Fara í efni
Fréttir

Ef það hljómar of gott til að vera satt ...

Anna er verðandi háskólanemi á Akureyri sem uppgötvaði að ekki var allt með felldu með húsnæðið sem henni var boðið til leigu. Hún hefur áður lent í klóm leigusvindlara í Hollandi og var því með varann á sér.

„Ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það mjög líklega falsað,“ segir Anna Lauenburger, þýskur námsmaður sem var nærri fallin í gildru leigusvindlara á Akureyri.

Akureyri. net sagði í gær frá spænskri stúlku, Ana Gómex Marmolejo, sem lenti í leigusvindli á Akureyri. Smellið hér til að sjá þá umfjöllun.

Anna Lauenburger lenti í sama svindlara en hann hafði þó enga peninga út úr henni þar sem hún áttaði sig fljótt á því að ekki væri allt með felldu.

Hefur áður lent í leigusvindli

Anna, sem er 24 ára, er að hefja nám í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri í haust og auglýsti eftir húsnæði á Facebook. Maður að nafni Ste Ven hafði samband við hana og bauð henni herbergi í flottri íbúð. Samskiptin héldu síðan áfram við Jan Kabelak sem sagðist eiga íbúðina. Bæði þessi nöfn eru þau sömu og Ana Gómex Marmolejo var í samskiptum við og heimilisfangið sem var uppgefið var það sama, Steinahlíð 6.

Myndirnar sem Anna fékk sendar af íbúðinni á Akureyri litu vel út og verðið líka.

„Í fyrstu var ég mjög ánægð vegna þess að myndirnar litu mjög vel út og íbúðin samræmdist minni kostnaðaráætlun. Hins vegar hef ég þegar verið svikin einu sinni í Groningen í Hollandi þar sem ég hef búið undanfarin fjögur vegna Bachelornáms. Á þeim tíma vissi ég ekki hvað ég ætti að varast og tapaði töluverðum peningum, en af þeirri reynslu lærði ég að athuga allar upplýsingar mjög vel og að ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það mjög líklega falsað.“

Gat ekki sýnt íbúðina

Anna segist hafa óskað eftir skoðunarferð um íbúðina í gegnum netið en eigandinn sagðist ekki geta orðið við því þar sem það tæki hann fimm klukkustundir að komast til Akureyrar en hann sendi henni myndband af íbúðinni í staðinn.

„Myndbandið hefði getað verið tekið upp hvar sem var og leigusamningurinn leit heldur ekki út fyrir að vera skrifaður af lögfræðingi eins og eigandinn hélt fram,“ segir Anna og heldur áfram;

„Þegar ég skrifaði undir samninginn var eigandinn að þrýsta á mig að borga mánuði fyrr en það sem stóð í samningnum. Þegar ég sagði honum að ég myndi bara borga á þeim tíma sem samið var um í samningnum fór hann í vörn og sagði að þetta væri innsláttarvilla.“

Anna Lauenburger er að hefja nám í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri.

Eftir fyrri reynslu sína af leigusvindli vildi Anna ekki millifæra neina peninga nema hún væri viss um að ekki væri um neitt svindl að ræða og tímann fram að umræddum gjalddaga nýtti Anna til þess að skoða málið betur. „Þegar ég skrifaði undir samninginn þá þurfti ég að senda mynd af skilríkjunum mínum og íbúðareigandinn sagðist myndi senda mér sín á móti, sem hann gerði eftir að ég hafði ýtt á eftir því nokkrum sinnum.“ Anna segist hafa leitað ráða hjá löglærðum vinum sem ráðlögðu henni að reyna að komast af því hvort íbúðareigandinn væri raunverulegur. Með fullt nafn og mynd af honum byrjaði Anna að gúggla og fann hinn raunverulega Jan Kabelak í gegnum LinkedIn. Hún setti sig í samband við hann en þá kom í ljós að hann átti enga íbúð á Akureyri og bað hann hana vinsamlegast um að tilkynna málið til lögreglunnar.

Ein myndanna sem Anna fékk senda og áttu að vera úr íbúðinni sem henni stóð til boða á Akureyri.

Getur svindlað út á hennar skilríki

Þó Anna hafi sloppið með skrekkinn að þessu sinni og ekki tapað neinum peningum þá er málið ekki úr sögunni. „Vandamálið er að þessi manneskja er nú með mynd af mínum persónuskilríkjum og getur notað þau til þess að svíkja fólk. Þess vegna tilkynntum við málið til þýsku lögreglunnar eins fljótt og við gátum,“ segir Anna. Hún hvetur fólk til þess að vera meðvitað um vinnubrögð svindlara til þess að geta borið kennsl á þá. „ Ég hef orðið fyrir svindli áður og vissi því hvað ég ætti að vera að skoða og sem betur fer átti ég hjálpsama vini og lögreglufulltrúa sem gátu ráðlagt mér í málinu.“