Fara í efni
Pistlar

Djúpstæð áfallastreitröskun

Fræðsla til forvarna - XIX

Djúpstæð áfallastreituröskun (Complex PTSD) er ný sjúkdómsgreining í Evrópska sjúkdómsgreiningarkerfinu (ICD-11) þar sem um alvarlegri, djúpstæðari og endurtekin áföll er að ræða.

Einkenni vanlíðunar eru af svipuðum toga og við venjulega áfallastreitustreitu (PTSD: Post Traumatic Stress Disorders) en þau eru alvarlegri, djúpstæðari og vanlíðanin getur staðið lengur, stundum að mestu falin í undirmeðvitundinni en kemur svo upp á yfirborðið löngu síðar.

Áföll sem valda þessari tegund af áfallaröskun hafa oft dunið yfir snemma á ævinni, eða við alvarlegar aðstæður, þar sem engrar undankomu var auðið eða traust var rofið með ofbeldi af hendi nákomins geranda. Einkenni um þunglyndi, kvíða, svefntruflanir, endurupplifanir og forðun eru sterkari og oftar lituð skömm, mikilli sjálfsgagnrýni og lágu sjálfsmati. Skap- og tilfinngastjórn er oft biluð, einbeiting trufluð og skert tengslamyndun.

Dæmi um slík áföll eru afleiðingar afskiptaleysis í bernsku, heimilisofbeldi, kynbundið ofbeldi, pyntingar, mansal, þrældómur og stríð.

Ef til vill finnst einhverjum líkt og þessi vandamál fari vaxandi og stundum heyrast gagnrýnisraddir um að verið sé að sjúkdómsgera um of. En svo er ekki, heldur höfum við hafnað því að þagga þessi mál niður, vitum nú að betra er að ræða þau opið og af nærgætni og til þess þarf orð, heiti og skilgreiningar. Þessi nýja sjúkdómsgreining er einmitt sett fram í þessum tilgangi og í kjölfar aukinnar vísindalegrar þekkingar og til þess að í framhaldinu geta boðið upp á viðeigandi stuðning og árangursríka meðferð.

Þeir sem orðið hafa fyrir þessum djúpstæðari áföllum hafa mikið gagn af stuðningi og skilningi en þeir eru frekar en aðrir í þörf fyrir sérhæfari meðferðir. Sálrænar samtalsmeðferðir eða þjálfunarmeðferðir (til dæmis PE: Prolonged Exposure Therapy) þar sem beitt er þjálfun í að horfast í augu við hættulegar aðstæður eða minningar um þær.

Þessar meðferðir eru sérlega mikilvægar þegar myndast hafa munstur og maður situr fastur í neikvæðum hugsunum eða minningum um hræðilega atburði.

Augnhreyfingameðferð (EMDR: Eye Movement Desensitization and Reprocessing) er sérhæf sálræn samtalsmeðferð sem einnig er notuð, ein og sér eða með þjálfunarmeðferðum, til að vinna úr erfiðum áfallaminningum án þess að endilega ræða þau mikið og breyta viðbrögðum við þeim.

Lyfjameðferðir gegn svefntruflunum, kvíða, þráhyggju og þunglyndi eru oftast verulega áhrifaríkar. Sérhæf fíknimeðferð SÁÁ og stuðningur AA samtakanna er oft afar mikilvægur bæði sem forvörn og meðferð.

Þó að við séum mismunandi mikið opin líður flestum betur að geta rætt áföllin við einhvern í trúnaði. Það getur verið einhver nákominn í byrjun eða annar sem maður treystir. Eða einhver innan heilbrigðiskerfisins eins og t.d. heilsugæslulæknirinn eða sálfræðingur eða geðlæknir og ráðgjafar Stígamóta. Munið að oft er best að gera þetta í skrefum og það er hægt að ræða um líðan sína og viðbrögð án þess að fara strax í lýsingar á því sem gerðist og var orsök áfallsins.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30