Danshópur frá Steps heimsmeistari!
Úrvalshópur frá dansskólanum Steps Dancecenter á Akureyri varð í dag heimsmeistari í jazzdansi! Heimsmeistaramótið í listdansi stendur yfir í Telford á Englandi, þar sem keppt er í allri flóru danslistarinnar, að sögn Guðrúnar Huldar Gunnarsdóttur, eiganda Steps.
Keppendur á mótinu eru frá 62 löndum, alls um 120.000 manns, en keppt er í fjölda mismunandi greina og aldursflokka. Akureyrsku stúlkurnar kepptu í því sem kallast Senior Jazz Large Group; í jazzdansi þar sem níu eða fleiri mega dansa saman.
HM átti að vera í Róm í fyrra en var ekki haldið vegna Covid. Keppninni 2020 og í ár er því slegið saman. Hópur frá Steps keppti í fyrsta skipti á HM 2019 og varð í áttunda sæti. Guðrún Huld segir að fyrir það mót hafi henni verið sagt að stefna að því að komast í hóp 10 bestu hópa – það væri frábær árangur. Enda var hún og hennar fólk alsælt með það, en sá árangur var heldur betur toppaður í dag!
Vegna Covid fóru ekki allir keppendur á staðinn að þessu sinni og þar af leiðandi er keppnin tvískipt í ár; annars vegna keppa þeir hópar innbyrðis sem mæta á staðinn og hins vegar þeir sem senda myndband af dansatriðinu. Akureyrski hópurinn fór ekki en dómarar töldu hann skara fram úr af þeim sem sendu myndband.
Hópurinn dansaði verk eftir Lindu Ósk Valdimarsdóttur, kennara í skólanum. Verkið heitir New Dawn og dansarar eru: Álfrún Freyja Heiðarsdóttir, Arna Sirrý Erlingsdóttir, Birta Ósk Þórólfsdóttir, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Bjarney Vignisdóttir, Diljá María Jóhannsdóttir, Ellý Sæunn Ingudóttir, Heiðdís Ósk Valdimarsdóttir, Helga Sóley G. Tulinius, Hildur Sigríður Árnadóttir, Karen Birta Pálsdóttir, Marín Ósk Eggertsdóttir, Sara Hlín Birgisdóttir og Sunneva Kjartansdóttir.
„Ég er ofboðslega stolt, bæði af kennurunum mínum og keppendum. Það er búið að leggja mikla vinnu í að ná árangri og ótrúleg góð tilfinning þegar við uppskerum svo glæsilega,“ sagði Guðrún Huld Gunnarsdóttir, eigandi Steps Dancecenter við Akureyri.net.