Dreymir um að opna grafíksetur á Akureyri
Hjónin Hildur María Hansdóttir og Guðmundur Ármann Sigurjónsson, sem safnað hafa grafíklistaverkum í 55 ár, vilja opna grafíksetur á Akureyri. Segja þau grafíkina vera mikilvægan þátt í myndlist og menningu sem megi alls ekki deyja út á Íslandi.
„Ég veit ekki hvernig við förum að þessu, en við hljótum að finna leið. Við höfum ekki sungið okkar síðasta með þessa hugmynd,“ segir Hildur María aðspurð út í hugmynd þeirra hjóna. Hugmyndin um stofnun grafíkseturs á Akureyri hefur verið draumur þeirra í nokkur ár. Hafa þau m.a. viðrað hugmyndina við Akureyrarbæ, Listasafnið á Akureyri og fleiri, en eins og staðan er núna, er þó aðeins um hugmynd að ræða en undanfarið hafa þau hjónin verið að skrásetja grafíkverkin í safni sínu.
Guðmundur Ármann á vinnustofu sinni í Listagilinu á Akureyri. Hann vill alls ekki að aðferðir grafíklistarinnar týnist niður á Íslandi en hefur áhyggjur af því að svo verði þar sem engin formleg kennsla á háskólastigi er lengur í boði hérlendis. „Að halda ekki við kennslu í þessu fagi eru bara hræðileg skemmdarverk á íslenskri menningu að mínum mati,“ segir Guðmundur.
Það verður að gera myndlistina auðugri og fjölbreyttari og það er ekki bara gert með einhverjum gjörningum og innsetningum. Ég vil meina að það sé ekki framtíð í því að sleppa grafíklistinni. -Guðmundur
Grafíklistin þarf að fá pláss í umræðunni
Eins og Akureyri.net hefur greint frá stendur nú um helgina yfir sýning í Deiglunni á völdum grafíkverkum í eigu hjónanna en með sýningunni vilja þau vekja athygli á grafíklistinni og stöðu hennar á Íslandi.
- Úr handraðanum – Frétt um sýninguna
Grafíklistin er að sögn Guðmundar Ármanns á góðri leið með að verða deyjandi listform hér á landi því eftir að Listaháskóli Íslands var stofnaður um aldamótin hefur engin formleg kennsla verið í boði í listgrafík á háskólastigi á Íslandi. Þá er erfitt að komast í opna vinnuaðstöðu fyrir listamenn sem lært hafa grafískar aðferðir, og grafíklistin virðist yfirhöfuð ekki hátt skrifuð hér á landi að hans mati. Að sögn þeirra hjóna er þessu öðruvísi farið á hinum Norðurlöndunum, þar er grafíkin mikils metið listform, aðgengi er gott að háskólamenntun í greininni og mikið úrval af opnum grafíkverkstæðum. „Það verður að gera myndlistina auðugri og fjölbreyttari og það er ekki bara gert með einhverjum gjörningum og innsetningum. Ég vil meina að það sé ekki framtíð í því að sleppa grafíklistinni,“ segir Guðmundur Ármann sem hefur sjálfur unnið mikið með grafík á sínum listamannsferli.
Hildur og Guðmundur sjá fyrir sér að Akureyri gæti orðið leiðandi í því að vekja athygli og áhuga á grafíklistinni á nýjan leik með opnun grafíksafns og vinnuaðstöðu. Þá gæti slíkt grafíksetur einnig verið í samstarfi við Akureyrarbæ varðandi kennslu inn í skólana sem hluti af myndlistarnámi barna og unglinga. „Stök námskeið hafa vissulega verið kennd í greininni, sem er gott og blessað en það vantar alvöru listnám í grafíklist. En til þess að það sé hægt að bjóða upp á það þá þarf líka að halda grafíkinni á lofti, hún þarf að fá pláss í umræðunni, ungt fólk þarf að þekkja þetta listform og hafa fyrirmyndir á þessu sviði,“ segir Guðmundur og heldur áfram; „Listgrafík hefur fengið allt of litla athygli hér á Íslandi. Hún er ekki eins hátt skrifuð og málaralistin en hefur þó svo áhugaverða sögu.“
Grafíklistin byggist á handverki og eru aðferðir listgreinarinnar fjölmargar. Útkoman er alltaf óljós og kemur ekki endanlega í ljós fyrr en listamaðurinn þrykkir verkinu á pappír eða annað undirlag. Þessar grafíkmyndir eru allar úr safni þeirra hjóna og eru unnar með mismunandi grafíkaðferðum.
Áhrifarík verk
Aðspurður af hverju grafíklistin sé ekki hærra skrifuð hérlendis segir Guðmundur að skýringarnar geti verið nokkrar m.a. að með tilkomu grafík listarinnar var hægt að prenta fleiri eintök af hverju verki, hægt var að selja verkin ódýrari en hefðbundin málverk og fleiri gátu því eignast listaverk, líka almúginn. Þetta þótti kannski ekki nógu fínt á sínum tíma en hefur breyst aftur, enda prenta grafíklistamenn yfirleitt takmarkað upplag af hverju verki og eru verkin tölusett. Hjónin eru sammála um að það sé eitthvað heillandi við grafíklistina. Þó verkin séu oft einföld þá segja þau á sama tíma svo mikið. „Grafíkverk eru vissulega stundum drungaleg af því þau eru oft svarthvít en það er líka ljós í þeim, það er alltaf þetta samspil á milli ljóss og skugga. Það er mikill raunveruleiki í grafíkinni og myndirnar því oft mjög áhrifaríkar,“ segir Hildur.
Grafíklistin samofin prentsögunni
Þá segir Guðmundur grafíklistina vera stórmerkilega og hafa leikið stórt hlutverk í gegnum söguna, t.d. á endurreisnartímanum, með fjölföldun grafíkverka Albrechts Dürer á árunum 1471 – 1528. Einnig á Upplýsingaröldinni í Evrópu með fjölföldun á grafíkverkum og útgáfum á möppum Francisco Goya á árunum 1746 – 1828, Ógnir stríðsins og Los Caprichos, Kenjarnar á íslensku. Þá er grafíklistin samofin sögu fyrstu skrefum prents í Evrópu því mikil þörf var á að myndlýsa það sem var prentað því almúginn var ekki læs á texta. Í listasögunni segir Guðmundur að séu líka fjölmörg dæmi þess að myndlistarmenn hafi unnið jafnhliða með grafík og málverk, auk Dürer og Goya má nefna norska listamanninn Edvard Munch (1863 - 1944). „Prentsagan og grafíklistin eru nátengd. Hæðarþrykk sem grafíklistamenn nota mikið er t.d. sama aðferð og Guðbrandur notaði til þess að prenta Biblíuna á sínum tíma,“ segir Guðmundur og bætir við að áður fyrr var prent og grafík kallað svartlist enda sama tækni notuð bæði við prentun á texta og við prentun á listgrafík, þ.e.a.s. þar til offsetprentunin kom til sögunnar.
Grafíkverk eru vissulega stundum drungaleg af því þau eru oft svarthvít en það er líka ljós í þeim, það er alltaf þetta samspil á milli ljós og skugga. Það er mikill raunveruleiki í grafíkinni og myndirnar því oft mjög áhrifaríkar. - Hildur
Hjónin Hildur og Guðmundur Ármann deila áhuga á grafíklistinni og vilja leggja sitt af mörkum til að viðhalda áhuga á listgreininni. Um helgina stendur yfir sýning í Deiglunni á grafíkverkum í þeirra eigu eftir bæði innlenda og erlenda listamenn.
Það sem hjónin hafa nú áhyggjur af er staða listgreinarinnar á Íslandi en lítil endurnýjun er í faginu. Á Íslandi er starfandi félag íslenskra grafíklistamanna, Íslensk grafík, en inntökuskilyrði í félagið er fjögurra ára nám við viðurkenndan listaskóla og þá verður viðkomandi líka að hafa starfað við listsköpun í minnst tvö ár. „Ég mana Listaháskólann til þess að hefja nám í grafíklist að nýju, þ.e.a.s sambærilegt nám og var til B.A gráðu í Myndlistar- og handíðaskólanum. Og enn betra ef það væri líka hægt að taka master í því,“ segir Guðmundur og bætir við að á hinum Norðurlöndunum sendu grafíkfélög nýverið frá sér ákall til menntamálayfivarlda að ekki væru lögð niður tækifæri fyrir listnema til að mennta sig til doktors í grafíklistinni. „Að halda ekki við kennslu í þessu fagi eru bara hræðileg skemmdarverk á íslenskri menningu að mínu mati. En þegar ég er að kvarta yfir stöðu grafikarinnar þá veit ég jafnframt að það er vaxandi áhugi á greininni t.d. í VMA og þegar ég held grafíknámskeið fyllast þau strax. Það er til grafíkpressa í VMA og þar vorum við alltaf með grafíknámskeið fyrir nemendur í dagskólanum, þ.e.a.s. að þeir gátu valið sér grafík sem fjögurra vikna áfanga. Fyrstu tvö til þrjú árin var erfitt að fylla áfangana en svo varð bara allt í einu sprenging. 80% nemendanna voru strákar sem voru orðnir þreyttir á tölvugrafíkinni. Þeim fannst svo gaman að skera út og vinna með höndunum og það var svo mikið kikk og spenningur að sjá útkomuna þegar myndin var þrykkt.“
Ísland langt á eftir Norðurlöndunum
„Stök námskeið sem listamenn halda og einstaka kúrsar á listabrautum framhaldsskólanna er hins vegar ekki nóg til þess að halda þessarri merku listgrein á lífi. Ísland er langt á eftir hinum Norðurlöndunum hvað stöðu grafíklistarinnar varðar,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að ekki sé hægt að meta allt í beinhörðum peningum, það þurfi að leggja meiri áherslu á húmanískan þankagang í samfélaginu. „Það er dýrt að halda ekki einhverju við þó það kosti, að ekki sé talað um tjónið við að týna niður hæfni. Grafíklistin er ákveðin tjáning sem væri sárt að sjá algjörlega hverfa,“ segir hann og bætir við að þau hjónin vilji gjarnan leggja sitt af mörkum til að svo verði ekki. Þannig fæddist þessi hugmynd að grafíksafni eða grafíksetri á Akureyri. Svo er bara að sjá hvert framhaldið verður.