æðibunugangur þar sem fólk veður inn og út. Verkið heitir 'Ber er hver', og vísar í orðatiltækið 'Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi', og fjallar um tvíbura þar sem Kristinn leikur báða bræðurna. Við fengum drottinguna Kristbjörgu Kjeld með okkur í þetta og fleiri góða leikara. Við erum búin að sýna þrjár sýningar í LHÍ og erum að vinna enn frekar í handritinu og vonumst til þess að þetta verkefni öðlist framhaldslíf.“
Ég hef ekki unnið heiðvirða vinnu núna í átta ár
„Svo er ég að fara að leika í barnaþáttum fyrir sjónvarp sem ekki má segja almennilega frá ennþá,“ segir Villi. „Það er í startholunum og ég er mjög spenntur fyrir því, en þar fæ ég að vera vond persóna sem er algjörlega misheppnuð, en svoleiðis karakterar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert var að leika Ketil skræk í Skugga-Sveini hjá LA, sem var svona misheppnaður skósveinn útlagans. Og talandi um það, fyrst við erum að spá í því sem koma skal, þá langar mig auðvitað alltaf að fá fleiri verkefni í framtíðinni hjá Leikfélagi Akureyrar, sem er mitt uppeldisfélag.“
Ketill skrækur í kröppum dansi. Villi segir að það hafi verið eitt það skemmtilegasta sem hann hafi gert, að leika Ketil í uppfærslu LA á Skugga-Sveini. Mynd: aðsend
Leikarar þurfa oft að búa sér til verkefni
„Það eru fleiri verkefni í pípunum, en ég skrifaði til dæmis handrit að bíómynd með Árna Theódórssyni, sem við höfum reynt að fá styrki fyrir og erum ekki af baki dottnir með það,“ segir Villi. „Þetta er svolítið stefið hjá sjálfstæðum leikurum. Maður er mikið í því að búa sér til verkefni og hafa eitthvað í bakhöndinni. Maður er svo alltaf þakklátur fyrir verkefnin sem detta inn, eins og hlutverk sem ég fékk í Útvarpsleikhúsinu fyrir stuttu, í verki sem verður frumflutt um páskana. Þar leik ég töluvert upp fyrir mig í aldri, leik föður aðalpersónunnar, en sú sem leikur hana er eldri en ég. Það er allt hægt í útvarpi!“
Forvitnin er alltaf ferðafélagi minn, fær mig til þess að prófa allskonar
„Þegar maður er leikari eða starfar við leikhús, getur maður verið haldinn stöðugum ótta við að vera skilinn útundan, eða að fá ekki að vera með,“ segir Villi. „Það þarf að hafa hugarflug líka og búa sér til verkefni þar sem maður ræður sjálfur ferðinni, vegna þess að það er alveg hætta á að það komi tímabil þar sem maður hentar ekki í neitt sem aðrir eru að setja upp. Og leikarar eru stöðugt hræddir við að þessi tímabil komi.“
„Ég hef verið meira í Reykjavík upp á síðkastið heldur en hér heima, en ég bý alltaf að nafninu til á Akureyri og á mína íbúð hér,“ segir Villi. Blaðamaður spyr, hvort að hann yrði ekki örugglega á lista í norðaustur ef hann færi í framboð. „Jú, það er alveg þannig, þó að það standi reyndar ekki til eins og staðan er,“ segir Villi. Ég hef stundum grínast með, að ef allt annað klikkar, þá fer ég í pólitík. En þar með er ég ekki að segja að allir sem séu í pólitík hafi gefist upp á einhverju öðru. Þetta er auðvitað bara grín allt saman.“
T.v. Villi með Grímuverðlaunin, sem hann hlaut fyrir besta leik í aukahlutverki, fyrir hlutverk Ketils skræks í Skugga-Sveini. T.h. Villi getur verið alvarlegur, og segir að það væri áhugavert að takast á við dramatískt hlutverk. Myndir: aðsendar
Hagar búsetu eftir verkefnum hverju sinni
„Ég hef ekki unnið heiðvirða vinnu núna í átta ár,“ segir Villi kíminn. „Það er að segja, við eitthvað annað en að vera listamaður. Þannig að það er vissulega hægt að vera sviðslistamaður eingöngu og lifa af því. Ég er samt svo heppinn að geta búið til skiptis fyrir norðan og sunnan, eftir því hvaða verkefni eru á döfinni. Það er kannski lykilatriði.“
Stóra ástin verður alltaf í leikhúsinu
Ljúkum viðtalinu við Villa á landakortinu aftur. Hvert liggur leiðin? „Ég horfi ekki langt fram í tímann, yfirleitt,“ segir Villi. „Virði oftast bara fyrir mér dalinn sem ég er í og reyni að kortleggja hvað ég get gert hér. Er ég kominn út í móa eða finn ég kindagötu einhversstaðar? Ég er alltaf með hugmyndir um hluti sem mig langar að gera. Núna langar mig til dæmis til þess að vinna meira í bíómyndum og sjónvarpi, þó að stóra ástin verði alltaf leikhúsið. Forvitnin er alltaf ferðafélagi minn, fær mig til þess að prófa allskonar og stækka sjálfan mig sem listamann á ferðinni í gegn um tilveruna,“ segir Villi að lokum.
Þetta var þriðji hluti viðtalsins við Villa, en hér má finna hlekki á fyrri hlutana á Akureyri.net:
Í GÆR – FÉKK FYRSTA HLUTVERK NÍU ÁRA GAMALL HJÁ LA
Í FYRRADAG – „ÉG ER GÖMUL SÁL OG NÖRD Í GRUNNINN“