Drífa Ríkarðsdóttir setti þrjú Íslandsmet
Drífa Ríkarðsdóttir úr lyftingadeild KA setti þrjú Íslandsmet í kraftlyftingum um helgina á Reykjavíkurleikunum – Reykjavík International Games, alþjóðlegu íþróttamóti þar sem keppt er í fjölda greina og var nú haldið í 17. sinn. Drífa varð í öðru sæti í 57 kg flokki.
Fyrsta Íslandsmetið setti Drífa þegar hún lyfti 135 kg í hnébeyju. Hún lyfti þvínæst 80 kg í bekkpressu og loks 172,5kg í réttstöðulyftu, þar sem Drífa bætti eigið Íslandsmet um 10kg. Þar með hafði hún einnig bætt eigið Íslandsmet í samanlögðu – lyfti alls 387,5kg. Drífa náði með þessum árangri lágmörkum fyrir HM í klassískum kraftlyftingum sem fram fer í Litháen í júní.
Drífa, sem 24 ára, býr í Grímsey og hefur æft kraftlyftingar í rúm tvö ár. Á vef Akureyrarbæjar kemur fram að hún flutti út í eyju fyrir tæpum tveimur árum með kærasta sínum sem er úr Grímsey. „Þar hefur hún haldið æfingunum áfram í minnstu líkamsræktarstöð landsins sem Hverfisráð Grímseyjar útbjó með stuðningi Akureyrarbæjar og er til húsa í einni skólastofunni í félagsheimilinu Múla,“ segir þar.
„Með þjálfara sínum nýtir hún tæknina til að æfa, fær senda æfingadagskrá, tekur upp lyfturnar á símann sinn og fær ábendingar frá þjálfaranum um það sem betur má fara, auk þess sem hún nýtir hvert tækifæri til að æfa hjá lyftingadeild KA þegar hún kemur í land.“
Næst stefnir Drífa á Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum sem haldið verður í Króatíu um miðjan mars en hefur auk þess náð lágmarki fyrir HM í klassískum kraftlyftingum sem fyrr segir.
Drífa Ríkharðsdóttir (til vinstri), Lucie Martinsdóttir Stefaniková (fyrir miðju) og Kristrún Ingunn Sveinsdóttir (til hægri) á Reykjavíkurleikunum um helgina. Mynd af heimasíðu KA.