Dásamlegt að upplifa Dreka með barnabörnum
„Þrjátíu ár.“ Hilmar Antonsson þarf ekki umhugsunartíma þegar hann er spurður hversu lengi hann hafi haft fjallabakteríuna. Hann og kona hans, Helga Guðnadóttir voru stödd í Drekagili með alla sína afkomendur þegar blaðamaður hitti þau að tali í lok júlí, en þau hafa lengi verið virk í Ferðafélagi Akureyrar. Nákvæmlega í þrjátíu ár. „Við byrjuðum í Ferðafélaginu 1993 og ári síðar var mér strax kippt í Drekanefnd,“ segir Hilmar.
Hilmar hætti síðastliðið vor sem formaður Drekanefndar, en hann hefur ekki slegið slöku við þessi þrjátíu ár. Drekagil er í 780 m hæð yfir sjávarmáli og þar hefur Ferðafélagið byggt upp glæsilega 'vin í eyðimörkinni' fyrir ferðafólk sem á leið um Dyngjufjöll og norðausturhálendið. Hilmar er smiður og með góðri hjálp hefur hann byggt skálana sem daglega hýsa fjallafólk og vísindafólk. Í dag er hann hins vegar ekki með hamarinn og borvélina, heldur stórfjölskylduna og þau hjónin eru komin til þess að njóta.
Ekki nóg að byggja bara hús á fjöllum
„Ferðafélagið er svo góður félagsskapur og við höfum kynnst svo mikið af frábæru fólki. Ég hef komið hérna á hverju sumri og verið langdvölum að byggja húsin.“ segir Hilmar. Helga bætir við að það sé ekki bara nóg að byggja hús svona lengst upp á fjöllum. „Það þarf líka að koma hingað reglulega með gas, olíu og allskyns vörur og sinna viðhaldi. Passa að allt sé í lagi.“ Í Drekagili er gisting í boði fyrir 55 manns í skála og einnig er rekið tjaldstæði. Í nýjasta skálanum, Víti, er svo kaffisala og aðstaða fyrir ferðalanga á tjaldstæðinu til þess að geta borðað og hvílt sig innandyra. Það getur verið kærkomið, þar sem ekki er alltaf rjómablíða og logn uppi á hálendi.
Húsaþyrpingin í Drekagili. Talið upp lengst frá vinstri: Nýjasti skálinn, Víti, þar sem er kaffisala og aðstaða fyrir tjaldgesti. Tjaldstæðið fyrir aftan. Næstur er lítill skáli með sturtu- og klósettaðstöðu. Þriðji frá vinstri er svefnskáli ferðamanna, 'Askja'. Næstur er elsti svefnskálinn, 'Dreki'. 'Fjólubúð' er næst, en þar er núna afdrep skálavarðanna. Lengst til hægri er svo vinnu- og íbúðarskáli landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs, sá eini sem ekki er rekinn af FFA. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
„Maður sér alltaf eitthvað nýtt“
„Það er svo margt fallegt hérna,“ segir Helga aðspurð um svæðið. „Það er gaman að ganga inn í Drekagilið, gönguleiðina út í Nautagil, auðvitað upp að Öskjuvatni líka og svo er ekki langt í Herðubreið. Ég hef gengið héðan og upp á Herðubreið, en útsýnið yfir hálendið þar er ótrúlegt.“ Hilmar bætir við að það sé svo ekki hægt að krossa neitt af listanum, þar sem allir þessir staðir séu ólíkir upp á hvern dag. „Maður sér alltaf eitthvað nýtt. Þetta er síbreytilegt. Drekagil er til dæmis eiginlega aldrei eins frá ári til árs.“
„Víti er líka svona staður sem síbreytilegur,“ segir Helga. „Eftir því hvernig birtan fellur, getur maður séð eitthvað nýtt í gígnum í hvert skipti.“ Það eru tvær leiðir upp að Víti og Öskjuvatni frá skálunum í Drekagili, en bæði er hægt að keyra eftir góðum fjallavegi 8 km leið, þar sem er bílastæði og svo 2.5 km auðveld ganga upp að vatninu. Einnig er stikuð 8 km gönguleið yfir fjöllin frá gilinu, þar sem aðkoman að Öskjuvatni er einkar glæsileg.
Veðrið var mjög gott og þegar ég kom í gegn um skarðið breiddi öll Askjan úr sér og fjöllin stóðu á haus í spegilsléttu vatninu. Þetta er svona andartak sem maður gleymir aldrei
„Þetta er bara í annað skipti á þrjátíu árum sem við komum hingað bara til þess að njóta,“ segir Hilmar. „Þetta hafa alltaf verið vinnuferðir. Eitt skipti, fyrir fimmtán árum, komum við hingað þegar Helga ætlaði að leiðsegja hópi ferðamanna upp á Herðubreið. Ég fór með þeim í Herðubreiðarlindir og kom svo einn til baka. Þá fór ég loksins. Í fyrsta skipti í fimmtán ár, hafði ég tíma til þess að ganga fjallaleiðina upp að Öskjuvatni. Það var gjörsamlega ógleymanleg upplifun. Veðrið var mjög gott og þegar ég kom í gegn um skarðið breiddi öll Askjan úr sér og fjöllin stóðu á haus í spegilsléttu vatninu. Þetta er svona andartak sem maður gleymir aldrei.“
Öskjuvatn er næstdýpsta stöðuvatn á Íslandi, 11 km² að stærð og 220 m á dýpt. Víti er stærsti sprengigígurinn í Öskju. Gígurinn er um 60 metra djúpur og 300 metrar í þvermál. Umhverfis gíginn er vikurkeila, um 12 m há. Víti myndaðist í Öskjugosinu 1875. Á vef Vatnajökulsþjóðgarðs er hægt að skoða þrívíddarkort af gönguleiðum í Öskju. HÉR er kortið. Ljósmynd af Öskjuvatni og Víti: Unsplash.com/ Yoad Shjetman.
Dásamlegt að upplifa staðinn með augum barnabarnanna
„Það er mjög heilandi að koma upp í fjöllin,“ segir Hilmar. Helga bætir við að það sé til dæmis takmarkið með þessari ferð, með barnabörnin, að leyfa þeim að upplifa víðernin og ósnortna náttúru. „Við viljum leyfa þeim að upplifa að vera berfætt í sandinum, hlaupa um í svörtum sandi og finna svo gróður og kunna að meta hann. Sjá muninn á auðninni og lífinu í lindunum. Svo er gott fyrir okkur sem eyðum mestum tíma í bænum, að komast frá umhverfishljóðum. Þessi þögn er svo falleg.“
Hérna uppfrá getur þú ekkert reiknað með sumarveðri. Þú kemur ekki hingað til þess að njóta veðurblíðu
„Það er svo dásamlegt að upplifa svæðið með þeirra augum,“ segir Helga um fjölskyldufríið, sem senn er á enda. „Þetta er búið að vera ævintýri.“ Fjölskyldan gisti í skálanum í þrjár nætur og Hilmar segir að hljóðið í hópnum sé mjög gott, börnin séu búin að skemmta sér stórkostlega. „Við vorum svolítið stressuð með veðrið, spáin var ekki sérstök, en við höfum verið mjög heppin,“ segir Hilmar. „Hérna uppfrá getur þú ekkert reiknað með sumarveðri. Þú kemur ekki hingað til þess að njóta veðurblíðu, þó hún geti svo sannarlega látið sjá sig.“ Hilmar rifjar upp þegar hann vann hérna að því að byggja einn skálann, en þá kom heil vika þar sem var logn, glampandi sól og 25 stiga hiti. „Það er reyndar sjaldséð, en gerist svo sannarlega!“
Hilmar og Helga með allan hópinn við nýjasta skálann í Drekagili, 'Víti'. Skálinn var vígður árið 2022. Mynd RH
Hér má sjá myndband sem FFA hefur látið gera frá Drekagili:
-
Hilmar heitir fullu nafni Jakob Hilmar Árdal Antonsson og er frá Kleifum í Ólafsfirði en flutti til Akureyrar 1973. Hann er kominn á eftirlaun en vann alla tíð sem smiður. Helga er frá Selfossi og hefur unnið sem sjúkraliði í Heimahjúkrun mest allan starfsaldurinn, en er líka komin á eftirlaun.
Ferðafélag Akureyrar rekur skála á nokkrum stöðum, og félagið stofnaði nefnd fyrir hvern stað. Þannig ber Drekanefnd t.d. ábyrgð á aðstöðunni í Drekagili. Aðrir skálar félagsins eru í Laugafelli, Dyngjufelli, Bræðrafelli, Herðubreiðarlindum, Botni og svo er skálinn Lambi á Glerárdal. Auk þess skipuleggur félagið ótal ferðir, langar og stuttar, allt árið um kring. Áhugasöm um starfsemi og aðstöðu FFA er bent á að skoða heimasíðuna.