Fara í efni
Mannlíf

„Draumagiggið“ að fá að kynna Söngvakeppnina

Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður, tónlistarstjóri Rásar 2. Mynd RUV.

Akureyringurinn Sigurður Þorri Gunnarsson, tónlistarstjóri Rásar 2, verður einn af kynnum Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Hann upplýsir þetta á Facebook síðu sinni.

„Loksins má segja frá þessu: Draumagiggið að fá að vera kynnir Söngvakeppninnar!“ segir hann.

„Þeir sem þekkja mig vita að þetta verkefni, að vera einn af kynnum Söngvakeppninnar, er eitthvað sem mig hefur dreymt um að takast á við frá því að ég var lítill. Fyrir utan áhugann á Eurovision hef ég gríðarlegan áhuga á lifandi útsendingum og stórum framleiðslum eins og Söngvakeppninni og er algjört nörd þegar kemur að því.“

Siggi segir það því einstakt tækifæri að fá að kynna keppnina í ár ásamt Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og Unnsteini Manuel. „Ég er þakklátur og auðmjúkur fyrir traustinu sem mér er sýnt,“ skrifar hann.

„Við ætlum að gera okkar besta í að skapa skemmtilega umgjörð utan um keppendurna og lögin sem eru auðvitað aðal málið. Þetta á að vera stærsta partý þjóðarinnar þar sem öll geta sameinast fyrir framan sjónvarpið og haft gaman! Við hefjum leika 28. janúar með kynningarþætti Söngvakeppninnar þar sem lögin og flytjendurnir verða kynnt - sjáumst þá, á RÚV!“